16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í C-deild Alþingistíðinda. (3231)

113. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Mjer er óljúft að lengja þessa umr. og tefja fyrir því, að málið fari til n. Jeg álít, eins og jeg tók fram við fyrri hl. þessarar umr., að málið eigi að fara til n. og fá þá meðferð þar, sem tími þingsins leyfir, en lengra eigi það heldur ekki að fara í þetta sinn. Það er ekki nema sjálfsögð sanngirniskrafa, að almenningur fái að sjá og athuga frv. áður en það verður lögtekið. Hjer er um svo stóran lagabálk að ræða og örlagaríkar lagabreyt., að það gengi glapræði næst að lögtaka þær án þess að almenningur fengi að kynna sjer þær vel og vandlega. Með þessu segi jeg ekki, eins og mjer skildist að hv. flm. væri að drótta að mjer, að jeg vilji granda málinu eða bregða fæti fyrir það. Það er síður en svo; en jeg vil láta athuga það af öllum aðilum.

Vitaskuld er það mikilsverð spurning, hvort ganga eigi svo langt á veg móts við kenningar sósíalista um að svifta eigendur umráðarjetti jarða sinna. Í þá átt er lengra farið í frv. en í nokkrum öðrum lögum, sem gilda í landi hjer. Eftir 1. og 2. gr. frv. verður ekki annað sjeð en að sveitarstjórn og úttektarmenn hafi ríkari umráð yfir jörð en sjálfur eigandinn. Ef þetta er nauðsynlegt um leigumála á jörðum, þá hlýtur sama nauðsyn að vera um það að setja hömlur gegn umráðum annara fasteigna, svo sem húsa, t. d. hjer í Reykjavík. Leigumáli á jörðum úti um sveitir landsins er, eins og allir vita, yfirleitt mjög vægur, samanborið við leigu á húsum hjer og í fjölmennari bæjum landsins. Jeg veit með vissu, að fjöldi jarða er leigður fyrir sem svarar 3–4% virðingarverði þeirra, og þekki þess aðeins fá dæmi, að leigan nálgist 10%. En hjer mun alsiða, eftir því sem mjer skilst, að leigja íbúðir og herbergi fyrir 70–80% af virðingarverði. Jafnvel mun dæmi til 100% ársleigu af húskofum hjer í Reykjavík, og einmitt sá leigumáti hefir valdið miklu um dýrtíðarástand það, sem hjer hefir ríkt árum saman. Vel má vera, að í einstökum landshlutum sje ábúð leigujarða lakari en þar, sem jeg þekki til. En það mega vissulega vera gildar ástæður fyrir hendi til þess að rjettlæta slíkar takmarkanir á eignarumráðum landeigenda sem frv. þetta ráðgerir. En ótrúlegt þykir mjer, — og jeg vil ekki trúa því, nema einhver færi mjer heim sanninn um það —, að nokkurstaðar á þessu landi sjeu jarðir leigðar við þvílíku okurverði sem húseignir eru leigðar í Reykjavík. Væri líklega fremur ástæða til að taka í taumana á því sviði, þar sem húsaleigan hjer hefir átt mikinn þátt í að skapa hjer þjáandi dýrtíð árum saman. Annars get jeg ekki að sinni tekið fram allar þær aths. við frv., sem ástæða er til að gera, enda tel jeg það varla tímabært nje heimilt við þessa umr. Jeg verð því að láta mjer lynda að draga örfáar þeirra fram að sinni, og mun gefast betra tækifæri til þess við síðari umr. Það er tæplega heimilt, enda þótt það sje oft gert, að ræða einstakar gr. lagafrv. við 1. umr.

Jeg skal drepa strax á þann agnhnúa, sem mjer virðist einna ísjárverðastur við frv. þetta. Það er, að ekki má leigja jarðir nema með ákveðnum húsakosti, með öllum þeim húsum, sem þörf getur orðið. Þetta ákvæði er beinlínis háskasamlegt. Hvað á að gera við jarðir, sem komnar eru í eyði, eða annað árið eru leigðar, en hitt í eyði? Jeg veit t. d. um tvær þjóðjarðir í Múlaþingi, sem jeg hefi umráð yfir og eftirlit með. Önnur þeirra er húsalaus með öllu og hin næstum því húsalaus. Báðar eru þá jarðirnar leigðar, og ábúendurnir eru sjálfráðir um, hve mikil hús þeir hafa á jörðunum. Sumstaðar eru jarðir með húsum í eyði komnar og er hastarlegt að banna eigendum að leigja þær, ef það fæst. Það sýnist lítið vit í því að skylda landeigendur til þess að reisa dýrar byggingar fyrir fólk og fjenað á slíkum jörðum, sem ef til vill fara svo í eyði eftir nokkur ár. Allir þekkja þær miklu breyt. sem orðið hafa í seinni tíð um hagi sveitanna afskektu, að andnesja- og afdalajarðir leggjast í eyði eða byggjast treglega. Jeg álít öldungis nauðsynlegt, að gerð sje einhver málamiðlun um torbygðar jarðir og ekki látið sama gilda um slíkar jarðir og þær, sem eftirsóttar eru. Þar sem jeg þekki til eru ríkissjóðsjarðir, sem treglega byggjast, leigðar fyrir 2–3% af fasteignarverði. Ákvæði þessa frv. geta engri átt náð með tilliti til slíkra jarða. Öðru máli er þó að gegna um jarðir í þjettbýli og eftirsóttar. Benda mætti á smábýlin fornu, 6 hundraða kotin svo nefndu. Þau eru oft leigð með meiri eða minni húsum fyrir 60 eða 70 kr. árgjald. Til þess að leyfilegt væri að selja þau á leigu eftir ákvæðum frv. þessa, mundu eigendur þeirra þurfa að reisa byggingar á þeim fyrir 15–20 þús. kr., og mjer er alveg óskiljanlegt, að býlin leigðust þegar svo væri komið. Eftirgjaldið mundi verða að stíga um 5–8 hundruð kr., jafnvel þótt húsin væru leigð fyrir 5%, sem enginn mundi þó standa sig við. En slík eftirgjaldshækkun mundi flestum smábændum um megn, og sjáanlegt er, að kotin annað tveggja færu í eyði eða sveitarstjórnir yrðu að taka við þeim, með því að eigendur mundu eigi sjá sjer fært að byggja upp jarðirnar og neyddust til að afhenda sveitarstjórnum þær fyrir lítið eða ekkert.

