11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3691)

136. mál, húsrúm fyrir listaverk landsins

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg flyt hjer í hv. d. fyrir hönd Mentamálaráðs Íslands svo hljóðandi þáltill. á þskj. 499:

„Efri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka til íhugunar, á hvern hátt verði best sjeð fyrir húsrúmi til þess að geyma í og sýna úrval þeirra listaverka, er landið á og mun eignast framvegis, og leggja till. sínar í því máli fyrir næsta þing“.

Grg. þessarar till. til þál. felst að mestu leyti í brjefi Mentamálaráðsins, sem prentað er sem fskj. á sama þskj. Skal jeg þó leyfa mjer að skýra lítið eitt nánar tildrögin að því, að þessi þáltill. er fram komin, en vegna þess að í grg. er tekinn fram mergur málsins, get jeg verið stuttorð.

Þessu máli var hreyft snemma í vetur í Mentamálaráðinu, og var það þá strax þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt væri að hrinda málinu sem fyrst af stað. Húsameistari ríkisins var þá erlendis og sneri Mentamálaráðið sjer því til Guðmundar Guðjónssonar byggingameistara, og gerði hann lauslegan uppdrátt og kostnaðaráætlun um væntanlegt listasafnshús. Þetta skýrði málið svo, að það þótti ekki fjarstæða að flytja það hjer á þingi. Er þessi þáltill. þannig til komin. Í fskj. á áðurnefndu þskj. er það tekið fram, að með 1. um Menningarsjóð og Mentamálaráð hafi sú ráðstöfun verið gerð, að Mentamálaráð skyldi annast kaup á listaverkum ríkinu til handa og verja til þess 1/3 af tekjum Menningarsjóðs. Jafnframt var svo ráð fyrir gert, að þegar þær tekjur færu fram úr meðallagi, skyldi afgangur af þessum þriðjungi lagður í húsbyggingarsjóð, er ávaxta skyldi í Landsbankanum, uns hafið væri að reisa hús yfir listasafn ríkisins.

Nú hefir ríkisstj. og Mentamálaráð þegar keypt allmikið af listaverkum fyrir fje Menningarsjóðs, og er það bersýnilegt, að vöxtur listasafnsins verður nú miklu örari en áður.

Mentamálaráðið sneri sjer til þjóðminjavarðar, sem hefir verið falið með stjórnarráðsbrjefi, dags. 22. jan. 1916, að hafa umsjón yfir listaverkum ríkisins. Hann tjáir í brjefi til Mentamálaráðs, að listasafnið sje í 4 deildum:

1. Málverkasafn um 300 myndir,

2. Höggmyndasafn um 16 myndir,

3. Listiðnaðarsafn um 14 munir,

4. Prentmyndir o.fl. um 1000 myndir.

Síðan þessi skýrsla var gerð hefir aukist alhnikið við söfn þessi (eins og jeg hefi þegar tekið fram). Ríkisstj. og Mentamálaráðið hafa, að jeg hygg, keypt samtals 35 málverk á árinu 1927, og eru 6 þeirra keypt fyrir það fje, er ætlað var í fjárl. þess árs til kaupa á listaverkum. Hin málverkin, 29 að tölu, hafa verið keypt fyrir fje Menningarsjóðs, og einnig hefir verið keypt safn af andlitsmyndum, 50 að tölu, eftir Jóhannes Kjarval málara. Á okkar mælikvarða er þetta mikil aukning við safnið eins og það var í ársbyrjun 1927. En vandkvæðin á því að láta fara vel um þessi listaverk eru þegar komin í ljós. Ef listasafnið á að koma að notum, dylst engum, að þegar verður að gera einhverjar ráðstafanir til þess að sjá því fyrir húsnœði, svo að vel geti farið um þessa góðu og dýru hluti, þar sem allur almenningur geti átt greiðan aðgang að því að sjá þá.

