28.02.1929
Neðri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3567)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er hlyntur þeirri till., sem hjer liggur fyrir. Hinsvegar álít jeg ekki rjett að staðbinda neitt af skipunum. Það er miklu betra að hafa þau öll óbundin og láta þá menn, sem eru yfirmenn gæslunnar á hverjum tíma, ráða um það, hvert sigla skuli skipunum. Það er mjög mismunandi, hve mikla gæslu þarf á hinum ýmsu stöðum. Lengstan tíma ársins er þörf á gæslu við Faxaflóa Breiðafjörð og Vestfirði. Auk þess er stundum mikil þörf á gæslu við Austurland og líka við Norðurland, þó að þá sje um miklu styttri tíma að ræða. Jeg álít því best, að foringjarnir ráði um það á hverjum tíma, hvert skipin skuli fara. Enda er enginn vafi á því, að það eru þeir menn, sem best þekkja til í þessu efni.

Í þessu sambandi vildi jeg leyfa mjer að beina þeim fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvort ekki væri gerlegt að leggja niður hinar alkunnu snattferðir strandvarnaskipanna, sem eru vitanlega til stórtjóns fyrir gæsluna. En jeg sje nú, að hæstv. ráðh. er ekki í deildinni, enda býst jeg við að fá tækifæri til að koma að þessu atriði síðar.