10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í C-deild Alþingistíðinda. (3481)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Frsm. (Jón Þorláksson):

Mentmn. hefir orðið sammála um að mæla með þessu frv., með nokkrum breytingum, sem skráðar eru aftan við nál. á þskj. 539. Það hefir að vísu verið skoðanamunur í n. um ýms atriði í þessu máli, sem í rauninni er ekki að furða, þar sem þetta frv. á að grípa yfir 3 eða jafnvel í skóla, sem talsverðar deilur hafa staðið um undanfarið. En það varð að samkomulagi meðal nefndarmanna, að láta þær sjertill., sem einstakir nefndarmenn kynnu að bera fram, bíða til 3. umr., og bera fram við þessa umr. aðeins þær brtt., sem n. öll eða a. m. k. meiri hl. hennar væri sammála um. Þetta þóttust nefndarmenn geta fullkomlega forsvarað, þar sem þær breytingar, sem einstakir nefndarmenn hreyfðu, voru ekki svo stórvægilcgar, að þær gætu talist snerta grundvöll málsins.

Frv. fer fram á það, að í staðinn fyrir mentaskólann hjer í Reykjavík, sem starfað hefir undanfarið í tveimur deildum, gagnfræðadeild og mentadeild, skuli koma tveir sjálfstæðir skólar, mentaskóli og gagnfræðaskóli, og jeg held það sje fult samkomulag innan n. um það, að fallast á þá uppástungu. Jafnframt gerir frv. þá breytingu á mentaskólanum, að í stað þess að hann hefir um langan aldur verið sex ára skóli, verði hann eftirleiðis fjögurra ára skóli, sem leiði til stúdentsprófs, en hins vegar sjeu þá gerðar kröfur til inntökuprófs, sem samsvara því, að skólatíminn er styttur um tvö ár. N. fjellst á þetta og á uppástungu frv. um inntökuprófsskilyrði, nokkurn veginn óbreytt, með þeim skilningi, að þessi breyting á tilhöguninni eigi ekki að verða til þess að rýra stúdentamentunina frá því, sem nú er, þó að námstíminn í Mentaskólanum sjálfum sje styttur í fjögur ár. Ætlast er til, að kunnáttan við inntökupróf bæti upp það, sem er tekið neðan af skólanum. Til þess svo að sjá fyrir gagnfræðamentun í Reykjavík, er í frv. stungið upp á að setja hjer á stofn gagnfræðaskóla, og er því að nokkru leyti framhald af þeirri bráðabirgðalöggjöf, sem var sett á síðasta þingi, um bráðabirgða ungmennafræðslu í Reykjavík. Þetta hefir nefndin líka getað fallist á í öllum aðalatriðum, en vill tryggja það nokkru betur en í frv. er gert, að það geti orðið reist hæfilega myndarleg bygging fyrir þennan skóla, með því að rýmka ofurlítið um þetta framlag ríkissjóðs, sem frv. hefir stungið upp á.

Þá hljóðar frv. þar næst um gagnfræðaskólann á Akureyri, og fer fram á það, að skifta honum í tvær deildir nokkuð áþekt því, sem hefir verið hjer í mentaskólanum í Reykjavík, þannig að skólinn verði eiginlega sex ára skóli, að því leyti, sem hann er skoðaður sem ein heild. Tveir fyrstu bekkirnir tilheyra gagnfræðanámi og að þeim liðnum geta svo nemendur valið um, hvort þeir fara þá úr skóla með prófi, sem frv. kallar gagnfræðapróf, eða verði eitt ár í viðbót í sjerstakri deild, efsta bekk gagnfræðadeildarinnar, og ljúka námi þaðan með gagnfræðaprófi hinu meira sem kallað er, eða í þriðja lagi ganga upp í mentadeild skólans, sem þó verður ekki gert nema með sjerstöku inntökuprófi, og haldi svo þar áfram fjögurra ára námi til stúdentaprófs.

