15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í C-deild Alþingistíðinda. (3305)

120. mál, refarækt

Frsm.(Einar Jónsson):

Hv. þm. N.- Ísf. (JAJ) er búinn að svara flestu því, sem máli skifti, hjá hv. þm. Borgf. (PO), svo að jeg hefi fáu við að bæta.

Það er ekki rjett, að landbn. hafi ekki gætt ákvæða 3. gr. En svo að heilbrigðisráðstafanir vegna dýranna komi að nokkru gagni, og dýralæknir geti haft eftirlit með, að ekki sjeu flutt út sjúk dýr, er ekki hægt að ætlast til, að hann gefi vottorð fyrir skamman tíma. Það ástand, sem nú er, er alveg óþolandi, og eins og hv. þm. N.-Ísf. benti á, eru útlendingar hjer á fjálkveiðum eftir refum út um alt land og flytja þá út í algerðu eftirlitsleysi.

Hvað það snertir, að með ákvæðum 3. gr. sjeu allir, nema búin, útilokaðir frá útflutningi refa, eins og hv. þm. Borgf. hjelt fram, þá er því til að svara, að samkvæmt þessari gr. eru allir jafnt útilokaðir frá að flytja út refi, fyr en 12 mánuðir eru liðnir frá því, að þeir voru veiddir. Er þetta nauðsynlegt til þess að tryggja eftirlitið. Athugasemdir hv. þm. Borgf. eru því á misskilningi bygðar, hvað þetta atriði snertir.

Jeg er ekki feiminn að játa það, að jeg er ekki sjerfræðingur um þessi efni, og jeg hygg, að jeg megi lýsa yfir því fyrir hönd landbn., að hún muni fúslega taka þær brtt., sem einhverjir þm. kynnu að vilja gera, til athugunar. En auðvitað verða þær að vera á einhverjum rökum reistar.