09.03.1929
Neðri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (3831)

34. mál, rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar

Jón Ólafsson:

Það skaut því að mjer einn hv. þdm., að þessi hv. d. væri nú upp á síðkastið orðin nokkurskonar fiskiþing. Hjer hefir dag eftir dag ekki verið rætt um annað en útveg á útveg ofan, og nú allra síðast er farið að draga einkamál einstaklinganna inn í umr. í þessu sambandi. Jeg ætlaði eiginlega ekki að segja neitt í þessu máli núna, því að jeg bjóst fastlega við, að till. yrði umræðulaust vísað þangað, sem hún á að fara, og til þess staðar, þar sem hún á heima. Þetta hefir samt snúist á annan veg, þar sem hjer er þegar komið út í langar umr.

Menn tala hjer af miklum myndugleika um þessa rannsókn, sem verður framkvæmd af mönnum, sem ekkert vit hafa á þessum málum og engin skilyrði hafa til þess að botna nokkurn skapaðan hlut í þeim. Það er talað um skýrslu þessara manna eins og áfengisskýrslur og starfsmannaskýrslur og aðrar slíkar, sem ekkert hafa gefið í aðra hönd og reynst mjög svo óábyggilegar hingað til. Á sama hátt mun fara um skýrslur þessarar rannsóknarnefndar. Þær verða ekki til annars en að seðja forvitni þeirra manna, sem aldrei lesa rjett og sækjast eftir fróðleik til þess að snúa út úr og rangfæra í pólitískum tilgangi. Þessi nefnd yrði algerlega tilgangslaus og valdalaus. Hún gæti aðeins dregið ályktanir, en ekki tekið neinar ákvarðanir. (HG: Hún má ekki þjóðnýta).

Þá vil jeg víkja fáeinum orðum að till. sjálfri og einstökum liðum hennar. Fyrsti liður ræðir um að rannsaka, hvernig hægt sje að gera rekstur togaraútgerðarinnar ódýrari og hagkvæmari og að tryggja fjárhagsafkomu hans. í þau 23–24 ár, sem þessi útvegur hefir verið starfræktur, hafa bæði jeg og aðrir, sem nokkuð hafa við hann fengist, verið að reyna að finna ráð til þess að gera reksturinn ódýrari. Jeg hefi áður tekið það fram, að mjer er vel kunnugt um það af minni löngu reynslu í þessari grein, að það eru sárafáir útgjaldaliðir, sem hægt er að koma nálægt í þessum tilgangi. Flestir eru þeir algerlega háðir útlendum markaði, og er ekki á þessu sviði hægt að hugsa um annað en að gera sem allra best kaup á öllu, sem við þurfum að skifta með við aðrar þjóðir. Sparnaður, beinn sparnaður er ekki til á þessu sviði. Lækkun útgjalda er ekki möguleg á öðrum liðum en vinnulaununum. Þau eru eini hreyfanlegi liðurinn á reikningum togarafjelaganna og eru mikill hluti af útgjöldum þeirra. Þessi hluti útgjaldanna, sem er langsamlega stærsti hlutinn, var árið 1927, að því er ætla má, mjög nálægt helmingi af verðmæti aflabragðanna á meðalskipi í togaraflotanum. (HG: Hvaða hluti?). Hluti hinna vinnandi stjetta á sjó og landi. Skipshöfnin sjálf mun hafa fengið um helminginn af þessu, eða sem næst einum fjórða af verðmæti alls aflans. Hv. flm. taldi rjett áætlað, að hluti skipshafnarinnar væri ekki meira en 14% af verðmæti aflans, en svo er ekki. Eftir mínum útreikningum er hann að minsta kosti full 20%. (HG: Hjá hásetum, matsveinum og kyndurum?). Já. (HG: Eru lifrarpeningarnir teknir þarna með ? — Forseti (hringir): Ekki samtal!). Auðvitað er það gert, því að lifrin er hluti af afla skipsins, og ekki hægt að slíta hana úr rjettu samhengi, þegar talað er um verðmæti alls aflans. Er því um algerðar rangfærslur að ræða, þegar hv. þm. talar um, hve miklar sjeu tekjur háseta á togurunum yfirleitt.

