05.03.1929
Neðri deild: 14. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Pjetur Ottesen:

Það mátti fullkomlega búast við því, að þeir eldar, er logað hafa hjer í Reykjavík síðan mál þetta kom fram, mundu eigi síður loga glatt, þegar það kæmi til umr. hjer á Alþingi. Sú hefir og orðið raunin á. Mikið hefir þegar um frv. þetta verið talað, en það sem sætir mestri furðu er það, að þeir, sem á móti frv. leggjast, leggja í það alt aðrar meiningar og draga af því aðrar ályktanir en frv. gefur tilefni til.

Þeir halda því fram, að hjer sje verið að svifta verkamenn umráðarjetti yfir vinnu sinni, og að hjer sje verið að leggja þvingunarklafa á verkamenn. — Ef hjer væri um nokkra þvingun að ræða, næði hún jafnt til atvinnurekenda og verkamanna, því að það er um mál þessara tveggja aðilja, sem dómurinn á að fjalla. En hjer er um enga þvingun að ræða fyrir hvorugan aðilja. Aðeins er verkamönnum ekki heimilt að leggja niður vinnu, nje atvinnurekendum að koma á verkbanni, meðan sáttatilraunir standa, eða málið er í dómi. — Það er ekki hægt að finna nein önnur þvingunarákvæði í frv., þótt leitað væri með logandi ljósi. Verkamenn eru ekki skyldaðir til þess að vinna, ef þeir sætta sig ekki við það kaup, sem dómurinn, eftir rannsókn á öllum málavöxtum, telur hæfilegt, og ekki eru útgerðarmenn heldur skyldaðir til þess að gera út skip sín, ef þeir sjá sjer það eigi fært. Báðir aðiljar eru sjálfráðir gerða sinna, og viðurlög eru engin í frv., þótt dóminum sje ekki fylgt. Það, sem hv. 2. þm. Reykv. vitnaði í, að farið mundi eftir öðrum lögum í þessu efni, nær ekki nokkurri átt. Það er staðhæfing, sem ekki á neina stoð í raunveruleikanum.

Mig furðar á því, að eftir að búið er að slá þennan skilning og þessar fullyrðingar andstæðinga frv. svo rækilega niður, bæði á fundum og í blöðunum, skuli hv. þm. fara að flíka þessu enn á ný hjer á Alþingi. Það má náttúrlega halda því fram, að þetta kunni að draga úr þýðingu slíks dómstóls, en við nánari athugun kemur í ljós, að svo er ekki. Dómstóllinn hefir heimild til að kynna sjer öll þau gögn, sem máli skifta, þar á meðal rannsaka greiðsluhæfi atvinnurekendanna, en slík rannsókn mundi leiða af sjer heppilega úrlausn málsins, sem báðir aðiljar gætu fullkomlega sætt sig við.

Eftir því, sem jeg hefi heyrt, virðist stærsti ágallinn á sáttatilraunum þeim, er gerðar hafa verið, hafa verið sá, að þeir, sem tilraunirnar gerðu, gátu ekki til hlítar kynt sjer afkomu aðilja á báða bóga.

Úr þessu yrði bætt með frv. þessu um dóm í vinnudeilum, og má gera sjer hinar bestu vonir um, ef lögtekið verður, að á þann hátt megi takast að ráða bót á því þjóðfjelagsböli, er af verkföllum og verkbönnum leiðir. Og þetta mál horfir þannig við frá mínu sjónarmiði, að það megi fullkomlega treysta því, að þessi meðferð málsins mundi leiða til þeirrar niðurstöðu, er báðir aðiljar gætu orðið ásáttir um. Munurinn frá því, sem nú er, og ef þetta verður tekið upp, er sá, að samkomulag næðist, án þess að vinnustöðvun ætti sjer stað. Reynslan hefir sýnt, að öll verkföll hjer hafa endað með samkomulagi, en undanfari slíks samkomulags, verkföll um lengri og skemmri tíma, hefir oft valdið stórtjóni. Verktöfin hefir ætíð skert mjög, eða jafnvel jetið alveg upp ávinninginn, sem fást átti með verkfallinu, og svo mun einnig að þessu sinni.

