11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í C-deild Alþingistíðinda. (3240)

114. mál, síldarnætur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. flm. vildi halda því fram, að jafn mikil vinna við síldarnæturnar yrði kyr í landinu, enda þótt þær yrðu sendar út. En jeg býst aftur á móti við, að ef næturnar verða sendar út til börkunar eða litunar, þyki hagkvæmast að láta gera við þær um leið. Annars er mjer ekki kunnugt um, hvort lög þessi hafa verið mikið brotin, en þar sem þau eru bæði lítil fyrirferðar og gömul, þá get jeg jafnvel búist við, að löggæslumennirnir hafi ekki tekið eftir þeim. Annars er það hart af flm., að bera það upp á lögreglustjórana, að þeir láti brjóta þessi lög án þess, að þeir láti þá sæta ábyrgð, sem það gera. Skoðun mín er því óbreytt. Jeg tel, að hægt sje að gera þetta hvorttveggja, viðgerð og börkun, í landinu sjálfu, og sje því ekki ástæðu til að fella þessi lög úr gildi.