04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

8. mál, lendingar- og leiðarmerki

Hákon Kristófersson:

Það er aðeins örlítil fyrirspurn, sem jeg vildi leyfa mjer að beina til hv. frsm.

Í upphafi 5. gr. frv. er gert ráð fyrir, að verstöð leggist niður og útræði hætti þaðan, og ber þá hreppssjóði skylda til að annast alt viðhald merkjanna, að svo miklu leyti sem lendingarnar eru nothæfar sem neyðarlendingar.

Jeg verð nú að segja fyrir mitt leyti, að mjer finst þetta ekki heppilega að orði komist, enda má lengi um það deila, hvað skoðast megi neyðarlending eða ekki.

Við erum báðir allvel kunnugir fyrir vestan, hv. frsm. og jeg, og vitum, að oft er álitamál, hvað sje neyðarlending og hvað ekki. Aðstaða manna á sjó mun vera sú, að lenda verður víðar en þar, sem gott þykir, og án þess að hægt sje að komast þangað, sem kallað er neyðarlending. Þess vegna vildi jeg leggja til, að orðin „sem neyðarlending“ í 5. gr. yrðu feld niður. Því nauðsynlegt verður að telja, að haldið sje við merkjum hvar sem er, enda ekki vitað fyrirfram, hvar menn geta þurft að leita að landi í hvert sinn.