Jeg býst við því, að tjón það, er af síðasta verkfalli leiddi fyrir landið í heild sinni megi telja í hundruðum þúsunda, ef eigi miljónum króna.

Nú er það ætíð svo, að tjónið af verkföllum bitnar á öllum landsmönnum, líka þeim, er stofna til verkfallanna í því augnamiði, að fá kjör sín bætt. — Mjer er því spurn: Hvernig í ósköpunum stendur þá á því, að ekki skuli geta tekist bróðurleg samvinna um það, að gera tilraunir til að ráða bót á þessu þjóðfjelagsböli?

Við höfum nú um hríð staðið augliti til auglitis við þann þjóðfjelagsvoða, sem af verkföllum stafar, þar sem dýrustu og fullkomnustu atvinnutæki, sem til eru í þessu landi, hafa verið bundin hjer við steingarða hafnarinnar í einhverri þeirri mestu öndvegistíð, sem komið hefir yfir þetta land á þessum tíma árs. Og þegar samfara slíkri tíð hefir verið gnægð fiskjar hvarvetna við strendur landsins meir en dæmi eru til á þessum tíma, hvernig stendur þá á því, að til skuli vera þeir menn, sem með offorsi, óbilgirni og aðdróttunum um illar hvatir, ráðast á þá, er af heilum hug og einlægri löngun til þess að vinna þjóðfjelaginu gagn, bera fram tillögur til þess að koma í veg fyrir þau vandræði og þá neyð, sem af verkföllum stafar í hvívetna.

Hvernig stendur á því, að þessir menn ranghverfa efni og innihaldi þessara tillagna, bæði í blöðum og á fundum og meira að segja hjer á hinu háa Alþingi, og draga af þeim aðrar ályktanir en efni eru til, og kalla þær þrælalög og öllum illum nöfnum, sem þeirra frjósömu heilar geta framleitt? Telja þeir máske nauðsynlegt að fara þannig með till. þessar, til þess að fá framknúðar samþyktir verkalýðs- og sjómannafjelaganna víðsvegar um land sjer í vil? Það eitt er áreiðanlega víst, að það er ekki af umhyggju fyrir vinnufriðnum í landinu nje góðri afkomu landsmanna yfirleitt, að þeir hafa tekið þessa afstöðu til málsins. — Jeg skal taka það fram, að við flm. þessa frv. erum þess albúnir, að taka til athugunar breytingar á einstökum atriðum frv., er til bóta mættu verða. — Nei, orsökina til framkomu þessara manna verður að rekja til þess, að það er yfirlýst grundvallarskoðun þeirra, að koma eigi ríkisrekstri á allar atvinnugreinir landsmanna. Þeir líta þess vegna svo á, að hver tilraun, sem gerð er til þess að tryggja vinnufriðinn í landinu á grundvelli núverandi skipulags, sje hindrun á braut þeirra til almennrar þjóðnýtingar. Virðist mjer það því augljós vottur þess og viðurkenning frá þeirra hendi, að þessar till., ef þær ná fram að ganga, sjeu líklegar til þess að tryggja vinnufriðinn í landinu. Hinar hóflausu árásir, er þeir hafa hafið gegn þessari viðleitni, benda fyllilega til þessa. En þar eð þessu er þann veg farið, leiðir af því, að allir þeir, er byggja vilja á núverandi þjóðskipulagi og tryggja vinnufrið í landinu á grundvelli þess, verða að taka höndum saman um það, að finna heppilega úrlausn þessa vandamáls, því að á því veltur velmegun og afkoma þjóðarinnar í nútíð og framtíð.