Hv. flm. var að hnýta í mig út af aðfinslum mínum við 9. gr.gr. segir að allar jarðir skuli leigðar til lífstíðar. Eftir orðalagi gr. liggur þó beinast við að skilja það svo, að ábúðarrjetturinn nái ekki einungis yfir lífstíð eða árhundruð, heldur jafnvel yfir alla eilífð. Eftir gr. á ekkja að njóta ábúðarrjettar látins manns síns þótt hún giftist aftur, en að sjálfsögðu eignast þá maður hennar ábúðarrjettinn með giftingunni og hlýtur að eiga hann, þótt hann missi konuna og kvænist af nýju, og síðan síðari kona hans að honum látnum. Þannig getur þetta gengið koll af kolli, og ábúðarrjetturinn orðið svo að segja óendanlegur. (JörB: Þetta er ekki rjett.) Þetta er rökrjett niðurstaða af orðum gr. (JörB: Nei, ekki ef hún er skilin rjett.) Jú, því það tekur engu tali að svifta ekki ábúðarrjetti þeim, sem hann hefir öðlast með konu sinni. (JörB: Hvernig er það í núverandi ábúðarlöggjöf?) Eftir núverandi ábúðarlöggjöf heldur ekkill ábúðarrjetti eftir konu sína, eins og líka sjálfsagt er, en ekkja, sem rjettinn hefir, missir hann þegar hún aftur giftist.

Annars nenni jeg ekki að elta ólar við einstök atriði frv., enda er svo margt tvírætt og vanhugsað í frv., að nóttin myndi ekki endast til að tína það fram. — Þó vil jeg enn minna á eitt ákvæði sem virðist mjög mishepnað og órjettmætt. Það ákvæði er í 9. gr., þar sem segir, að landeigandi geti ekki sagt upp ábúð, nema hafa fullnægt settum, þrengum skilyrðum. En hinsvegar á leiguliði að geta sagt upp ábúðinni hvenær sem er og fyrirvaralaust. Með þessu ákvæði er landeigandi gerður mun rjettlægri en ábúandinn.

Þá er eitt afkáralegt ákvæði og mjög óhagfelt í þessu frv., sem hverfa ætti. Það er, að leiguliði er því aðeins skyldur til að flytja jarðarafgjöld heim til landeiganda, að vegalengdin sje ekki meiri en 30 km. Hvers vegna mætti t. d. ekki senda afgjöldin í póstbrjefi? Þetta ákvæði er hortittur, og auk þess getur það verið beinlínis hættulegt.

Jeg hefi nú bent á nokkur athugaverð atriði, og sje ekki ástæðu til að tína fleiri að sinni. Ég ætla því að takmarka mál mitt og sleppa að minnast á fjölda ákvæða; en þau atriði, sem jeg hefi minst á, vona jeg, að n. taki til yfirvegunar.

Að lokum mintist hv. flm. á það, að ábúðarlögin frá 1884 væru einsdæmi að því leyti, hve óbilgjörn og ranglát þau væru í garð leiguliða. Jeg hygg, að hv. flm. skjóti yfir mark með þessari fullyrðing. Jeg er ekki málum þessum svo gerkunnugur, að jeg þekki til hlítar ábúðarlöggjöfina í öðrum löndum álfunnar, en norska ábúðarlöggjöfin veit jeg að er í sumum efnum engu hagstæðari leiguliðum en sú íslenska. Hv. flm. fullyrðir, að leiga af jörðum hjer á landi sje okurleiga. (JörB: Hvenær hefi jeg sagt það?) Jeg get sannað svart á hvítu, að ríkið leigir margar jarðir sínar fyrir 3–4% af matsverði, og í einstökum tilfellum nokkuð hærra, en þó aldrei yfir 10–12% af virðingarverði, þar sem jeg þekki til. Að tala um okurleigu í þessu sambandi er með öllu ástæðulaust.

Jeg hefði haft ástæðu til að minnast um leið á ræðu hv. þm. Ísaf., en jeg vil ekki verða til þess að æsa hann upp á ný, og get því látið ræðu hans afskiftalausa. Jeg óska sem mests friðar og kyrðar um þetta mál og þess, að það fái óhlutdræga athugun í n. Jeg kysi helst að það færi ekki lengra á þessu þingi en til n. þeirrar, sem það er ætlað til meðferðar.

Jeg skal svo ekki hafa mál mitt lengra, en tek það fram, að þótt hafin verði stórskotahríð að mjer fyrir það, sem jeg hefi nú sagt um frv., þá mun jeg ekki kippa mjer upp við það, heldur láta öll andsvör niður falla. Hávaði um þetta mál leiðir aldrei til heppilegra úrslita.