08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3623)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Pjetur Ottesen*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Mjer finst það einkennilegt fyrirbrigði bæði hjer á Alþingi og eins í viðskiftum manna á meðal, að þegar dýrtíð fer þverrandi í landinu, þá er farið fram á verulegar kauphækkanir. Þetta er dálítið einkennilegt fyrirbrigði og með aðgerðum þingsins er nú verið að kippa burtu þeim grundvelli, er lagður var 1917, er tekinn var upp sá borgunarmáti, að miða laun manna við verðlag í landi.

Annað vil jeg benda á. Hjer liggur fyrir heimild til stj. um að greiða úr ríkissjóði um 100 þús. kr. Og þetta er veitt með einni þál.! Jeg man, að á stríðsárunum var sá háttur á að heimila stj. víðtækar fjárgreiðslur úr ríkissjóði með þál. Þá opnuðust augu manna fyrir því, að slíkt væri ógætilegt, og var því mikið til horfið frá að heimila stærri greiðslur á þann hátt. Nú á að fara að taka þennan hátt upp aftur. Það finst mjer varhugavert og því mun jeg hiklaust greiða atkv. móti þessari till.