Við 1. umr. málsins hreyfði jeg því, að hjer sýndist stofnað til álíka óheppilegs samblands af gagnfræðamentun og stúdentamentun, sem hjer í Reykjavík hefir orðið til þess að auka svo mikið aðstreymi að stúdentsmentun. Jeg hreyfði því, að æskilegt væri að finna aðra leið, sem sneiddi hjá þessum annmarka. Þetta var íhugað talsvert í n. En með tilliti til þess húsakosts, sem er fyrir hendi á Akureyri, þá fann n. eiginlega enga aðra úrlausn á þessu, sem betur hæfði ástandinu, eins og það nú er. Og þó að megi bollaleggja ýmislegt um það, í hvaða átt breytingin eigi að ganga í framtíðinni, ef skólinn stækkar, svo að núverandi húsrúm verði honum ekki nóg, þá sá n. ekki neina ástæðu til þess að bera fram brtt. í þessa átt á þessu stigi málsins, og hefir þess vegna einnig að því er snertir Akureyrarskólann fallist á aðalgrundvöll stjfrv.

Þá skal jeg reyna að gera grein fyrir brtt. n., sem eru nú nokkuð margar. En jeg skal reyna að vera ekki langorðari um þær en nauðsyn krefur.

Fyrsta brtt. er þá þess efnis, að úr fyrstu gr. frv. falli burt það ákvæði, að í skólanum skuli vera 8 bekkir. Greinin ákveður, að skólinn skuli vera í 4 ársdeildum, en takmarkar að öðru leyti stærð hans með þessu viðbótarákvæði, að hann skuli vera 8 bekkir. Nú mælir frv. að öðru leyti svo fyrir, að nemendum skólans skal skift í máladeild og stærðfræðideild, eins og nú er, með talsverðum mismun, en þó að nokkru leyti sameiginlegu námi. Ef litið er á stærð skólans nú, hvað þetta snertir, þá er það svo, að nemendatalan í þremur efri bekkjunum, þar sem náminu er skift, samsvarar h. u. b. tveim fullskipuðum bekkjum, og fer kenslan fram í tveim bekkjum í þeim námsgreinum, sem eru sameiginlegar fyrir stærðfræðideild og máladeild. Stærðfræðideildin hefir verið skipuð þetta frá 8–12 nemendum, og svo er nemendatala þar til uppfyllingar úr máladeild, sem er ekki meiri en svo, að við alla kensluna, sem er sameiginleg fyrir máladeild og stærðfræðideild, eru bekkirnir ekki taldir nema tveir, en við sjernám hvorrar deildar fyrir sig verða bekkirnir þrír, þar sem stærðfræðideild er sjer í lagi og máladeildarnemendur þess bekks út af fyrir sig.

Það varð að samkomulagi í n., að fella burt ákvæði um skiftingu í 8 bekki, en láta í þess stað koma ákvæði, sem n. taldi eiga heima síðar í frv., og er flutt í 18. brtt. n., sem fer fram á að setja nýja gr. aftan við þennan kafla frv. um mentaskólann og einskorðar stærð skólans og nemendafjölda í hverri deild við það ástand, sem nú er og jeg hefi lýst. Það er nú að vísu ekkert ákvæði um það, hvort skifting í máladeild og stærðfræðideild mundi ná til allra bekkja í þessum 4 ára skóla — til allra ársdeildanna — en jeg tel miklu líklegra, að skiftingin mundi ekki verða látin koma fram í 1. árs deild skólans. Það er a. m. k. alveg nægilegt vegna stærðfræðisjernámsins, að hafa skiftingu í 3 bekkjum. Um langan aldur hefir sú tilhögun gilt í Danmörku, að þessari kenslu er ekki skift nema í 2 efstu bekkjunum. Það mætti gera ráð fyrir, að í 1. deild skólans fengju jafnan inntöku svo margir nemendur, að samsvaraði 2 fullskipuðum bekkjum, einnig eftir ákvæðum frv., eins og það er nú. En ef svo færi, þá ræki að því, þegar komið er upp í þá bekki, þar sem kenslan skiftist, að ef ákvæði frv. er haldið óbreyttu, yrði annaðhvort að vísa allmörgum nemendum úr skóla eða þá að krefjast þess, að nemendatala máladeildar og stærðfræðideildar yrði nálægt því jöfn. En nú er það svo, að þó að stærðfræðinám sje sjerlega nauðsynlegt sjernám til undirbúnings undir tiltekið háskólanám, þá eru altaf miklu færri nemendur, sem hafa löngun og hæfileika til þess að stunda það, heldur en hið almennara nám máladeildar. Ef þannig ætti að skifta, að ekki gætu orðið nema tveir bekkir, eftir að kenslunni er skift í þessar tveir greinir, þá yrði það til þess, að annaðhvort yrðu nokkuð margir nemendur að fara úr skóla, eða til þess, að fleiri yrðu þvingaðir inn í stærðfræðideildina heldur en þar eiga heima. Það væri nokkuð óheppilegt, — jafn óheppilegt fyrir kensluna í þeirri deild eins og fyrir nemendur sjálfa. Því að þangað er ekki rjett að taka aðra nemendur heldur en þá, sem eru hneigðir fyrir þess konar nám. N. hefir viljað greiða úr þessu með brtt. sínum, og styðst þar jafnframt við annað atriði, sem sjerstaklega snertir núverandi húsrými skólans.

