16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg get ekki fallist á það að nauðsynlegt sje að hækka laun kennaranna af því að það sje svo erfitt að fá menn í þessar stöður. Það hefir ekki við nein rök að styðjast þar, sem jeg þekki til. Jeg get hugsað mjer, að sumstaðar kunni að vera einhverjar hömlur á að fámenn, útskrifaða af Kennaraskólanum, en í flestum sveitum er margt fólk með gagnfræðamentun, og jeg álít það fullfært til þess að segja til börnum 8–12 vikur á vetri. Jeg neita því auðvitað ekki, að kennaraskólamennirnir eru góðir, en reynslan er samt yfirleitt sú, að hinir geta líka verið góðir. Meðan hægt er að nota þá krafta, þá álít jeg ekki vert að ganga út fyrir það svið bara vegna titils, og þó að fræðslulögin mæli svo fyrir, að kennaraskólamenn skuli ganga fyrir, þá álít jeg að ekki sje neinn skaði skeður, þó að gengið sje framhjá því.