18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í C-deild Alþingistíðinda. (3074)

67. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Flm. (Einar Jónsson):

Það getur ekki talist nein nýjung, þó komið sje með frv. um nýjan skóla fyrir eitt eða annað hjerað, þar sem skólar hafa eigi verið til áður. En það er nýjung að koma fram með skóla í því sniði, sem þetta frv., á þskj. 98, bendir til.

Einatt heyrast raddir um það, að kostnaður við skólabyggingar og skólarekstur hjer í landi, sje vaxinn ríkissjóði yfir höfuð, og skal jeg ekki vera fjarri því að samþykkja það. En jeg vil vænta þess, að á þessum jafnrjettistímum geti þau hjeruð landsins, sem verst eru sett, búist við að fá sínum kröfum framgengt á undan aukakröfum annara, sem þó hafa nokkur not skóla áður.

Á þessu þingi hefi jeg veitt eftirtekt 3 skólafrv.: Stjfrv. um hjeraðsskólana I, á Núpi, Laugum, Hvítárbakka og Laugarvatni, og auk þess eru tvö þingmannafrv., annað um ungmennaskóla í Vestmannaeyjum, hitt um alþýðufræðslu á Ísafirði. En þetta er Rangæingum ónóg og bætir að engu úr þörf þeirra.

Full 20 ár eru síðan að austurhjeruðin, einkum Árnes- og Rangárvallasýslur, fóru að finna til þess, að tilfinnanlega vantaði lýðskóla á þessu svæði. Ríkti þá sú skoðun í margra hugum, að tiltækilegast væri, og jafnvel nægilegt til úrlausnar, að sýslurnar báðar, og helst Vestur-Skaftafellssýsla líka, sameinuðu sig um einn skóla allar. En þessi leið reyndist ekki fær vegna sundrungar milli þessara sýslna og innan þeirra. Ýmsra ráða var leitað og samkomulagstilraunir voru margítrekaðar, valdar sameiginlegar nefndir til þess að velja skólasetur, safnað loforðum um fjárframlög í báðum sýslum, Árnes og Rangárvalla o. s. frv., en alt varð til einskis.

Því er nú svo komið, að Rangæingar eru knúðir til að koma fram með kröfu um sjerstakan skóla. Skóli er þegar reistur að nokkru leyti á Laugarvatni, en ekki búist við, að aðrir en Árnesingar hafi hans not svo að fullu gagni komi.

Þegar málið var komið í þetta öngþveiti, skaut sýslunefnd Rangárvallasýslu á aukafundi, í nóv. s. l. Hafði þá oddviti sýslunefndar, sem frá upphafi hefir mestan áhuga haft á skóla- og velferðarmálum sinnar sýslu, undirbúið málið fyrir fundinn, eins og það kemur nú fyrir sjónir hv. þm. í Nd. Alþingis. Á þeim fundi hlaut það samþykki meiri hluta sýslunefndar í fyrsta sinn. Og eftir áskorun fundarins höfum við, þm. Rang., leyft okkur að flytja það hjer.

Frv. virtist sýslunefndinni vera rækilega undirbúið. Er greinargerðin sjerstaklega skýr og glögg, og mun ekki annara skýringa við þurfa. Jeg hygg það óþarft, að hafa hjer eftir efni grg. og mun það varla verða til að breyta skoðun nokkurs þm., en jeg vænti þess, að þeir gefi sjer tíma til að lesa hana og myndi sjer skoðun eftir því. En hitt ætla jeg ekki að gera, að fara að tyggja upp skrifuð skjöl í löngum ræðum.

Jeg vænti, að málinu verði vel tekið, er nú loks hefir verið færi á að bera það fram hjer á Alþingi. óska jeg, að því verði vísað til 2. umr. og hv. mentmn.

Það er glegst fyrir þá, er ekki hafa lesið alt frv., að líta yfir 2. gr. þess. Þar er aðalatriðið fólgið, auk þess sem athugasemdirnar skýra það á ýmsan hátt.