18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3546)

9. mál, kaup á áhöldum til þess að bora með eftir heitu vatni

Frsm. (Páll Hermannsson):

Mönnum hefir á seinni tímum skilist það betur og betur, hversu mikill auður er fólginn í heitu vatni og gufu á yfirborði lands vors. Menn hafa líka komist að raun um það, að þennan hita má auka með því að bora í jörðu eftir vatni eða gufu. Og það hefir jafnvel komið í ljós, að þennan hita má finna með borun, þó að ekki verði hans vart á yfirborðinu. Borun hefir nú verið reynd hjer í grend við Reykjavík, og er útlit fyrir, að hún muni bera talsverðan árangur.

Till., sem hjer liggur fyrir á þskj. 9, mun fyrst og fremst runnin frá stjórnarnefnd Flóa- og Skeiðaáveitufjelaganna. Austanfjalls er nú, eins og kunnugt er, í ráði að reisa mjólkurbú. Alt í kringum þann stað, þar sem búið á að standa, er jarðhiti, en kemur þó ekki til notkunar þar. Því er það, að nefndin mun hafa óskað eftir því hjá ríkisstjórninni, að borin yrði fram þáltill. um heimild handa atvinnumálaráðherra til kaupa á borunaráhöldum. Svo er til ætlast, að áhöld þessi verði lánuð fjelögum og einstökum mönnum, sem kynnu að vilja leita eftir heitu vatni eða gufu.

Samskonar beiðni mun ríkisstjórninni hafa borist frá Akureyrarkaupstað. Þar er í ráði að bora eftir heitu vatni eða gufu undir fjalli skamt frá kaupstaðnum.

Þáltill. sú, sem hjer liggur fyrir, hefir nú þegar gengið gegnum hv. Nd. og hlotið góðar undirtektir og samþykki, bæði af fjvn. þeirrar hv. deildar og deildinni sjálfri. Fjvn. þessarar hv. deildar hefir einnig athugað málið á fundum og orðið ásátt um að leggja til, að deildin samþykki till. eins og hún liggur fyrir.

Nefndin hefir aflað sjer þeirra upplýsinga, að áhöld þau, er hjer ræðir um, muni kosta 15–20 þús. kr., ennfremur að þau sjeu þægileg í flutningi alstaðar, þar sem akfærum verður komið við. Áhöld þessi eru ýmiskonar: Mótor, borvjel, dæla og loks borinn sjálfur. Þetta alt mun vera talsvert fyrirferðarmikið, og líklega ókleift að flytja það á klökkum, enda mun þess óvíða við þurfa.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um till., en legg til, að hún verði samþ.