20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í C-deild Alþingistíðinda. (3028)

63. mál, hlutafélög

Jón Ólafsson:

Í fljótu bragði gæti maður haldið, að í þessu frv. fælist eitthvað mikið — greinarnar eru það margar, að maður gæti búist við að margt nýtt væri tekið fram í þeim. En svo er þó ekki. Hjer er aðeins um eina breytingu að ræða á núgildandi 1. um hlutafjelög, og hún er sú, að reikningar fjelaganna verði lagðir fram öllum almenningi til sýnis. Þetta, og ekkert annað, vakir fyrir hv. flm. þessa frv.

Það er nú svo um allan atvinnurekstur, bæði einstakra manna og fjelaga, að ef ein grein atvinnurekstrar er tekin út úr, þá er hinum hætt í hverju einstöku tilfelli. Það veltur því alt á því, að þessi afskifti af hálfu hins opinbera sjeu nauðsynleg fyrir þjóðarheildina.

Hvað hlutaljelög snertir, þá veit jeg ekki betur en að almenningur hafi betra yfirlit yfir hag þeirra og starfsemi en annara fjelaga, sem fámennari eru og rekin með sama hætti. Hlutafjelögin verða að gera grein fyrir starfsemi sinni um hver áramót, og ber skylda til að senda skattstjóra viðkomandi hjeraðs rekstrar- og efnahagsreikninga, og sömuleiðis hluthafaskrá. Ef hluthafaskráin væri til sýnis almenningi, eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv., er mjög hætt við, að hlutabrjefin hættu að hljóða á nafn, en það væri mjög ilt, ef svo færi. Alveg það sama yrði uppi á teningnum, ef farið væri að flagga framan í almenning með bankainneignum manna. Menn mundu taka fje sitt út úr bönkunum og koma því fyrir, þar sem minna bæri á. Mannlegu eðli er nú einu sinni svona farið.

Eins og jeg tók fram í upphafi, vakir það eitt fyrir flm. þessa frv., að almenningi gefist kostur á að kynna sjer hag og starfsemi hlutafjelaganna. En jeg held, að öðrum fjelögum sje hætt, ef gengið er inn á þessa braut, og álit þetta í alla staði varhugavert. Jeg býst ekki við, að hv. flm. (HV) væri nein þægð í því, að farið væri að hnýsast í þau fyrirtæki, sem hann hefir með höndum. (HV: Hvaða fyrirtæki?). Jeg á við „Tóbaksverslun Íslands“ og „Olíu verslun Íslands“ og „Alþýðubrauðgerðina“, sem hv. þm. á sínum tíma var mjög riðinn við, og er reyndar enn. (HV: Hún hefir aldrei verið hlutafjelag). Það þykir mjer einkennilegt. Að minsta kosti voru mjer einu sinni boðin hlutabrjef í henni. Samkvæmt eðli þeirra fjelaga, sem hluthafamörg eru, fer rekstur þeirra ekki fram með neinni leynd, auk þess sem sú skylda er á þau lögð, að gefa upp til hlutaðeigandi skattstjóra alt viðvíkjandi rekstrinum og því öðru, sem nokkra þýðingu kann að hafa. Jeg tel þetta frv. því fjarri öllu lagi, enda geng jeg þess ekki dulinn, að hv. flm. þessa frv. beri það fram með það eitt fyrir augum, að nota þær upplýsingar, sem þeir með þessu móti gætu aflað sjer um efnahag manna, í pólitísku augnamiði.