Að jeg hefi getað fallist á að stytta skólann um 2 ár, byggist á því, að jeg viðurkenni, að núverandi skólahús er of þröngt og lítið fyrir 6 ára skóla, með þeirri aðstöðu, sem nú er. Jeg get því fallist á frv. með því að sniða 2 bekki neðan af. Því þótt húsið sje of lítið fyrir 6 ára skóla, þá ætti það að vera hæfilegt fyrir 4 ára skóla, með núverandi aðstöðu, með tví- og þrískiftum bekkjum, eins og nú er í lærdómsdeild. Yrðu það þá aldrei fleiri en 11 kenslustofur, er nota þyrfti, og mættu sumar vera litlar, því óhætt er að gera ráð fyrir því, að fáment verði í sumum deildunum. Þetta húsnæði er nú til. Hinsvegar hefi jeg lagt áherslu á það í n., að skólinn verði ekki stýfður á tvo vegu; nefnilega að tekið verði neðan af honum og jafnframt takmörkuð tala þeirra, er geta útskrifast sem stúdentar, frá því sem nú er. Því mæli jeg eindregið í gegn.

2. brtt. n. hefir aðeins að innihaldi smábreytingu á því, hvaða námsgreinir verði kendar. Leggur hún til, að tekin verði með kensla í trúarbrögðum. Þykir henni það nokkuð óviðfeldið að fella slíka fræðslu alveg í burtu, en svo hafði verið í frv.

Í 3. brtt. leggur nefndin til, að felt verði úr 6. gr. ákv. um það, að ekki megi byrja nema á einu erlendu máli í hverjum bekk. N. er að vísu ekki mótfallin þessu, en hún telur, að slíkt eigi betur heima í reglugerð, er samin yrði. En í 6. gr. er annað ákvæði, sem nær yfir þetta, því þar er sagt, að þess skuli vandlega gætt, að ofþreyta ekki nemendur með náminu. Þetta á heima í lögunum sjálfum, en hitt sjerákvæðið á frekar heima í reglugerð, og á því byggist þessi till. okkar.

Fjórða brtt. er aðeins smábreyting í sambandi við það, að n. miðar að því yfir höfuð, með ýmsum brtt. sínum, að þrengja valdsvið svonefnds skólaráðs frá því, sem gert er ráð fyrir í frv.

Fimta brtt. n. er þess efnis, að breytt verði nokkuð ákvæðum 7. gr. frv. um prófdómendur, svo trygging sje jafnan fyrir, að fyllsta óhlutdrægni ríki við próf. Leggjum við því til, að við árspróf skuli kenslumálaráðuneytið jafnan skipa annan prófdómandann. — Sjötta brtt. er aðeins orðabreyting. Sama er að segja um 7. brtt. Hún er aðeins orðabreyting til leiðrjettingar. Það sama má og segja um 8. brtt. við 12. gr. Hún er viðvíkjandi kröfum til inntökuprófs í landafræði. N. lítur svo á, að sú ítarlega upptalning eigi fremur heima í rgl. en í lögum, og vill því orða þennan lið styttra.

Þá kem jeg að 9. brtt. við 16. gr. Er hún um tölu hinna föstu kennara, og stendur í sambandi við rýmkvun þess að hafa aðeins 8 bekki, eins og jeg hefi áður minst á. N. leit svo á, að það gæti verið varhugavert að einskorða tölu fastra kennara við átta. Heldur vill hún láta stjórnina hafa heimild til þess að fjölga þeim upp í 10, að skólameistara meðtöldum. Þetta byggist og á því, að skifting skólans í 2 deildir útheimtir meiri sundurgreiningu á sjerþekkingu kenslukraftanna. N. tók þetta til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri örugt, að hægt væri að veita skólanum næga kenslukrafta með nægilegri sjerþekkingu, ef kennaratalan væri einskorðuð við átta.

