07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jón Ólafsson:

Það er nú búið að ræða þetta mál nokkuð til hlítar, og býst jeg við, að flest hafi verið tekið fram, sem nokkru verulegu máli skiftir. Hv. meðflm. minn (PO) hefir rekið margt ofan í andstæðinga frv., sem því kemur við, en hinsvegar hefir margt verið sagt í sambandi við þetta mál, sem ekki er því viðkomandi.

Hv. þm. Mýr. (BÁ) talaði af góðvilja um þetta mál, en því miður af helst til ónógri þekkingu. Get jeg þó ekki látið ógert að svara honum í fám orðum. Það, sem að mínu áliti er aðalatriði þessa máls, er það, að atvinnuvegum okkar sje ekki íþyngt með svo háum og ósanngjörnum kröfum, að þeir geti ekki undir risið. Það er þetta, sem mestu máli skiftir. Skipulagið er að vísu stórt atriði, en þó enganveginn einhlítt, því hvað stoðar slíkt, ef atvinnuvegirnir sligast undan byrðunum. Þetta ætti að vera öllum ljóst, sem hugsa skynsamlega um málið. Það er nú búið að reyna 3 tegundir útgerðar, og þar af hafa tvær ekki risið undir byrðunum. Ekki er því þó um að kenna, að ekki hafi verið fullkomið rjettlæti í skiftingu afla og arðs, heldur því, að kröfurnar hafa verið settar svo hátt, að alt hefir farið út um þúfur, og útgerðin flæmst út úr landinu. Ef þetta á svo til að ganga framvegis, og aldrei verður í hóf stilt kröfunum, er nokkurnveginn einsætt um framtíð hinnar íslensku útgerðar. Ein kórvilla jafnaðarmanna, sem þeir ekki vilja kannast við, en hljóta þó að sjá, er það, að um leið og þeir gera meiri og meiri kröfur til útgerðarinnar og gera henni nauðugan einn kost að draga sig til baka, um leið gerast þeir böðlar sinna eigin skjólstæðinga, með því að svifta þá atvinnu og lífsviðurværi. Þetta er öldungis ómótmælanlegt, og það er ekki af því, að þessir menn viti þetta ekki og sjái, heldur hlýtur það að vera af öðrum lakari ástæðum. Hjer er því ekki skipulaginu um að kenna, enda myndi vera gert meira að því að láta háseta hafa hlut í afla á togurum, ef slíkt hefði ekki reynst eins illa og raun er á. Og vert er að gefa því gaum í þessu sambandi, að slík hlutdeild hefir oft komið til orða í herbúðum andmælenda þessa frv., og jafnvel að taka fleytu og gera hana út eftir þeirra aðferðum, en þá hefir viðkvæðið ávalt verið það, að verkamenn skyldu ekki vera svo heimskir að láta sjer detta slíkt í hug. Heldur hitt, að heimta sífelt meira og meira. Mál þetta hefir oft borið á góma meðal jafnaðarmanna, en ávalt verið kveðið niður. Foringjarnir hafa sjeð það og skilið, að slíkt myndi ef til vill hefta þá á þeirri braut æsinga og undirróðurs, sem þeir löngum hafa lagt stund á að tæla verkalýðinn út á.

Þá mintist hv. þm. Mýr. á það, hvers vegna verkföll kæmu aldrei í landbúskapnum. Því er fljótsvarað, því eins og hv. þm. mun vera vel kunnugt, er nú á tímum varla um nokkurt óviðkomandi fólk eða daglaunafólk að ræða í sveitunum. Kröfurnar eru orðnar svo háar, þar eins og annarsstaðar, að bændur treysta sjer ekki til að halda launahátt fólk. Þar er ekki lengur um þetta gamla og friðsamlega hjúahald að ræða. Og að svo miklu leyti, sem bændur geta ekki bjargast af við sinn eigin vinnukraft og fjölskyldu sinnar, eru þeir auðvitað neyddir til að minka um sig og draga saman seglin. Þannig er ástandið orðið um allar sveitir lands. — Það er undirbygging atvinnuveganna og traustleiki þeirra, sem skapar blómlegt atvinnulíf, en ekki það, að gera svo háar kröfur til þeirra, að þeir geti ekki veitt þeim, sem að þeim standa, sæmilegt lífsviðurværi. Þetta vita jafnaðarmenn sjálfir ósköp vel. Þess vegna vilja þeir leggja alla atvinnuvegina í rústir á þennan hátt, til þess að geta síðan, að loknu eignaráninu úr höndum einstaklinganna, þjóðnýtt alt eftir sínum aðferðum.

