10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Magnús Torfason:

Það mun vera þýðingarlítið að þræta lengur um þetta mál. Það er nú komið á daginn, sem jeg vitaskuld þóttist hafa nokkurn pata af, að hugur þeirra aðilja, sem þetta mál helst snertir, mundi ekki standa til þess að leiða það til lykta á friðsamlegan hátt, og með því hefir verið sannað það hugboð mitt í fyrstu, að ekki mundi vera neinn vegur til að láta þetta mál ganga fram að sinni.

Jeg hefi skrifað hjá mjer ýms orð, sem hjer hafa fallið í kvöld, en þar sem talsvert er orðið áliðið, skal jeg ekki rekja það neitt frekar, en þó hefi jeg sjerstaklega höggvið eftir því, að það er alveg sýnt, að þetta mál á að nota sem bitbein á næstu þingmálafundum, af mönnum, sem að því standa. Berlegast kom þetta fram í ræðu hv. þm. Borgf. (PO), sem lýsti því yfir, að mín afskifti af þessu máli sýndu hræsni, yfirdrepskap og blygðunarleysi. — Jeg hefi, hvorki fyr nje síðar, skotið skökku orði til þessa hv. þm. (PO), en það má heita, að jeg hafi varla tekið svo til máls um þau mál, sem deilt hefir orðið um, að hv. þm. hafi ekki þurft að breyta í mig svívirðingarorðum; aldrei hefi jeg heldur svarað hv. þm. í sömu mynt, og mun ekki heldur gera það, því að slík orð sýna aðeins, hvað inni fyrir býr, og það sýnir mjer enn fremur það, að jafnvel hv. þm. (PO), sem jeg hjelt að mundi líta nokkuð óvilhallari augum á þetta mál heldur en þeir, sem mestir öfgamenn eru í hans flokki, er ekki á nokkurn hátt fær til að gera sjer það í hugarlund, að tillögur okkar sjeu á neinni alvöru bygðar.

Jeg býst við því, að mjer gefist kostur á því síðar að koma að frv. því, sem jeg ber hjer fram með hv. 2. þm. Rang., og get jeg þar tekið til athugunar ýmislegt af því, sem sagt hefir verið hjer í kvöld. Þó að jeg þykist vita það, að þetta mál horfi nokkuð öðruvísi við en jeg hafði gert mjer í hugarlund, þá er þó fram komið við þessa umr., að ekki líta allir, sem standa að frv. um vinnudóminn, sömu augum á það, eins og þeir tveir hv. þm., sem sjerstaklega hafa um það rætt.

Það hefir verið tekið fram, að slíkt frv. sem það, er jeg bar fram, væri gagnslaust, menn gæti altaf lagt mál í gerð. En þá vil jeg spyrja: Voru þá ekki lögin um sáttatilraunir í vinnudeilum það sömuleiðis? Er ekki altaf hægt fyrir hvern mann að láta mál í sátt? Af þessu ætti það að vera bert, að mál eins og þetta getur altaf gert mikið gagn, ef hugur fylgir máli.