07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

82. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hjer er um að ræða smávægilega breytingu á lögum um bann gegn botnvörpuveiðum.

Samkv. núgildandi lögum er afli og veiðarfæri þeirra skipa, er brotleg verða við lögin, gert upptækt. Vafalaust er tilgangurinn með þessu ákvæði tvennur. Í fyrsta lagi að herða á vitum og í öðru lagi að fyrirbyggja það, að skipið geti farið strax á sömu mið til veiða.

Reynslan hefir orðið sú, að afli og veiðarfæri þessara brotlegu skipa hafa verið seld strax eftir að dómur hefir fallið, og þess eru ótal dæmi, að umboðsmenn skipanna, ef um erlend skip er að ræða, hafa keypt veiðarfærin á uppboði og afhent þau samstundis til hinna seku. — Við eldhúsdagsumr. var drepið á það, að einn hv. þm. hefði keypt veiðarfæri fyrir umboðsmann erlends togara, skömmu eftir að dómur var fallinn í máli hans, og árangurinn af því varð sá, að togarinn fór út aftur — á veiðar — að fáum dögum liðnum. Mjer er ekki grunlaust um, að fleiri hv. þm. hafi gerst til slíkrar greiðasemi við erlenda veiðiþjófa. Þetta er alveg ótækt. Það er hin mesta hneisa fyrir okkur, að Íslendingar sjálfir skuli verða til þess að útvega landhelgisþjófunum veiðarfæri strax eftir að dómur er fallinn, svo að þeir geti þegar byrjað á sömu iðjunni aftur.

Með frv. þessu gr reynt að fyrirbyggja, að slíkt geti átt sjer stað. Það er svo fyrir mælt, að eigi megi selja upptæk veiðarfæri fyr en að 14 dögum liðnum frá því þau voru upptæk gerð, og aldrei hinum seka eða umboðsmanni hans. Ennfremur er öllum bannað að afhenda erlendum veiðiskipum, er sek kunna að verða um landhelgisbrot, veiðarfæri í sömu veiðiför og þau hafa gerst brotleg við lög þessi. Með öðrum orðum, ef lögum þessum er fylgt þurfa t. d. sek ensk skip að sigla til Englands til þess að afla sjer veiðarfæra.

Nú þykir ekki hlýða að hafa refsingar þyngri fyrir erlenda lögbrjóta en innlenda, og þar sem gera má ráð fyrir því að skip, sem sigla þarf til Englands, tefjist 10 daga frá veiðum, er í frv. ákveðið, að lögreglustjóri skuli kyrsetja íslensk skip, er brotleg hafa orðið, í 10 daga frá dómsuppsögn. Jeg hygg, að ekki þurfi langa framsögu með frv. þessu, svo sjálfsagt sem það er, en þó þykir mjer rjett að rifja upp fyrir hv. dm., hve mikið ríkið leggur á sig vegna landhelgisgæslunnar. Kostnaður við úthald þeirra skipa, sem nú hafa strandgæslu á hendi, mun nema nálægt ½ milj. kr. á ári hverju. Nú bætist þriðja skipið við í sumar, og getur þessi kostnaður þá varla numið minna en 600–700 þús. kr. — Það verður að leggja alla áherslu á það, að þessar dýru varnir komi að fullum notum, og jafnframt verður að girða fyrir það, að íslenskir menn geti gert sjer það að fjeþúfu, að gerast erindrekar erlendra landhelgisbrjóta. Sje jeg ekki, að hægt sje að tryggja þetta betur en gert er í frv. þessu. Skal jeg svo ekki láta fleiri orð fylgja því, en vænti þess, að því verði að umr. lokinni vísað til sjútvn.