17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

144. mál, gengi gjaldeyris

Sigurður Eggerz:

Jeg vil benda hv. þm. V.-Ísf. á það, að ef mikið berst að af pundum, þá getur farið eins og 1924, að Landsbankinn sjái sjer ekki fært að taka áhættu af kaupunum nema með lækkuðu verði. Nú hefir ekkert verið gert til þess að tryggja, að Landsbankinn hafi nóg fje að bakhjalli, ef mikið berst að af pundum.

Nú í ár er mikið góðæri, sem betur fer. Óskandi er, að mörg slík góðæri gætu komið. En hvert slíkt ár ýtir undir krónuna, gefur henni byr undir báða vængi.

Stjórnin, sem hefir bjargfasta trú á því, að best sje, að króna okkar fái ekki sama heiðurssæti og hinar Norðurlandakrónurnar, gengur sannarlega ekki vel frá þessu höfuðmáli sínu. Hún teflir því í óvissuna. Ef til vill getur hv. 3. landsk. komist í meiri hl. áður en frá þessu er gengið til fulls.

Það er rjett, sem hv. flm. sagði, að hálfgert vonleysi hefði gripið mig í þessu máli. En jeg verð að segja það, að það er ekki að furða, þó svo fari, þegar tveir stærstu flokkarnir, eða meiri hl. úr þeim, koma sjer saman um að hindra það, að krónan komist upp í sitt rjetta gildi.