Tíunda brtt. við 16. gr. þarf ekki skýringar við og ekki heldur 11. brtt. við 18. gr. nje 12. brtt. við sömu gr.

Þá er það 13. brtt. við 19. gr., um að greinin falli burtu. í þessari gr. er gert ráð fyrir því, að skólameistari útnefni meðal kennara skólans forstöðumenn bekkja. Skulu þeir hafa nána viðkynningu við nemendur síns bekkjar og vera þeim til eftirlits og hjálpar. Skal sami forstöðumaðurinn fylgja hverjum bekk frá því að hann byrjar í skólanum og þar til er hann fer. Það eru nú talsvert skiftar skoðanir um það, meðal fróðra manna, hvort þessi tilhögun sje til bóta eða ekki. N. tekur enga afstöðu til þessa, en lítur svo á, að ef rjett þætti að reyna þessa tilhögun, þá eigi að gera það með reglugerðarákvæði en ekki í lögum. En svo flytur n. aðra brtt. þess efnis, að ljóst sje, að kennara sje skylt að gera þetta, ef svo verður ákveðið í reglugerð.

Brtt. 14. er við 22. gr. og er um yfirstjórn skólans. Er þar haldið því ákvæði frv., að kenslumálaráðuneytið skuli hafa yfirstjórn skólans. En í frv. er jafnframt kveðið svo á, að ráðuneytinu til aðstoðar skuli vera 12 manna ráð, sem sje skipað af 4 aðilum, nefnilega: útskrifuðum stúdentum, bæjarstjórn Reykjavíkur, Alþingi og Háskólaráðinu. Auk þess á fræðslumálastjóri að vera sjálfkjörinn formaður. Í frv. er þessu skólaráði ætlað mjög víðtækt starfssvið. Samkv. 23. gr. frv. er kenslumálaráðuneytinu skylt að leita umsagnar þess um öll mál, er skólann varða, og undir ráðuneytið falla. N. finst þetta of þunglamaleg yfirstjórn, og heldur að hún muni ekki blessast, ef hún á að hafa svo víðtækt starfssvið sem henni er ætlað samkv. frv. Enda held jeg, að báðir skólameistararnir, bæði hjer og á Akureyri, sjeu þessu mótfallnir. Er það að vísu ekki undarlegt, því þetta felur í sjer allmikla takmörkun á valdi þeirra. N. vildi því ekki fara lengra en svo, að ákveðið væri í lögum, að skólaráð skyldi vera til, en taldi rjett að binda það ekki með lögum, hvernig í það skyldi kosið eða það skipað. Í sambandi við þetta hefir komið fram uppástunga frá núverandi fræðslumálastjóra um að hafa svokallaða skólanefnd. Sje það embættisleg nefnd þeirra, er standa nærri þessum málum, og á hún að hafa þrengra verksvið en skólaráðið. N. vildi hafa þetta ákvæði í 22. gr. svo að hvort heldur skólaráðið eða skólanefndin gæti komist að. Gerir hún þó ráð fyrir því í brtt. sinni, að hvort heldur, sem valið verður, þá geti það borið sama nafn og kallast skólaráð. En með því að n. telur það orka tvímælis, hvort bæjarstjórn Reykjavíkur væri skylt að kjósa menn í slíkt ráð, þá þótti n. nauðsynlegt að taka það upp í frv. hverjir aðiljar væru skyldir til þess að kjósa menn í skólaráðið, ef svo væri ákveðið í reglugerð skólans. í 15. brtt. við 23. gr. er verksvið skólaráðsins þrengt frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Leggur n. til, að það verði aðallega til ráðuneytis um mál skólans.

16. brtt. við 25. gr. er að sumu leyti sú stórvægilegasta. Miðar hún að því, að gera ákvæði 25. gr. frv., um stofnun heimavista, skýrari og ákveðnari. Eins og þetta er orðað í frv. er gert ráð fyrir því, að heimavistum verði komið upp, en greinin felur hvorki í sjer heimild eða skyldu fyrir ríkisstjórnina að koma þeim upp. Brtt. okkar kveður skýrara á um þetta, því þar er svo ákveðið, að heimavistum skuli komið upp svo fljótt, sem ástæður ríkissjóðs leyfa. Við vildum þó ekki binda það í till. okkar, hvort sameiginlegt mötuneyti yrði í slíkri heimavist. Það er kostnaðaratriði, er við vildum láta stjórnina hafa frjálsar hendur um. í brtt. okkar felst því aðeins heimild til þess að koma þar upp sameiginlegu mötuneyti.

