18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3885)

126. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Magnús Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Það er ekki hægt að neita því, að búið er að gera úr þessu máli hjegómamál, með því að láta þessa till. koma til umr. nú, síðasta dag þingsins, þegar alveg augljóst er, að langar umr. geta ekki komið til mála; en þó kemur þetta enn betur í ljós, þegar sjálfir flm. fara að bítast um till. Jeg held nú satt að segja, að rjettast væri að lofa þeim að eigast við út af henni sín á milli. Hv. þm. Barð. gaf í skyn, að það væru fleiri flm. en hann einn, sem væru veikir í trúnni. Jeg held, að þó flm. einir greiddi atkv. um þáltill. þessa, þá yrði hæpið, að hún flyti í gegn. (ÓTh: Hún yrði strádrepin!). Já, því gæti jeg best trúað. Flm. till. hjer í þinginu eru eins og nefnd, sem klofnað hefir í minni og meiri hl., og nú hafa framsögumenn beggja nefndarhlutanna talað, og skal jeg ekki segja um, hvor hefir þar talað fyrir meiri eða minni hl.

Þetta er langstærsta mál, sem fyrir þinginu hefir legið að þessu sinni, hvort sem litið er á það frá fjárhagslegu sjónarmiði eða öðru. Alstaðar myndi litið svo á, að það væri stórmál að flytja til samkomustað löggjafarþingsins. Jafnvel Norðmenn, sem þó hafa lagt talsvert meira á sig en við af þjóðernislegum ástæðum, hafa ekki sjeð sjer fært að flytja þingið úr Osló á einhvern fornhelgan þingstað.

Hv. flm. sagði, að þetta mál væri tilfinningamál öðrum þræði. Hvar er hinn þráðurinn? Jeg hefi enga ástæðu heyrt koma fram fyrir flutningnum, sem er ekki spunnin af toga tilfinninganna. Jeg skal játa, að tilfinningamál eiga talsverðan rjett á sjer, en þá á að játa, að þau sjeu tilfinningamál. Ef hv. aðalflm. hefir gengið svo vel frá málinu sem skilja mátti á honum, þá eru öll skynsemisrökin á móti.

Þetta mál hefir nú á sínum tíma verið sótt og varið svo vel á milli Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna, og þá einkum Tómasar Sæmundssonar, að vafasamt er, að umr. hjer bregði nokkru nýju ljósi yfir það. Svo fór, að menn fjellust á hin sterku skynsemisrök Jóns Sigurðssonar. Hv. aðalflm. sagði, að Jón Sigurðsson hefði fallist á að hafa þingið í Reykjavík, til að tefja ekki fyrir að þingið yrði sett á stofn. Hjer er öllu beinlínis snúið við. Það var Jón Sigurðsson, sem vakti deilumálið, til þess að hindra að Alþingi yrði háð á Þingvöllum, eins og stóð í konungsboðskapnum. Hefði Jón Sigurðsson ekki risið upp hefði Alþingi verið sett deilulaust á Þingvöll. En Jóni Sigurðssyni þótti svo miklu skifta, að Reykjavík yrði þingstaðurinn, að hann kaus fremur að hefja deilur um málið, enda þótt hann kynni að tefja setningu þingsins með því, en að láta það afskiftalaust. Það sýnir best, hve rök hans voru sterk, að enda þótt menn stæðu á móti, sem jeg tel fyllilega jafnoka hv. aðalflm., með allri virðingu fyrir honum, þá varð hans málstaður þó ofan á.

Hv. aðalflm. sagði, að ástæður hefðu þá verið alt aðrar en nú. Það er rjett að því leyti, að ástæður til þess að hafa þingið í Reykjavík voru miklu minni þá en nú. Við sjáum það í einni af okkar þektustu skáldsögum, hvernig málið var í Reykjavík á þeim dögum. Reykjavík var þá aðalfulltrúi dönsku menningarinnar hjer á landi. Fjölnismenn hjeldu því líka fram, að Reykjavík myndi gera þingið danskt. En Jón Sigurðsson sagði þessi fallegu orð: „Alþingi á að gera Reykjavík íslenska“. Hvort sem það er rjett eða ekki, að Alþingi hafi gert Reykjavík íslenska, þá er víst, að Reykjavík er nú orðin engu útlendari staður en hvert annað hjerað á landinu.

