04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í C-deild Alþingistíðinda. (2971)

52. mál, útsvör

Pjetur Ottesen:

Þær óánægjuraddir, sem heyrst hafa gegn lögunum frá 1926, hafa einkum komið frá bæjunum, og þó sjerstaklega frá Siglufirði. Eins og kunnugt er, var eftir gömlu lögunum hægt að ganga svo hart að mönnum um útsvarsálagningu, þar sem þeir stunduðu atvinnu utan heimilissveitar sinnar að ekki náði neinni átt. Oft voru lögð þar margfalt hærri útsvör á menn en fært þótti í heimilissveit þeirra, þar sem mönnum voru kunnari efni þeirra og ástæður. Það er því ekki ástæða til að kippa sjer upp við það, þótt bæjarfjelögin kvarti yfir þeim spæni, er þau hafa mist úr aski sínum. En þeir, sem líta svo á, að efni manna og ástæður sjeu heppilegur grundvöllur fyrir útsvarsálagningu hljóta að líta svo á, að breytingin, sem gerð var 1926, hafi verið fullkomlega rjett, enda var henni alment fagnað út um bygðir landsins. Það mundi því vekja mikla óánægju þar, ef þessu yrði nú breytt í gamla horfið.

Jeg vil taka fram um þetta frv. er hjer liggur fyrir, að rjett er, að oft er lítið komið inn af útsvörum 15. júlí í sveitum, og oddvitar eiga því erfitt með að inna að fullu skil á greiðslu sýslusjóðsgjalds, en hingað til hefir þetta ekki valdið árekstri, enda hafa oddvitar venjulega getað fengið líðan.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. (HJ) sagði, að heppilegra væri að hafa gjalddagann einn en tvo, verð jeg að segja það, að augljóst er, að í bæjum, þar sem útsvörin skifta þúsundum á hvern gjaldanda, er sjálfsagt að hafa tvo gjalddaga, og getur það vafalaust komið smærri gjaldendunum vel líka. Hins vegar eru agnúar á að hafa aðra löggjöf um þetta fyrir sveitir en kaupstaði. Milli þeirra eru margvísleg viðskifti í þessum efnum, svo að af því gæti hlotist árekstur.

Um það atriði frv., að húsbændur beri ábyrgð á útsvörum hjúa sinna, er það að segja, að slíkt er auðvitað oddvitum til hægðarauka, en hinsvegar lagðar tilsvarandi kvaðir á húsbændur. Í þeim fáu tilfellum, þar sem um vinnufólk er að ræða, má að vísu segja, að húsbændur hafi í hendi sjer að halda eftir af kaupi þess fyrir útsvarinu og býst jeg við, að þeim yrði það ljúft án lagaskyldu. En ef um lausamenn er að ræða, er hjer kvöð lögð á húsbændur, sem valdið gæti þeim óþægindum.

Jeg vil vara hv. þdm. við að fara að gera breytingar á lögunum frá 1926. Gæti þá svo farið að við lentum í sömu fordæmingunni og áður, en það ástand, sem þá ríkti, var með öllu óþolandi. Útsvörin skiftust ójafnt og ranglega á milli heimilissveitar og atvinnusveitar, og fjölda manna var ofboðið með útsvarsálagningu utan heimilissveitar.