Þá er loks 17. brtt. Eru þar talin upp nokkur þau atriði, sem nánar skal skipa fyrir um með reglugerð, t. d. skyldu kennara til þess að hafa umsjón með nemendum, er n. lagði til að felt yrði úr frv. sjálfu.

Jeg hefi þú gert grein fyrir þeim brtt., sem n. flytur við I. kafla frv., um Mentaskólann í Reykjavík. Áður en jeg skilst við þennan kafla, vil jeg geta þess, að það hefir sætt andmælum af hálfu skólameistara og kennara Mentaskólans að stytta námstímann niður í 1 ár. Hafa þeir farið fram á, að skólinn fengi að halda óskiftri undirbúningsdeild þessi 2 ár. N. lítur svo á þetta, að þar sem húsrúm skólans er svo takmarkað, þá sje ómögulegt að verða við þessu, þegar af þeirri ástæðu. En svo er og önnur ástæða, sem öll n. er sammála um að mæli gegn þessu. Við viljum nefnilega heldur taka sporið hreint og stytta skólatímann en halda þessu millispori með undirbúningsdeild. Okkur finst nokkur hætta á, að með slíkri tilhögun geti orsakast nokkurskonar tvískifting, þar sem helmingur nemendanna er búinn að sitja 2 ár í undirbúningsdeild skólans sjálfs, en hinn helmingurinn kemur fyrst í 1. bekk Mentaskólans. Sumir verða því heimamenn en aðrir aðkomumenn. Gæti þetta orðið í vegi fyrir fullkomlegu heilbrigðu skólalífi. Jeg fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að úr því kringumstæðurnar leyfa ekki að hafa óskiftan 6 ára skóla, þá vil jeg heldur stýfa neðan af en að hafa 2 neðri bekki fyrir helming þeirra, er ætla að halda áfram. Um þetta atriði eru nokkuð skiftar skoðanir, bæði hjá aðstandendum skólans og almenningi.

Þá kem jeg að gagnfræðaskólanum í Reykjavík. Er 19. brtt. n. um inntökuskilyrði og er þess efnis, að heimilt sje að ákveða próf í einstökum námsgreinum sem inntökuskilyrði. Er þetta sett til þess að fyrirbyggja, að nemendur, sem vegna gáfnaskorts, eða annars, hafa ekki náð viðunanlegri mentun við barnapróf, fái skilyrðislaust inntöku í skólann til þess að bæta úr þeim skorti, því það gæti orðið hinum nemendunum til mikils trafala. Við viljum því að auk barnaprófsins sje og próf í einstökum greinum, er tryggi það, að nemandinn hafi nægilega kunnáttu og þroska til þess að setjast í skólann. Yrði vitanlega aðallega heimtuð viss kunnátta í undirstöðugreinunum eins og t. d. lestri, skrift, móðurmálinu og reikningi. Þetta er að n. áliti nauðsynlegt til þess að tryggja það, að slíkir nemendur komist ekki inn í skólann og tefji starfsemi hans.

Brtt. 20 við 30. gr., er lítill viðauki til samræmingar og 21. brtt. er um það, að bætt verði við þýsku, sem námsgrein. Ætti hún þá að vera kend í 3. bekk eða framhaldsbekk skólans. Við teljum það alls ekkert varhugavert, heldur alveg sjálfsagt, að ákveðið verði svo um þetta í reglugerð, að nemendur geti verið undanþegnir þessari námsgrein, ef þeir óska þess. Getur þetta því ekki orðið til þess að þvinga menn á nokkurn óeðlilegan hátt til þess að leggja stund á þessa námsgrein. En það er af mörgum ástæðum æskilegt, að sem flestir kæmust nokkuð niður í þessu máli. Sjerstaklega er það gott vegna viðskiftalífsins og iðnaðarins að hafa nokkra undirstöðuþekkingu í þessu máli.

22. brtt. við 36. gr. er þess efnis, að skólaráðið skuli hafa nokkra íhlutun um ráðningu auka- og stundakennara.

