15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í C-deild Alþingistíðinda. (3307)

120. mál, refarækt

Hannes Jónsson:

Jeg er ekki alveg viss um, að hv. þdm. sje fyllilega ljóst, hvað meint er með frv. þessu. Mjer er það a. m. k. ekki, enda hefir engin fræðsla fengist um það frá hv. landbn.

Jeg hygg, að það sje ekki rjett, sem hv. frsm. (EJ) hefir haldið fram, að ekki megi flytja út nema ársgamla refi. Því þó að 3. gr. frv. láti svo um mælt, að refabú verði að hafa starfað í 12 mánuði, áður en það fær leyfi til að flytja út lifandi refi, þá er ekki þar með sagt, að refirnir þurfi að vera ársgamlir. Mjer skilst t. d., að refabú, sem sett var á stofn í fyrra, geti flutt út í sumar yrðlinga, sem náðst hafa að vorinu.

Að þessu leyti er jeg ekki viss um, að frv. komi að tilætluðum notum, ef það er meiningin að flytja út aðeins ársgamla refi. Annars sje jeg enga ástæðu til þess að aftra útflutningi yrðlinga, því það út af fyrir sig ætti ekki að þurfa að spilla sölu á þessum dýrum.

Jeg er sammála hv. þm. Barð. (HK) um það, sem hann sagði um girðingarnar. Það væri fjarstæða að útiloka, að menn mættu geyma refi í eyjum, sem á annað borð eru taldar fullkomin varsla eða fyrirbygt, að dýrin geti sloppið þaðan. Eins og allir vita, ala Norðmenn yrðlinga í eyjum, og ekki ósennilegt, að þeir hafi einmitt þess vegna getað keypt þá svo háu verði hjer og raun hefir á orðið, af því að kostnaðurinn við að ala þá upp í eyjum hefir orðið tiltölulega lítill.

Jeg get vel skilið þá stefnu og viðurkent hana líka, sem ætlast er til að komi fram í frv., þ. e. að styðja og efla þann litla vísi til refaræktunar, sem nokkrir framtakssamir menn hafa byrjað á hin síðari ár. Og er það fjarri mjer að íþyngja þeim áhugasömu mönnum á nokkurn hátt. En jeg vil heldur ekki ganga of langt í þessu efni, og því síður koma á einokun um sölu refa út úr landinu. Því ef samkepni hefði ekki átt sjer stað um kaup og útflutning yrðlinga, þá hefði verðið aldrei orðið eins hátt hjer innanlands eins og átti sjer stað síðastliðið sumar. Það mun hafa verið byrjað með að bjóða í yrðlingana síðastliðið vor um 70 kr. hvern, en þegar fram á sumarið leið og Norðmenn komu til sögunnar, hækkaði verðið óðum. (HK: En er það heilbrigð verslun að gefa 300 kr. eða meira fyrir einn yrðling?) Það skal jeg ekkert um segja, enda efast jeg um, að hv. þm. Barð. (HK) geti sagt um það, hvort Norðmenn hafi tapað á þeim kaupum eða ekki. En mjer finst ástæða til að halda, að því aðeins hafi Norðmenn staðist við að kaupa yrðlingana svona háu verði, að þeir hafi svo góða aðstöðu við að ala þá upp, eins og jeg drap á áður.

Jeg vil því að athugað sje mjög grandgæfilega, hvað unnið sje við, að aftrað verði, að samkepni geti átt sjer stað á þessu sviði.

Annars er jeg mjög hissa á því, að samkepnismaður eins og hv. þm. N.- ísf., skuli mæla slíku einræði bót og kemur fram í frv. þessu. Hans góða samkepni ætti að ráða hjer, til þess að hjálpa til að halda uppi verði yrðlinganna, þó að hann að öðru jöfnu og á heilbrigðum grundvelli vildi styðja þá mennina, sem gert hafa refa ræktina að allarðsömum atvinnurekstri.