16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

28. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Jeg þarf, sem flm. þessa frv., ekki að mæla margt með því. Það hefir fengið svo góðar undirtektir hjá öllum nefndarmönnum, nema einum, sem jeg bjóst heldur ekki við að mundi mæla með því.

Jeg skal út af brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef) geta þess, að jeg er ekki á móti henni í sjálfu sjer. Jeg er með því að sveitfestitíminn eigi að vera sem stystur. En hinsvegar verð jeg að líta svo á, að í málum eins og þessum, sem vitanlega hafa talsverða fjárhagslega breytingu í för með sjer fyrir margar sveitir landsins, sje ekki rjett að taka mjög stór stökk. Eins og við munum, var hjer 10 ára sveitfestitími, sem mæltist afarilla fyrir. Hann kom ójafnt niður og á þá leið, að þeir sluppu, sem höfðu aðstöðu til þess að bera mikil sveitarþyngsli, en þeir, sem höfðu versta aðstöðu, á þá var þunga hlaðið. Nú hefir verið um sinn fjögurra ára sveitfestitími. Mín reynsla er sú, að yfirleitt hafi sú breyting orðið til talsvert mikilla bóta. Það hefir fækkað að mun viðskiftum sveitastjórna út af framfærslumálum. Og það er aldrei nema gott, og verður ætíð rjettlátast, að hver maður fái þar framfæri, sem hann er niður kominn, þegar hann þarf með. En jeg bar þetta frv. fram út af þeim agnúa, sem hefir komist inn í lögin, að þáguárin væru fleiri en sveitfestiárin. Mín reynsla er, að flest af þeim tilfellum um sveitfestimál, sem komið hafa fyrir, sjeu vegna þess, að þáguárin voru fleiri en sveitfestiárin.

Nú lít jeg svo á, að þar sem 4 ára sveitfestitíminn hefir dregið úr þessum viðskiftum sveitastjórna, þá muni óhætt nú að setja hann niður í tvö ár. Jeg hefi ekki þorað að fara lengra, enda þótt heyrst hafi raddir allháværar um að stytta tímann í eitt ár, — og sumir hafa viljað láta dvalarsveit vera framfærsluhjerað, — blátt áfram af því, að jeg er ekki viss um, hvernig þetta fer. Ef maður fer of langt, er jeg hræddur um, að það verði til þess að ýta undir leiðindabrellur sveitastjórna til þess að koma mönnum af sjer. Auk þess eru ýms fyrirkomulagsatriði viðvíkjandi því, ef dvalarsveit á að vera framfærslusveit, sem þarf að breyta á ýmsan hátt. Það er ekki auðhlaupið að koma á þessari breytingu, það þarf að laga alt kerfið á ýmsan hátt.

Nú heyri jeg, að ýmsir, sem þykir þessi stytting sveitfestinnar ekki fara nógu langt, ætla að vera á móti því. En jeg get ekki skilið hugsunarhátt þeirra manna. Það er áreiðanlegt, að það er mjög varlega gerandi að fara mjög hart að þessu fyr en maður hefir nokkra reynslu með því að láta sveitfestitímann vera um nokkurra ára bil tvö ár. Þá geta menn fengið reynslu um, hvernig það verkar. Ef það verkar til bóta, eins og stytting sveitfestinnar í fjögur ár, þá skilst mjer, að þeir, sem vilja hafa hann sem stystan, fái byr undir báða vængi. Og yfirleitt held jeg það sje oft hentugt að hugsa sem svo, að betri sje hálfur hleifur en enginn, og þó að einhver lagfæring fari ekki eins langt og maður óskar, þá sje altaf til bóta, að það miði eitthvað í áttina.