Þá kemur 23. brtt. við 38. gr. Er þar farið fram á, að framlag ríkissjóðs verði hækkað úr 20 þús. upp í 30 þús. kr. á ári í 3 ár. Á að verja þessu fje til þess að koma upp skólahúsi. N. fanst, að hús, sem hægt væri að byggja fyrir þá upphæð er frv. gerir ráð fyrir, mundi ekki geta orðið fullnægjandi. Þá var og samkomulag um það, að breyta orðalaginu að því er snertir heita vatnið, því atriði, að bærinn sje skyldur til þess að leggja til vatn til hitunar endurgjaldslaust. Það er nú í ráði, að lögð verði hitaveita til bæjarins til þess að hita upp hinar opinberu byggingar í bænum og máske meiri hluta miðbæjarins. Mun það að vísu verða selt með vægu verði, en þó svo að hægt verði að fá upp í vexti og afborganir af þeim kostnaði er þetta hefir í för með sjer. Viljum við því með brtt. okkar tryggja skólanum sömu aðstöðu gagnvart hitaveitunni og aðrir kunna að hafa.

Svo er 24. brtt. við 39. gr. Hún er aðallega orðabreyting, sem er í því fólgin, að kveðið er skýrt á um það, að framlag úr bæjarsjóði til skólans er skilyrði þess, að ríkissjóður styrki hann. En að öðru leyti raskar brtt. ekkert hlutföllunum.

25. brtt. við 40. gr. er um skólagjöld og er það aðeins meiri hl. n., sem stendur að henni. Hv. þm. Ak. hefir, eins og sjest á nál., skrifað undir það með fyrirvara, og er hann aðallega fólginn í því, að hv. þm. er á móti öllum skólagjöldum.

N. athugaði, hvort rekstur skólans mundi vera fjárhagslega trygður með þeim framlögum, sem gert er ráð fyrir frá ríkinu og bænum, og bar það meðal annars undir forstöðumann unglingaskólans hjer. Niðurstaðan varð sú, að fjárhagsafkoman væri ekki trygð með því framlagi, sem gert er ráð fyrir í 39. gr. frv. N. vildi þá ekki skilja svo við frv., að vandræði gætu af þessu hlotist, og leggur því til, að það sje heimilt að hafa kenslugjöld, og fyrir utanbæjarnemendur alt að 60 kr. hærri en fyrir innanbæjarmenn, í stað þess að frv. vill alveg undanþiggja innanbæjarnemendur frá gjaldi. N. viðurkennir, að það sje rökrjett hugsun, þar sem bærinn á að leggja skólanum framlag, sem nemur 120 kr. á hvern nemanda, eða tvöfaldri þeirri upphæð, sem utanbæjarmenn gjalda. En eins og ástatt er um slíka kenslu, fanst n. ekki frágangssök, þó að gjald væri tekið af innanbæjarmönnum, það er að segja þeim, sem færir væru um að greiða það. Hingað til hefir ekki verið kostur á ókeypis kenslu hjer í bæ, hliðstæðri þessari. Um gagnfræðadeild Mentaskólans hefir farið dálítið öðruvísi en til var ætlast. En hjer eru margir skólar, sem veita ýmsa fræðslu sem framhald af barnaskólanáminu, og í þeim öllum eru greidd skólagjöld. N. hefði samt ekki stungið upp á þessu, ef hún hefði sjeð aðra leið tiltækilegri til að rýmka svo fjárreiður skólans, að hagur hans væri tryggur. Enda er það svo, að þeir sem eiga að greiða gjöldin, segja fljótlega til, ef þeim finst of hart að gengið.

Til þess að tryggja það, að fátækir nemendur verði ekki fyrir harðræði, vill n., að ekki færri en nemenda njóti ókeypis kenslu og að kenslugjald skuli ekki fara fram úr 90 kr. á hvern nemanda.

26. brtt. við 41. gr. er ekki annað en orðabreyting í samræmi við 24. gr.

27. brtt. er við 42. gr. og má frekar teljast orðabreyting en efnisbreyting. Jeg skal geta þess, að 28. brtt. við 41. gr. kemur á eftir 27. brtt., en á auðvitað að vera á undan.