Þegar jeg kom hingað til Reykjavíkur, var fjöldi útlendra orða notaður í daglegu tali, sem nú heyrast varla. Þá var altaf talað um að ganga á „Fortovinu“ og á „Galoschium“. Nú erum við mjög vel á veg komnir með að útrýma þessum orðum, enda hefir verið uppi allsterk hreyfing í þá átt að bæta málið. Á síðari tímum hafa skapast ýmsar ástæður gegn færslunni, sem ekki voru fyrir hendi á dögum Fjölnismanna. Þá var ekkert hús til. Það mátti eins byggja á Þingvöllum eins og hjer. — Jeg ætla ekki að fara að draga fram aftur það, sem hv. 2. þm. Reykv. dró fram í sinni röggsamlegu ræðu um það, hvernig allir straumar þjóðlífsins hafa langörasta rás hjer í Reykjavík. Það var sjerstaklega eitt mál, sem lá fyrir þinginu þegar það var flutt hingað, og lengi á eftir, og það var sjálfstæðismálið. Ef þingstaðurinn ætti að hafa áhrif á nokkurt mál, þá var ástæða til að ætla, að hann hefði það á þetta mál. Þetta var engum ljósara en Jóni Sigurðssyni, en samt var hann óhræddur við að setja þingið hjer í Reykjavík, sem þá var mjög danskur bær. Nú er þetta mjög breytt. Sambandsmálinu hefir verið ráðið til lykta í bráð, þó það sje ekki fullleyst. Nú eru viðfangsefni þingsins einkum innlend mál, atvinnumál ýms, og aðstaðan til að þá þau leyst er hvergi betri en í stærsta bæ landsins.

Hv. 1. þm. S.-M. vitnaði í ýmsa merka menn, sem hefðu lagt þessu máli lið sitt. Þar á meðal held jeg, að hann hafi gert mjer þann heiður að nefna mitt nafn. Það er nú langt síðan jeg skrifaði þessa grein, sem hv. þm. átti við, í tímarit, sem jeg hjelt úti um tíma. Jeg hefi ekki náð í hana, en jeg held, að jeg hafi heldur lítið sagt um þetta mál sjerstaklega, sem hjer liggur fyrir. Jeg talaði þar um ýmsar hugsanir, sem þá voru ofarlega á baugi, og meðal annars um þjóðgarð á Þingvöllum. Þeirri hugmynd hefi jeg verið og er altaf fylgjandi. Jeg held, að jeg hafi sagt eitthvað á þá leið, að þegar þjóðin væri orðin fullkomlega sjálfstæð og hefði fengið fulla meðvitund um það, þá myndi hún flytja þing sitt til Þingvalla. Fyrst og fremst verða menn að vera samhuga um þetta til þess að nokkur meining sje í að hreyfa málinu, en nú er útkoman sú, að flm. till. eru strax farnir að deila um hana sjálfa.

Þá eru ungmennafjelögin, sem vitnað hefir verið í. Það er nú um þau að segja, að þau eru mjög takmarkaður fjelagsskapur. Það er svipað um samþyktir þeirra að segja eins og þegar góðtemplarar fá eitthvað samþ. í öllum stúkum landsins, eða eins og þegar verkamenn eru að safna sínum mótmælum frá sínum fjelögum. Það þarf ekki nema fáa forgöngumenn til að koma slíku í verk. Áskoranir um þetta hafa aðeins komið frá tveim þingmálafundum. Við þekkjum nú þær samkomur. Þar koma venjulega aðeins fáir menn saman, og það er venjulega auðvelt fyrir þm. að fá samþ. mál, einkum þegar þau eru lítið undirbúin. Það virðist svo, að aðalástæðan í augum hv. flm. sjeu skuggahliðarnar á Reykjavík. En þær skuggahliðar, sem hann helst dró fram, fanst mjer ærið einkennilegar. Hann nefndi t. d. kröfugöngur, götulíf, kaffihúsasetur, götudrósir og jafnvel eitthvað fleira af því tægi.

Jeg held nú, að þeir menn, sem eru svo næmir fyrir áhrifum af þessu öllu saman, að þeir geta ekki notið sín á þingi af þeim ástæðum, sjeu yfirleitt ekki færir um að sitja á Alþingi. Þeir ættu helst að geymast í glerskáp heima hjá sjer, svo að þeim væri óhætt.