Hv. flm. drap lítilsháttar á tekjur skipstjóra og annara slíkra manna, sem væru í hans augum óeðlilega háar. Í fljótu bragði kann að vera, að svo sýnist. Það er nú samt svo með slíka menn, að nú á síðari árum hefir um, þegar þrengt hefir að á ýmsa vegu, á aflaleysisárunum, hafa góðir aflamenn í skipstjórastöðum verið næsta fágætir. Af þessum ástæðum eru þessir fáu afburðamenn mjög eftirsóttir, og verður að láta þá hafa góð kjör, þar sem ekki eru nema sárfáir menn í flotanum, sem fullnægja þeim skilyrðum að vera úrtaksmenn. Er aukaatriði, þótt þessum mönnum sje greitt kaup nær eingöngu eftir aflamagni. Þó segja megi, að sumir þeirra sjeu ljelegir, þá fara rýrari mennirnir niður í sama hlutfalli og hinir fengsælli hækka, svo að það verða ekki nema afburðamennirnir, sem miklu tekjumar fá, og verður það að teljast fyllilega verðskuldað.

Annar liður till. ræðir um, á hvern hátt best verði fyrir komið stjórn og eignarumráðum togarafjelaganna með tilliti til starfsfólksins og þjóðarheildarinnar. Er engu líkara en öll afkoma þjóðarinnar eigi að vera komin undir þessum fáu skipum, sem eru nú ekki nema tæp 40, og þurfi ekki að hugsa um neitt annað. En það sýnir sig nú best, þegar eitthvað þrengir fyrir dyrum, að það er einmitt ekki þessi útvegur, sem heldur velli. Nú í ár hafa togararnir ekkert fiskað, hafa alls ekki verið á veiðum, en þó hefir á þessum mánuðum, sem liðnir eru af því, ekki einungis komið eins mikill fiskur á land hjer eins og á sömu mánuðum í fyrra, heldur töluvert meiri. Þessi útvegur er því alls ekki sá stóri í landinu. Nú á seinni tímum hefir komið í ljós, að hann á mjög erfitt uppdráttar, og nú lítur helst út fyrir, að ekki verði viðlit að halda honum áfram, vegna þess að nú er, að mörgu leyti af skilnings- og þekkingarleysi, farið að þrengja svo mjög að honum, þessum útvegi, sem er stórvirkastur og skapar sínum vinnandi lýð langhæstu tekjurnar. Þá er og um algerðar rangfærslur að ræða hjá hv. flm., þegar hann tekur samanburð á tekjum vinnandi manna við samskonar útveg hjá öðrum þjóðum. Þær rangfærslur grunar mig samt, að sjeu ekki runnar frá honum sjálfum, heldur hafi hann þær eftir öðrum hv. þm. hjer í hv. deild. Er þar alt slitið úr rjettu samhengi og ekki tekið tillit til misjafns verðmætis aflans þar og hjer. Þá er og ekki tekið með mismunandi verðlag og dýrtíð hjá okkur og samanburðarþjóðunum. Ef tekið væri tillit til veiðitíma og afla í sambandi við kaupgreiðsluna, kemur í ljós, að okkar sjómenn hafa miklu meiri tekjur og við betri kjör að búa en hjá öðrum þjóðum. Okkar útvegur veitir líka fjölda manns góða atvinnu, sem stunda hann ekki nema 2 til 3 mánuði ársins, en hafa svo annan starfa á milli, og hafa þannig góðar aukatekjur upp úr útgerðinni.

Þá má líka minnast á, að það er togaraútgerðin, sem að miklu leyti hefir bygt Reykjavík upp. Ekki þó vegna þess, að útvegurinn sjálfur hafi safnað auði, heldur hefir frá honum flotið sú peningauppspretta, sem bygt hefir bæinn á stuttum tíma. Auðvitað hefir það hjálpað til, að mikið fje hefir komið frá útlöndum gegnum veðdeildir, en mikill meiri hluti þess fjár, sem farið hefir í byggingar hjer í bæ, stafar af eignaauka, af auðsafni, sem komið hefir á vissar hendur, sjerstaklega háseta og annara slíkra. Þessir menn hafa svo ýmist bygt sjálfir eða lánað öðrum, vinum og vandamönnum, fje til þess að byggja yfir sig. Er því algerlega rangt, þegar hv. flm. segir, að hásetar á togurunum hafi ekki nema rjett til hnífs og skeiðar. Þeir eru ein af allra blómlegustu stjettum í landinu og höfðu síðastliðið ár lægst 4000 kr. í tekjur, og auk þess frítt fæði.

