07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3772)

35. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Hv. flm. kvartaði yfir því, að enginn svaraði sjer. En jeg tel það ekki nema von. Hann flutti sömu ræðuna nú og undir þinglokin í fyrra, og það getur vel verið að hann ætli sjer að veita okkur árlega skemtun með því að endurtaka hana á hverju þingi framvegis. Jeg svaraði honum þá, og með því að það svar stendur í þingtíðindunum, læt jeg mjer nægja að vísa til þess, því að mjer þykir dýrt fyrir ríkissjóðinn að prenta ár eftir ár hið sama í Alþt.

Eitt nýtt hefir hann þó fundið upp síðan í fyrra, og það er það, að „Shell“ ætli sjer að eignast allan mótorbátaflota landsins, til þess að verða voldugra. Þetta á kannske að vega á móti því, að svo hefir illa til tekist fyrir þennan hv. þm., að síðan í fyrra er kominn hæstarjettardómur fyrir því, að fjelagið sje löglegt, svo að hann getur ekki lengur kryddað ræður sínar með því, að fjelagið sje ólöglegt, eins og hann leyfði sjer að halda fram í fyrra.

Hann var að tala um, að það ríkti ekki samkepni um verð milli hinna þriggja olíufjelaga, er hjer versluðu; það væri sami rassinn undir mjer og hans elskulega flokksbróður, hv. 2. þm. Reykv. En af því að mjer var ekki vel kunnugt um, af hverju bensínhækkunin, sem hann var að vitna í, stafaði, þá fór jeg til hv. 2. þm. Reykv. og spurði hann um, af hverju hún hefði stafað. Og af því að það er svo góð heimild, þá skal jeg geta svarsins: Það var af því bensín hækkaði í verði erlendis, svaraði hv. þm.

Þetta tvent var hið eina nýja, sem kom fram í ræðu hv. flm. Jeg svaraði honum í fyrra, og ef jeg vildi, gæti jeg náttúrlega lesið þá rœðu upp og látið prenta hana aftur. En þar sem það verður ekki til annars en kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, þá sleppi jeg því.