04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

52. mál, útsvör

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg get tekið í sama streng og hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að jeg er þakklátur þeim, sem opna dyrnar að breytingum á núgildandi útsvarslögum. Jeg hafði sjálfur haft í huga að koma fram með tillögur til breytinga á þeim. Einu atriði vil jeg að þessu sinni sjerstaklega vekja athygli hv. nefndar á. Það er kærufresturinn í kaupstöðunum. Í lögunum er svo ákveðið, að kærufrestur sje í sveitum 4 vikur en í bæjum 2 vikur. Með þessum hætti eru sjómenn í raun og veru að mestu leyti oft og einatt útilokaðir frá því að kæra útsvör sín, svo niðurjöfnunarnefnd hefir algert hæstarjettarvald um þau. Kæru er ekki hægt að skjóta til yfirskattanefndar, nema að hún hafi áður legið frammi fyrir niðurjöfnunarnefnd. Sjómenn eru oft úti á sjó um það leyti, sem skráin kemur út og liggur frammi gjaldendum til athugunar og er þeim því ómögulegt að nota rjett sinn til að kæra útsvar sitt, að jeg ekki nefni farmenn, sem eru lengri tíma í siglingum en kærufrestinum nemur. Jeg vil beina því til hv. nefndar, að hún taki þessa breytingu upp, ella mun jeg koma með brtt. við frv. Mjer virðist öll sanngirni mæla með því, að sami kærufrestur sje í bæjum og sveitum, þar sem sýnt er, að annars eru menn útilokaðir frá að geta kært útsvar sitt.