Jeg sje, að hv. 4. þm. Reykv. er farinn að skrifa niður. Getur hann hæglega sparað sjer það ómak, ef hann vill líta í skattskýrsluna. Hann getur farið til skattstjóra og athugað þann lista, sem jeg sendi til hans. (HG: Eru það ekki einkamál sjómannanna?). Þar sjest, að jeg á ekki við neina einstaka sjómenn, heldur fleiri hundruð.

Það vakir yfirleitt mest fyrir hv. flm., hverjir eigi að hafa eignarumráð yfir skipunum, og er auðvitað ekki sama, hvernig þeim er fyrir komið. Jeg veit nú ýmislegt um þetta af minni löngu reynslu. Jeg hefi að einhverju leyti altaf verið riðinn við útgerðina frá árinu 1895, þegar jeg fyrst fór að gera út á smábáta, síðan þilskip og síðast togara og vjelbáta. Sú reynsla, sem jeg hefi fengið, er á þá leið, að því fleiri, sem eru í einu fjelagi, því verri verði afkoman. Það var reynt á kútteratímanum að slá sjer saman, og jeg held, að flest hafi 15 menn átt kútter saman. En í þessu fjölmenna fjelagi gekk hver ríkt eftir sínu, og allir vildu fá sem mest í sinn eiginn hlut, en hugsuðu ekki um hag fjelagsins í heild. Fór þetta svo, að fjelagið lognaðist út af, vegna þess að eigendurnir toguðu sinn skækilinn hver. Má nefna mörg slík dæmi. Eitt fyrirtæki, sem jeg stjórna, hefir marga hluthafa. Vill bera á því þar, að hluthafarnir hugsi meira um að fá sem mest í sinn hlut, í arð af því fje, sem þeir hafa lagt fram, heldur en að tryggja hag fjelagsins og láta hann haldast á góðum grundvelli. Þessir menn hafa þó lagt stórfje í fyrirtækið og eiga því mikið undir því, að hagur þess sje öruggur, en hvað mundi þá verða, ef miklu fleiri menn væru komnir saman í fjelag, með litlu eða nær engu framlagi hver, og vildu allir fá sem mest í arð. Jeg gæti trúað því, að hv. flm. reki sig einhverntíma á þetta hjá Samvinnufjelagi Ísfirðinga, að hinir mörgu hluthafar hugsi ekki mikið um að safna í sjóði til þess að tryggja fjárhagslegan grundvöll fjelagsins. (HG: Ákvæði um sjóðatillög eru í lögum fjelagsins). Það getur líka verið erfitt fyrir þá, sem stjórna slíkum fjelögum, að halda í fje fjelagsins fyrir hluthöfunum. Þegar illa gengur og illa selst, er gengið hart að þeim með greiðslu á arði af þeim, sem í fjelaginu eiga, og er þeim þá vorkunn, þó þeir haldi ekki fjenu fyrir þurfandi fólki, ef nokkuð er til. Sje ógætilega farið að, getur rekið að því sama og á kútteratímanum, að fjelögin geti ekki greitt skuldir, sitji eftir með töp og verði að selja skipin út úr landinu.

Þriðji liður till. ræðir um, á hvern hátt sje hægt að tryggja verkafólkinu, sem að útgerðinni starfar á sjó og landi, lífvænleg kjör. Það er rjett, að erfiðleikar eru miklir á að útvega lífvænleg kjör, og er búið að berjast við það alla tíð fram að þessari öld. Getur ekki talist, að þjóðin í heild sinni hafi haft lífvænleg kjör fyr en ef til vill síðan um aldamót, og vantar þó mikið á, að svo sje. Er altaf verið að reyna að finna ráð til þess að öllum líði vel; það er hápunkturinn, sem altaf er verið að keppa að og sem hjer er verið að rífast um. Þó að hv. þm. Ísaf. hafi ekki sjálfur þurft að eiga í slíkum bardaga fyrir lífskjörum sínum, þá geri jeg ráð fyrir, að hann þekki svo vel til vestur á fjörðum og vestur á Ísafirði, að hann viti, að mjög mikið vantar á, að kjör almennings þar sjeu eins góð og sjómanna hjer í Reykjavík. Er vonandi, að þessu fari fram. Það getur alls ekki talist, að togaraútvegurinn standi í blóma. Hann hefir frá upphafi barist við miklar skuldir, háa vexti og hátt verð á öllum nauðsynlegustu tækjum. Auk þess á hann í höggi við mikla óvild ýmsra manna, eins og líka kom fram í ræðu hv. flm., sem talaði af talsverðum illvilja í garð útgerðarinnar. Nú þrengir enn fyrir dyrum, og skal jeg því til sönnunar taka eitt dæmi.

