17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

144. mál, gengi gjaldeyris

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það má með sanni segja, að gengismálið sje eitt stærsta mál þessa kjörtímabils. Og það mátti vita, að gengismálið mundi fá einhverja lausn á þessu kjörtímabili, annaðhvort raunverulega, þannig að fyrirsjáanleg yrði lausn þess, eða þá að forminu til einnig.

Við síðustu kosningar fjekk núv. stjórnarflokkur aðstöðu til að tryggja fast gengi íslenskrar krónu, meðan hann situr við völd. Á meðan hann situr við völd, mun þessu gengi ekki verða breytt, að svo miklu leyti sem stjórnir geta ráðið slíku. Framsóknarflokkurinn hafði heitið því á síðasta kjörtímabili að styðja að festingu gengis og gjaldeyris. Og þetta hefir hann efnt á þann hátt að varðveita það, að því leyti sem í hans valdi stendur. En hitt getur hann ekki af eigin mætti, að fá lögfestingu á þessu gengi, sem eigi yrði haggað síðar. Engu að síður hefir fyrir tilstilli flokksins verið borið fram frv. á þessu þingi um verðfestingu og verið valin sú leið, sem einföldust er og sjálfsögðust, sem sje sú, að leggja til, að núv. króna skuli gilda áfram og vera mynteining landsins.

Okkur hvatamönnum málsins var það ljóst — eins og raunar öllum landslýð —, að litlar líkur eða engar væru til þess, að þetta frv. yrði samþ. í báðum deildum. Við gerðum ráð fyrir, að frv. mundi verða felt í hv. Ed., þó að það, eins og við þó bjuggumst við, yrði samþ. í hv. Nd. En við höfum gert það, sem í okkar valdi stóð, og sjeð um raunverulega verðfestingu gengisins fram að þessu, og hitt, að gera nú till. um lögfestingu þess með þeim einfaldasta og eðlilegasta hætti, sem til er. Þetta er stefna flokksins og þetta hefir hann efnt, og umfram það, sem hann getur af eigin mætti, verður ekki af honum krafist.

Á fyrri hluta þessa þings stóðu langar og allstrangar umr. um meginatriði gengismálsins. En síðan þeim umr. lauk hafa gengið málaleitanir milli flokka, og þær málaleitanir hafa ekki orðið árangurslausar, þó að þær leiði ekki til formlegrar afgreiðslu málsins á þessu þingi.

Nú hafa fjhn.menn Íhaldsflokksins í hv. Nd. borið fram á áliðnu þingi frv. á þskj. 606 um það að halda framvegis óbreyttu núv. gengi, en taka jafnframt upp gömlu krónuna og umreikna á sinni tíð allar skuldakröfur til hins nýja gjaldeyris, þ. e. a. s. gömlu krónunnar. Íhaldsflokknum munu vera ýmsir menn, sem illa geta felt sig við myntlagabreytingu, og jeg hygg, að Framsóknarflokkurinn standi óskiftur gegn þeim ákvæðum þess frv., sem fulltrúar Íhaldsflokksins í fjhn. fluttu, að veita uppbót þeim, sem eiga eldri kröfur en frá 1914. Framsóknarflokkurinn stendur ekki gegn því vegna þess, að hann sjái ekki, að í því sje nokkurt rjettlæti fólgið, heldur vegna hins, að framkvæmd þess yrði mjög örðug. Og þar að auki yrðu helst til tíndir þeir menn til þess að fá uppbótina, sem einna síst þyrftu hennar við af fjárhagslegum ástæðum, en hinir eru skildir eftir, sem hvað harðast hafa orðið fyrir barðinu á þessum sífeldu gengis- og verðbreytingum síðustu tíu áranna. Þetta tvent, sem jeg hefi talið, annað myntlagabreytingin, en hitt uppbæturnar, stendur nú á milli flokkanna. Og það er því sýnt, að bæði frv. mundu hafa fallið, ef þau hefðu komið til atkv., þar sem hvortveggi hinna smærri flokka, jafnaðarmenn og frjálslyndi flokkurinn, er mótfallinn báðum frv., að því er best verður vitað.

Jeg skal þar fyrir síst synja fyrir það, að einhvers samkomulags kynni að vera að vænta í framtíðinni milli þessara tveggja aðalflokka þingsins, þar sem deilan stendur ekki lengur um sjálfa verðfestinguna, heldur um þær leiðir, sem fara á að takmarkinu.

Það á ekki við hjer í sambandi við þessa till. að hefja deilur um hinar tvær aðferðir verðfestingar, þegar samkomulag er fengið um meginmálið. Til hins er miklu meiri ástæða, að fagna því að eiga víst óbreytt gengi, meðan bönkunum og landsstj. er kleift að halda því í horfi. Þetta er fagnaðarástæða, en ekki tilefni til ádeilu.

Það væri líka óviðeigandi af mjer að fara að áfellast þá, sem hverfa frá hækkunarstefnu til verðfestingar. Í upphafi allra gengisbreytinga í öllum löndum eru allir menn hækkunarmenn. Enda renna í upphafi flest rök undir það að ná aftur jafnvægi með skjótri hækkun. En þegar tímar líða, þá dvína rök hækkunarmanna. Tíminn, sem líður, er eitt stærsta „momentið“ í gengismálinu. Og þegar lengra líður frá, þá kemur svo, að öll hin sönnu rök, bæði hin siðferðislegu, fjárhagslegu og þjóðhagslegu, renna undir verðfestingu þess gengis, sem orðið er varanlegt. Og svo hygg jeg einmitt sje komið í okkar landi, að það geti ekki leikið á tveim tungum, að rökin eru öll horfin frá hækkunarstefnunni og yfir til verðfestingar hins raunverulega gengis. Þetta verður berast af þeirri till., sem hjer er fram borin af fjárhagsnefndarmönnum Íhalds- og Framsóknarflokks í sameiningu. Raunin er ólygnust, þegar fulltrúar tveggja stærstu flokka þingsins í fjhn. Nd. bera fram slíka till. og þá, sem hjer liggur fyrir um að halda óbreyttu núv. gengi um óákveðinn tíma, eða þangað til framkvæmd verður lögfesting til frambúðar, með hvaða hætti sem hún svo verður.