20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

45. mál, einkasími í sveitum

Páll Hermannsson:

Mjer virtist svo, sem kendi nokkurs misskilnings hjá hv. 6. landsk., er hann talaði um fyrri brtt. n. Hann virtist líta svo á, að einstaklingar í sveitum, er aðgang ættu að einkasímalínu, ættu frekar undir högg að sækja hjá fjelaginu, ef brtt. yrði samþ. Þetta er ekki rjett. Brtt. ætlast einungis til þess, að landssímastjóri hlutist til um það, að einkasímalínur verði eigi ofhlaðnar vegna talfærafjölda, en af hans íhlutun leiddi aldrei annað en það, að þráðum yrði að fjölga á línunni. Menn eiga því ekki undir högg að sækja hjá fjelögunum. Mjer skilst og, að menn verði að gera sjer grein fyrir því í byrjun, um hvað marga notendur á hverri línu geti verið að ræða, og svo verði að haga lagningunum eftir því, því ekki má ætla sjer að leggja skyldur á herðar þeim, er gætu svo ekki orðið rjettarins aðnjótandi.

Síðari brtt. fer fram á það, að gjaldið fyrir talfæri hækki úr 5 kr. í 10, og er því í sjálfu sjer smábreyt., enda þó að það sje nokkur hækkun frá því, er frv. ætlast til. Það er rjett hjá hv. 6. landsk., að slíkt gjald er ekki nema 10 kr. í kaupstöðum. En þá er það aðgætandi, að þar eiga notendur sjálfir línuna og öll tilheyrandi áhöld, en hjer í þessu tilfelli yrði það svo, að landssíminn væri búinn að hjálpa mönnum mikið til þess að eignast þau. Einkasímar hefðu að sjálfsögðu stöðvar af ýmsum flokkum fyrir milliliði, og gæti ekki komið til mála, að þeir hefðu rjett til afgreiðslu lengur en þann tíma, sem viðkomandi miðstöð væri opin. En af símanotkun einkasíma gæti vel leitt, að lengja þyrfti starfstíma stöðva, t. d. gera 2. fl. stöð úr 3. fl. stöð. Og þó af því leiddi ef til vill nokkurn tekjuauka fyrir landssímann, þá er vafasamt, að hann samsvari þeim kostnaði, sem slík breyt. hefir í för með sjer.

Þó það sje lítið, sem um er deilt, hygg jeg þó, að brtt. n. sjeu til bóta, og legg jeg því eindregið með því, að þær verði samþ.