Það játa allir, að listasöfn sjeu merkilegur og þýðingarmikill liður í menningu hverrar þjóðar, svo framarlega sem hún notfærir sjer þau. Það var því mörgum fagnaðarefni, er það var ákveðið að verja 1/3 hluta af fje Menningarsjóðs til kaupa á listaverkum. En eins og jeg hefi þegar tekið fram, kemur ráðstöfun þessi því aðeins að notum, að reynt verði að bæta úr þeim húsnæðisskorti sem er. Með því að ríkið haldi áfram að kaupa listaverk án þess að koma um leið upp góðu húsi yfir þau, þar sem almenningur eigi greiðan aðgang að þeim og þau geymist óskemd, verður að álítast, að ekki sje nema að nokkru leyti náð þeim tilgangi, sem að er stefnt með listaverkakaupum ríkisins, og geti í því sambandi jafnvel komið til athugunar, hvort ekki væri rjettara að hætta um stund kaupum á listaverkum, meðan unnið væri að því að koma upp húsi yfir þau, sem nú eru orðin eign ríkisins. En æskilegast væri að geta unnið að hvorutveggja í senn. Það liggur í augum uppi, að engum er fjær skapi en þeim, sem Mentamálaráð skipa, að þurfa að grípa til slíks úrræðis, og mundi sú ráðstöfun koma hart niður á listamönnum vorum. Ennfremur er það ljóst, að því lengur sem það dregst að reisa hús fyrir listaverk landsins, því lengur verður þjóðin að bíða eftir notum af þeim listaverkum, sem ríkið á og mun eignast.

Þegar húsameistari kom heim úr utanför sinni, leitaði Mentamálaráðið umsagnar hans. Eins og menn vita, á hann mjög annríkt og vanst honum því ekki tími til að gera uppdrátt nje kostnaðaráætlun, en nokkra úrlausn veitti hann, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa svar húsameistara til Mentamálaráðsins. Brjef hans er á þessa leið:

„Eftir ósk hins háa Mentamálaráðs hefi jeg gert lauslega áætlun um, hvað kosta myndi að reisa hús yfir málverkasafn landsins, og yrði hann nálægt 60–80 þús. kr.

Til skýringar skal jeg geta þess, að í ráði er að reisa eitt sameiginlegt hús við Skólavörðutorgið fyrir listasafn, þjóðmenjasafn og náttúrugripasafn.

Hús það, sem nú yrði leist, yrði því nokkur hluti af fyrrrnefndu safnahúsi.

Mjer hefir ekki unnist tími til að gera svo fullkomið viss af þessu húsi, að jeg geti sent það með brjefinu, enda er það mikið verk, því ekki er unt að byggja neinn hluta safnahússins fyr en gerður er uppdráttur af því öllu“.

Húsameistara dylst ekki, að hjer er um nauðsyn að ræða. Hann telur enga fjarstæðu að koma upp þessum hluta safnahússins. Svo framarlega sem það er vilji hins háa Alþingis, að ríkisstj. láti vinna þetta verk, gerir húsameistari að sjálfsögðu fullnaðaráætlun og uppdrætti að listasafnshúsi samkv. þáltill.

Eins og jeg hefi tekið fram, horfir málið þannig við, að hinn ágæti tilgangur Menningarsjóðs, að auka listasöfn landsins, kemur ekki að tilætluðum notum sökum þess, að hvergi er hægt að finna þeirri aukningu rúm, hvorki í alþingishúsinu nje í öðrum opinberum byggingum, þar sem þessi listaverk mættu þjóðinni að sem bestu gagni koma.

Að öllu þessu athuguðu hefir Mentamálaráðið falið mjer að flytja þessa till. til þál. á þskj. 499, í því trausti, að stj. taki málið til rækilegrar athugunar og leggi till. sínar fyrir næsta þing. Vænti jeg þess, að hv. þdm. sýni skilning sinn á nauðsyn þessa máls er til atkv. kemur með því að samþ. þáltill., og vona jeg, að hæstv. stj. líti sömu augum á þetta mál og sá ráðh., sem mest og best hefir stutt að því, að fje Menningarsjóðs skuli varið til kaupa á listaverkum, því að till. styður einungis að því, að sú ráðstöfun komi sem fyrst að fullum notum.