06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í C-deild Alþingistíðinda. (3333)

120. mál, refarækt

Magnús Jónsson:

Jeg vil byrja á að skýra frá, að í 4. brtt. er smíðagalli, sem jeg veit ekki hvort stafar af prentvillu eða misritun í handriti. Þar stendur: Greinin verður 4. grein, en á að vera 3. gr. Eins og hv. dm. muna, var háð hörð senna um þetta litla frv. við 2. umr., og skildi enginn í því, hvernig slíkur hiti gat hlaupið í menn út af svo litlu máli. Jeg hefi altaf verið andvígur þessu frv., því að mjer finst óheppilegt, að ríkisvaldið fari nú þegar að grípa inn í þessa nýju atvinnugrein með óeðlilegum ráðstöfunum, því að eins og frv. er, verður útflutningur og verslun með refi bundin við tiltölulega fá fyrirtæki í landinu. Jeg er þessu andvígur, eins og yfirleitt öllum slíkum hömlum, og við umræður um málið kom jeg ekki auga á neina knýjandi ástæðu, sem rjettlætti þetta. Helsta ástæðan var þó sú, að því er mjer skildist, að mikil trygging þyrfti að vera fyrir heilbrigði refanna, og jafnframt, að ekki yrðu narraðir inn á útlendinga viltir refir, í stað refa frá refabúum. En jeg fyrir mitt leyti verð að segja það, að hvorugt þetta atriði sje ástæða til að tryggja, því að þeir, sem flytja dýrin út, eiga að tryggja þetta sjálfir, og gera það líka.

Það er laukrjett, sem hv. frsm. sagði, að mínar brtt. nema burt meginákvæði frv. Það var líka tilgangur minn með brtt. Hinsvegar þótti mjer þó rjett að ganga ekki lengra en svo, að eftir stæðu þó ákvæðin um refagirðingar og eftirlit með heilbrigði þeirra dýra, sem út eru flutt.

Um refagirðingarnar er nú það að segja, að með þeim ákvæðum í fjallskilareglug. sem um þær gilda nú, þá á það að vísu að vera trygt, að refir sjeu einungis geymdir í fulltryggum girðingum. Hinsvegar sá jeg ekkert á móti því beinlínis, að þessi ákvæði væru skerpt með því að taka þau upp í lögin, ef haldið væri, að það gæti haft áhrif í þá átt, að strangari kröfur yrðu gerðar til eftirlitsins, sem er vitanlega mikilsvert atriði, því það er óhæfa að refir sleppi úr geymslu.

Þar sem jeg gerði þessar brtt. við frv. eins og það lá fyrir áður en það var prentað upp, þá hafði jeg eigi gætt þess, að gera þurfti einnig, ef þessar brtt. mínar verða samþ., brtt. í þá átt, að fella líka niður úr frv. ákvæðin um stundarsakir. Jeg hefi nú afhent hæstv. fors. skriflega brtt. um það, en jeg lít svo á, að hún komi ekki til álita, nema hinar brtt. verði samþ., þar sem hún er algerlega bundin við þær. Jeg hefi svo ekki fleira að segja. Vona jeg að brtt. mínar veki ekki stórar umr. um málið á ný. Málið er líka að mínu áliti alveg tæmt við fyrri umr. — Jeg hefi viljað skjóta þessum brtt. fram til athugunar fyrir þá, sem óska breytinga á frv.