Jeg lofaði hæstv. forseta því í upphafi að vera stuttorður, og ætla að efna það. Ætla jeg þá fyrst að snúa mjer að hv. 2. þm. Reykv. (HV), og víkja stuttlega að nokkrum atriðum í ræðum hans. Mjer sást eiginlega yfir nokkuð í síðustu ræðu minni, þar sem hann í fyrstu ræðu sinni kvað svo að orði, að hann hefði ekki trú á 8. grein frumvarpsins, sem ákveður, að rannsókn skuli fara fram á hag aðilja, ef þess þyki þurfa til skýringar á málsatriðum, og svo skuli dæmt á þeim grundvelli. Hefir sú skoðun komið áður fram hjer í hv. deild, að rjettarfar okkar sje svo illa komið, að ekki sje að treysta undirdómi nje yfirdómi. Sami hv. þm. segir: „Menn vita alment hvernig hæstirjettur dæmir milli alþýðu og auðvalds.“ Er ekki von að slíkir menn hafi mikla trú á dómum, sem halda rjettarfar okkar svo rotið, eins og hjer er gefið í skyn. Hv. þm. er mjög illa við það, að jeg gat um það í fyrri ræðu minni, að mikill fjöldi verkamanna, þ. á m. úr Dagsbrún, væru slíku frv. sem þessu meðmæltir. Ber hann þetta til baka, en jeg hefi verið á fundi, þar sem sárfáir verkamenn voru á móti slíku frv. sem þessu, en flestir virtust hlutlausir ef ekki meðmæltir því.

Hv. 2. þm. Reykv. tók nokkuð nærri sjer þegar jeg sagði, að hann hefði ekkert vit á þessu máli. Jeg stend við það. Hann hefir ekkert vit á þessu og hefir aldrei ætlað sjer að hafa það. Annars hefði hann ekki stuðlað að því, að dembt yrði á slíkri bölvun, sem verkföllin eru. Hann setur menn í æsingu þegar verkföll eru boðuð, og styður þau hryðjuverk, sem þeim eru samfara.

Hv. sami þm. talar um rjettláta skiftingu tekna á rjettlátum grundvelli. En þar sem hann hefir ekki gengið hjer sjálfur á undan með góðu eftirdæmi, verður þetta ekki kallað annað en hræsni, þar sem hann sýnir það ekki sjálfur, en prjedikar öðrum að gera það. Ætti hann í slíku máli sem þessu að byrja sjálfur með eigin krafti, en ekki að draga sig til baka og skipa öðrum út í ófæruna.

Þá veittist hv. þm. harkalega að einum flm. þessa frv. Jeg ætla ekki að hafa yfir þau ummæli, en þar sem hv. þm. var að tala um það, að verkamannafjelagið „Dagsbrún“ hefði blómgast í seinni tíð og komið miklu góðu til leiðar, vil jeg benda á það, að þetta fjelag tók mestum framförum á allan hátt meðan sá flm. frv. var formaður þess, sem hv. þm. hallmælir nú svo mjög. Ef hv. þm. vill kalla það spor í rjetta átt, þegar á að þvinga menn til þess að reka úr vinnu þá menn, sem ekki vilja ganga í „Dagsbrún“, þá verð jeg að segja, að hann sje ekki allskostar sjálfum sjer samkvæmur, þegar hann prjedikar vinnufrelsi. Ef nokkuð eru veruleg þrælatök á einstaklingsfrelsi manna, þá er það þetta, að reka menn í fjelagið til þess síðar að reka þá úr vinnu.

Jeg sje enga ástæðu til að svara hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ). Hann fór algerlega utan hjá því efni, sem felst í þessu frv., en hjelt sig við smávægileg aukaatriði. Datt mjer þá í hug formaðurinn, sem fór landveg langa leið af því að honum þótti of hættulegt að fara sjóleiðina. Þessi hv. þm. er eins. Hann teygir lopann með sögum, sem ekkert koma málinu við, og hávaðaglamri. Get jeg ekki skilið hvaða áhrif sögur hans um samninga hingað til og endalok þeirra geta haft á þetta mál.

Þá hefi jeg ekki mikla ástæðu til að svara hv. þm. Ísaf. (HG), því að öll aðalatriði ræðu hans er nú búið að reka svo rækilega ofan í hann, og það nú síðast af hv. þm. Mýr. (BÁ). Annars fanst mjer alt annað en prúðmannlega tekið á móti hjá honum, þegar talað var um bein og beinamaskínu. Hjelt jeg þó, að hann vildi í umræðum fara sem gætilegast kringum þetta hættulega beinasoð. Nú vill svo til, að jeg þekki ummæli af verkamannafundi, þar sem bornar voru svo þungar sakir á hv. þm. í þessu efni, að hann þorði ekki að æmta nje skræmta, og fór út án þess að segja nokkurt orð. (HG: Vill ræðumaður tilgreina fund og fundarmenn?) Jeg vil fylgja þeirri almennu reglu, sem flestir telja sjálfsagða, nema ef til vill hv. þm. Ísaf., að vera ekki að stagast á nöfnum einstakra manna hjer í hv. deild. Vil jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta, þar sem jeg lofaði að verða stuttorður, enda eru ræður nú orðnar margar og langar, og er nóg komið af svo góðu.