Þá kem jeg að III. kafla frv., um gagnfræðaskólann á Akureyri. Þar er fyrst 29. brtt. við 46. gr., sem fer fram á, að niður falli það ákvæði, að eftir tvo vetur í mentadeild ljúki nemendur fyrri hluta stúdentsprófs, en eftir fjóra vetur lokaprófi stúdenta. Þetta stendur í sambandi við 31. brtt. við 49. gr., sem er orðuð til samræmis við tilsvarandi ákvæði um Mentaskólann og heimilar mönnum að ljúka námi í einstökum námsgreinum í öðrum og þriðja bekk mentadeildar. Eftir þessu er heimilt að skifta stúdentsprófi eins og segir í 46. gr. Næsta brtt. er við 47. gr. í þeirri grein frv. er talið upp, hverjar námsgreinar skuli kendar í mentadeild, en brtt. fer fram á, að bætt verði þar inn Norðurlandamálum. Frv. gerir ekki ráð fyrir, að neitt af þeim verði kent, hvort sem það er af ógáti eða með vilja gert. Einnig gerir brtt. ráð fyrir, að trúarbrögð sjeu tekin upp sem námsgrein.

Jeg hefi áður gert grein fyrir 31. brtt. við 19. gr., en 32. brtt. við 50. gr. er þess efnis, að burtu falli ákvæði um það, hvernig telja skuli einkunnir. N. álítur, að nægilegt sje að ákveða slíkt með reglugerð. 33. brtt. við 51. gr. er í samræmi við þá takmörkun á verksviði skólaráðs, sem n. stingur upp á. 34. brtt. við 53. gr. er samhljóða áðurnefndri brtt. við 12. gr. 35. brtt. við 54. gr. fer fram á, að nema skuli úr lögum sjálft ákvæðið um forstöðumenn bekkja. Það finst n. eiga heima í reglugerð.

Frv. gerir þann mun á mentadeild á Akureyri og í Reykjavík, að skólaárið skuli vera einum mánuði styttra á Akureyri. Það er gert samkvæmt tillögum skólameistarans á Akureyri. N. hefir ekkert á móti þessu, en telur ekki rjett, að til lagabreytingar þurfi að koma, þótt óskað yrði seinna að hafa þetta á annan veg, og stingur því upp á, að heimilað verði með reglugerðarákvæði að breyta þeim tíma, þegar skólanum á að vera lokið. 37. brtt. þarfnast ekki skýringar. 38. brtt. er um skipun skólaráðs og er í samræmi við það, sem jeg hefi áður tekið fram um Reykjavíkurskólann, og sömuleiðis 39. brtt. 40. brtt. við 63. gr. er aðeins orðabreyting til leiðrjettingar. 41. brtt. við 65. gr. fer fram á að fyrirskipa inntökupróf í gagnfræðadeild Akureyrarskólans, og er flutt af n. eftir ósk skólameistara. Það er nokkurt ósamræmi, að hafa skylduinntökupróf á Akureyri, en aðeins heimild í Reykjavík, en það er ekki svo mikið, að vandkvæðum þurfi að valda.

42. brtt. fer fram á, að þýska verði kend í framhaldsbekk gagnfræðadeildar eins og í Reykjavík. 43. brtt. er orðabreyting til skýringar. 44. brtt. er við 70. gr. í þeirri grein eru ákvæði um skiftingu kostnaðar við rekstur skólans, á milli þriggja aðilja, ríkissjóðs, Akureyrarbæjar og nemenda. Eftir ákvæðum frv. mætti líta svo á, að nemendur í 2. og 3. bekk hefðu mismunandi aðstöðu eftir því, hvort þeim er kent í núverandi skólahúsi eða þeirri viðbyggingu, sem þarf að koma, ef skólinn verður tvískiftur. En n. áleit ekki rjett gagnvart nemendum, að nokkur mismunur kæmi fram í þessu efni. Hjer er eiginlega aðeins um orðabreytingu að ræða. Ef um nokkra efnisbreytingu er að ræða, er hún fólgin í því, að hafa samræmanleg ákvæði um skólagjöld án tillits til þess, hvort nemandi á sæti í þeim bekk, þar sem ríkissjóður telst kosta kensluna, eða hinum. Hinsvegar er haldið ákvæði um það, að ríkissjóður kosti kensluna í 2. og 3. bekk óskiftum, en um 1. bekk og skiftu bekkina gilda samskonar ákvæði og um fjárframlög til gagnfræðaskólans í Reykjavík. Um þetta fjalla 44. og 45. brtt. við 70. og 74. gr., en 46. brtt. er smávægileg orðabreyting, sem leiðir þar af. Sama er að segja um 47. brtt., um að 76. gr. falli burt. Hún byggist á því, að áður er búið í brtt. n. við 70. og 74. gr. að taka upp efni 76. gr.

Jeg er víst búinn að þreyta hv. d. um of með þessari óskemtilegu upptalningu á brtt. og get nú látið máli mínu lokið.