07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ólafur Thors:

Jeg veit ekki, hvort hv. þdm. hafa veitt því athygli, að hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) er nú búinn að tala fullar 4 klst. í þessu máli, og samt verður naumast sagt, að nokkur maður hafi svarað honum. Svo stendur þessi hv. þm. upp með miklu yfirlæti og talar um, að menn þori ekki til við sig. Er þá svo mikill ofmetnaður þessa hv. þm. að hann skilji ekki, hvað því veldur, að enginn hefir svarað honum? Hann getur neytt menn til að hlusta á sig, og þó þá eina, sem skylduræknastir eru. En hann getur engan neytt til andsvara. Fáir hafa hlustað en enginn svarað. Ástæðan er sú að ræður hans í þessu máli eru svo langt fyrir neðan ræður flokksbræðra hans, að til þeirra beina fylgismenn frv. orðum sínum en ekki hans. En það lítur út fyrir að hv. þm. þurfi að reka sig alvarlega á til þess að honum skiljist, hvert álit hv. deild hefir á ræðumensku hans. Og jeg skal nú lofa honum því, að leysa þessi vandræði hans og deildarinnar með því, að taka ærlega í lurginn á þessum hv. þm. og lækka í honum rostann, áður en langt um líður.