02.03.1929
Efri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

45. mál, einkasími í sveitum

Flm. (Jón Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer að flytja þetta frv. um einkasíma í sveitum ásamt tveimur öðrum hv. þdm., og skal jeg nú fara nokkrum orðum um ástæðurnar fyrir því. Eins og menn vita, fara kröfur um nýjar símalínur í sveitunum stórlega í vöxt, eins og raunar virðist eðlilegt, þar sem viðskifti manna á meðal aukast stöðugt. Kröfurnar stefna að því, að sem flest bygðarlög og jafnvel flestir bæir í sveitunum komist í símasamband. En búast má við, að það dragist lengi, að ýms bygðarlög geti átt kost á landssímalínu. Til þess að ná þessu marki kemur til álita, hvort heppilegra sje að leggja nýjar og nýjar landssímalínur upp um sveitirnar og áskilja framlög til þeirra frá hlutaðeigendum, eða gefa mönnum kost á einkasímum með ríflegum styrk frá landssímanum eða úr ríkissjóði. Auk þess er vert að athuga það, hvort þessi aukning á símakerfi sveitanna er æskileg. Ber þá á tvent að líta, afstöðu notendanna annarsvegar og afstöðu landssímans hinsvegar.

Jeg hefi orðið þess var, að ýmsar bygðir mundu frekar kjósa einkasíma, ef þær ættu kost á honum með ríflegum styrk, og sjálfur tel jeg, að hann mundi verða að almennari notum. Vitanlega yrðu notendurnir að greiða nokkru meira af stofnkostnaði við einkasíma en við aukalandssímalínu, þar sem hún fengist, og auk þess yrðu þeir að taka á sig viðhaldið, sem er ærinn baggi. En kostir einkasíma virðist að vegi fullkomlega á móti því.

Það, sem jeg tel helstu kostina við einkasímakerfið, er þetta:

1. Einkasímalínur ættu að komast fyr á í flestum tilfellum.

2. Auðveldara væri að leggja síma heim á bæina á því svæði, sem um er að ræða, og það mundi verða gert, jafnvel á flesta bæi í sumum sveitum.

Við það ynnist margt. Í fyrsta lagi, að sveitirnar færðust miklu meira saman og einangruninni, sem margir kvarta um, væri stökt á burt án þess að nokkuð tapaðist af kostum sveitalífsins. í öðru lagi yrði samstarf sveitanna meira eftir en áður og miklu ljettara fyrir nágranna að reka sín erindi. í þriðja lagi yrðu viðskifti heimilanna út á við miklu auðveldari, t. d. við sinn verslunarstað. Nú er svo komið, sem betur fer, að akvegir eru að komast í margar sveitir, er kvíslast svo óðum heim á bæina; og bifreiðarnar fylgja vegunum fast eftir. Þar sem svona er í haginn búið, yrðu bæir í símasambandi losaðir að talsverðu leyti við hinar tímafreku og dýru kaupstaðaferðir, því að þeir þyrftu ekki annað en að síma eftir þörfunum í kaupstaðinn til að fá þær með bifreiðinni. Loks geta bæir í símasambandi fengið veðurspár, og getur það orðið mjög þýðingarmikið hagræði, því fullkomnari sem veðurspárnar reynast.

Jeg vona, að mönnum verði það ljóst af þessu, sem jeg hefi nú sagt, að víðtæku símakerfi um sveitirnar verði ekki komið á nema með einkasíma, að það yrði til mikilla menningarbóta og hagræðis. Jeg tel það alt mikils virði, sem stuðlar að því að gera sveitalífið sem yndislegast og ljettast fyrir þá, sem þar búa.

Sje aftur á móti litið á hag landssímans, þá hygg jeg, að reynslan muni vera sú, að einkalínur upp í sveitirnar, með 1 og 2 stöðvum í hverri sveit, gefi næsta lítið af sjer. Við starfrækslu þeirra er nokkur kostnaður og talsverð endurskoðun á reikningum o. fl., en tekjur vilja heimtast mjög misjafnlega. Sjeu aftur á móti einkasímar á mörgum bæjum með einni miðstöð, má vænta þess, að tekjur yrðu meiri. Auk þess myndi landssíminn losna við viðhald þar sem einkasímarnir væru. Jeg held því, að frv. þetta yrði til stórbóta fyrir landssímann, ef samþ. verður. Tekjur myndu stóraukast, en áhætta engin. Jeg hefi borið frv. þetta undir landssímastjóra, og var hann því mjög hlyntur. Gerði hann að vísu lítilsháttar breyt. á frv. eins og það var í upphafi, og hefir hún verið tekin upp í frv. Að vísu lagði hann til, að landssíminn greiddi aðeins helming kostnaðar, en við höfum í frv. gert ráð fyrir 3/5. Hinsvegar ætlumst við ekki til, að landssíminn greiði neitt af flutningskostnaði frá skipsfjöl. Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál og leyfi mjer að æskja þess, að því, að lokinni umræðu, verði vísað til samgmn.