16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í C-deild Alþingistíðinda. (2853)

28. mál, fátækralög

Magnús Jónsson:

Hv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (HV), hefir nú sagt margt af því, er jeg hafði hugsað mjer að segja þegar jeg kvaddi mjer hljóðs. Jeg vildi anda á móti sumu því, er hv. 1. þm. N.-M. sagði í sambandi við hina einkar fróðlegu skýrslu sína. Mjer virtist hann eins og gefa í skyn, að sveitarþyngslin í kringum Reykjavík stöfuðu af því, að Reykjavík framleiddi ómaga, er hún flytti svo út um sveitirnar. En þetta er vitanlega fjarstæða ein, þegar þess er gætt, að Reykjavík sjálf er miklu hærri en nágrannasýslurnar að undantekinni G.-K., en þar eru sveitarþyngslin mest, eftir því sem skýrslan segir. Aftur á móti er ástandið strax betra þegar kemur upp í Borgarfjörð. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu er fátækraframfærslan talsvert fyrir neðan meðaltal, og austanfjalls líka, a. m. k. í Rangárvallasýslu. Það verður því að leita að öðrum ástæðum fyrir því, hvers vegna t. d. Gullbringusýsla er svona illa stödd. Til þess liggja sjerstök atvik. Sumir hreppar sýslunnar eru, vegna legu sinnar, að mestu eða öllu leyti háðir sjávarafla. En þegar aflaleysisárin komu og atvinnan brást, komust heilir hreppar svo að segja á vonarvöl, svo að þeir hafa ekki borið barr sitt síðan. En vöxtur bæjanna, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, hefir óbeinlínis orðið þess valdandi, að þangað hefir fólkið horfið í þeirri von, að þar væri þægilegra að komast áfram, og hefir mörgum, sem betur fer, orðið að von sinni. Jeg hefi ekki brjóst í mjer til þess að hryggjast yfir slíku.

Annars ætla jeg ekki að hætta mjer langt út á þann hála ís, að tala mikið um þessi mál; jeg þykist vita, að allir þeir hreppstjórar og oddvitar, sem sæti eiga hjer á þingbekkjunum, telji sig færari um að leggja til málanna það, sem dugar. Þó langar mig að veita hv. minni hl. lið, því að jeg lít eins á þetta mál og hann, að frv. eigi ekki að verða að lögum í þeirri mynd, sem það er.

Stytting sveitfestitímans er að mínu viti hugsunarvilla, meðan ekkert er gert til þess að jafna tekjum milli framfærsluhjeraða. Því styttri tíma sem maður hefir dvalið á einum stað, því minni kröfur á hann til styrks af þeirri sveit. Eina skynsamlega ástæðan fyrir því, að ákveða vissan og það nokkuð langan sveitfestitíma, er sú, að maður, sem unnið hefir ákveðinn tíma í sömu sveit og goldið þar allar skyldur og skatta, eigi kröfur á framfærslu þar. Sje gengið út frá þessari hugsun, þá virðist gamli sveitfestitíminn næst því að vera rjettur, en hugsunarvilla að stytta tímann án þess að taka afleiðingunum.

Sama er um hitt atriðið að segja, að sá, sem vinnur sjer sveitfesti, má ekki hafa þegið sveitarstyrk áður. Þetta er ekkert annað en varnagli gegn misnotkun sveitarstyrksins. Því að þau 2 ár, sem hann dvelur í nýju sveitinni án þess að þiggja, geta ekki bætt upp það, sem áður hefir verið þegið.

Annars vildi jeg vekja athygli á, að skýrsla hv. 1. þm. N.-M. er mjög athyglisverð. Hún er besta sönnunin fyrir því ákaflega misrjetti, sem á sjer stað í framfærslukostnaði hinna ýmsu hreppa í landinu. En mjer er það hulinn leyndardómur, hvernig menn hugsa sjer að bæta úr því misrjetti með því einu, að stytta sveitfestitímann, færa hann niður í 2 ár eða jafnvel 1 ár, nema þá að tilgangurinn sje sá, að gera sveitastjórnum auðveldara fyrir um að gera sveitarómaga að útflutningsvöru. Stytting sveitfestitímans er því í mínum augum fánýt, og mundi auk þess valda meira ranglæti í framkvæmdinni og virðist þó ekki bætandi á það, sem nú á sjer stað.

Jeg hefi þá með þessum fáu orðum gert grein fyrir minni afstöðu til þessa máls og mun því greiða atkv. á móti frv. (HStef: Það var slæmt!)