Síðastliðið ár var framleitt mjög mikið af lýsi, sem seldist yfirleitt fyrir gott verð og var töluverð tekjulind fyrir útgerðina. Kaupendurnir birgðu sig vel upp, en athuguðu ekki, að heimsmarkaðurinn er lítill fyrir þessa vöru, of lítill fyrir alla framleiðslu síðasta árs. Nú sitja þeir eftir með mikil töp og miklar birgðir af vörunni, og hefir jafnvel komið til orða að selja miklar birgðir af fyrsta flokks lýsi sem iðnaðarlýsi, þar sem ekki er brúk fyrir það til annars. Afleiðingin af þessu verður sú, að kaupendurnir kippa að sjer hendinni, framleiðslan verður of mikil og verðið fellur. Má alveg eins búast við, að enginn hagnaður verði af lýsisframleiðslunni þetta ár, og er þá ein góð tekjugrein útgerðarinnar úr sögunni.

Enginn getur ætlast til, að hv. flm. hafi mikið vit á útgerð. Hann hefir samt auðsjáanlega verið eitthvað að burðast við að leita sjer upplýsinga um hana. Hefir hann snapað saman ýmsa mola, sinn úr hverri áttinni, alla aðfengna og mjög sundurlausa.

Þá telur hv. þm., að stórútgerðin hafi vaxið mjög ört á síðari árum, en jeg fyrir mitt leyti lít ekki svo á, þegar tekið er tillit til þess, að hún byrjaði fyrir nær 25 árum og ennþá eru ekki nema tæp 40 skip, og það er eftirtektarvert, að á síðasta ári hefir ekkert skip verið keypt í flotann, nema aðeins eitt, sem af tilviljun varð eign innlends manns.

Þá var það ekki rjett hjá hv. þm., að hægt væri að minka útgerðarkostnaðinn með því að hagnýta stöðvarnar betur og hafa þær stærri, því að reynslan er sú, að því verra er að eiga við stöðvarnar, því stærri sem þær eru. Það er því hrein og bein hugsunarvilla hjá hv. þm., að halda, að það sje aðalatriðið að hafa stöðvarnar sem stærstar og sem mest á þeim. Að hafa mikinn fisk á stöðvunum getur orðið til þess, að hann beinlínis dagi uppi af þurkleysi; verður því það sem annað að hafa sín takmörk. Þeirri hugmynd frummælanda, að hafa margar stöðvar úti um land, hefir þegar verið svarað. Það atriði hefir mjög komið til athugunar, en því fylgir sá annmarki, að slíkar stöðvar yrðu að vera svo stórar, að útgerðarfjelögin gætu haft þar liggjandi allar nauðsynjar til útgerðarinnar, til þess að skipin gætu lagt þar upp víst tímabil. En gallinn við það er aftur sá, að fiskiveiðarnar eru ekki svo staðbundnar, að hægt sje að ganga út frá því, að á neinum vissum slóðum fiskist til lengdar, því að reynslan er sú, að varla er hægt að ná nema tveimur túrum á sama stað.

Þá virtist mjer hv. flm. gefa í skyn, að það væri ekki með feldu, ef við þjenuðum ekki á ísfiskveiðunum eins og útlendingar. En það er nú samt svo, að við gerum það ekki, vegna þess hve miklu við þurfum að svara til annara. Reynslan hefir því orðið sú, að ísfiskveiðarnar hafa í mörg ár ekki gert betur en standa undir sjer.

Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg sje eftir þeim tíma, sem farið hefir í það að ræða þetta marklausa mál, enda þótt jeg hafi ekki sjeð mjer annað fært en að taka dálítinn þátt í vitleysunni, úr því á annað borð var búið að leiða hana inn í deildina.