Það er alveg rjett, sem Einar H. Kvaran hefir sagt, að þetta, að menn vilja ekki hafa þingið hjer í bænum, er beinlínis af óvild til Reykjavíkur. Enda sagði hv. flm. blátt áfram, að sambúðin milli þingsins og Reykjavíkur væri slæm og að í fjarlægum hjeruðum væri litið á þetta sem eitthvað skaðlegt.

Eitt af því, sem hv. flm. talaði um, var það, að þm. væru skammaðir í blöðunum og talað um þá eins og stigamenn. Jeg vil nú aðeins spyrja hv. þm., hvort hann heldur, að blöðin mundu hætta að skamma þm., ef þingið væri í flutt til Þingvalla. (ÓTh: Hvert get jeg flúið frá þínum anda?). Já, heldur hv. þm., að hann geti umflúið blaðaskammir með því að færa sig um set? Nei, þetta eru yfirleitt alt gatslitnar röksemdir, sem ekki eru nokkurs virði. Hitt gat hv. flm. öllu minna um, hvað hjer væri þm. til gagns. Jeg vil ekki segja, að hjer í Reykjavík hafi þingið nóg hjálparmeðul, en hjer hefir það a. m. k. þau bestu, sem völ er á. Hjer höfum við bestu bókasöfn sem til eru, og bestu sjerfræðinga, sem til eru á landinu, þ. á. m. þá, sem ríkisstj. hefir á að skipa. Hjer er yfirleitt það besta, sem þjóðin hefir á að skipa í hverri grein. Hvergi á landinu er betri aðstaða til þess að mynda sjer heilbrigða skoðun á málefnum þjóðarinnar en hjer í Reykjavík. Jeg býst við, ef þingið væri haldið á Þingvöllum, að þá yrðu menn sífelt að vera þjótandi fram og aftur í bifreiðum, flugvjelum eða járnbrautum hingað til Reykjavíkur, til þess að sækja sjer fróðleik um og gögn í ýmsum málum, og sjálfsagt mundi það líka kosta eitthvað.

Þá hjelt hv. flm. því fram, að þingið mundi verða styttra á Þingvöllum, vegna þess að þar væri færra, sem glepur fyrir. Blaðamenn hafa nú skammað þm. mikið, en enginn hefir þó skammað þá eins og hv. þm. gerir með þessu. Ætlar hann að telja mönnum trú um, að þm. slæpist við þing störfin? Slíkt er mjög fjarri sanni. Mjer á þingi vinna menn baki brotnu. En það, sem einkum veldur því, að afgreiðsla mála fer ekki eins vel úr hendi eins og skyldi, er það, að þingið er of stutt. Þingmenn hafa ekki nægan tíma til að kynna sjer málin nógu vel.

Hv. flm. hjelt því fram, að á Þingvöllum væru allir jafnt settir um samband við sitt heimili. En hvað er unnið við það, að taka þá, sem hjer eiga heima, líka frá heimilum sínum, til þess að allir sjeu jafnilla settir? Það yrði aðeins til þess, að allir yrðu jafnákafir á að hlaupa frá þingstörfunum hálfunnum, til að komast heim til sín, eins og margir utanbæjarmenn eru nú.

Reynslan hefir sýnt, að þingstörfin geta ekki tekið styttri tíma en þau taka nú. Um þetta hefir margsinnis verið rætt, og menn hafa komist að raun um, að hjer er um ákveðið verk að ræða, sem ekki er hægt að lúka á skemri tíma, jafnvel þótt því sje hroðað af. Það eru þó ekki nema 24 stundir í sólarhring, og hv. þm. þurfa líka að sofa eins og aðrir menn.

Svo er nú þessi dæmalausa náttúrufegurð á Þingvöllum, sem hv. flm. talaði svo mikið um. En einhvern tíma þurfa þm. þó sennilega til að horfa á hana, ekki síður en götudrósirnar í Reykjavík.

Hv. 1 þm. S.-M. taldi, að þm. væru eiginlega að nokkru leyti bundnir því að samþ. þessa till., vegna þess hvað almennar óskirnar væru um þetta og hvað góðar undirtektir málið hefði fengið. Þeir, sem hafi skrifað um það, hafi flestir verið því meðmæltir. Gat hann þó um a. m. k. tvær greinar, sem hefðu verið ritaðar mjög eindregið á móti málinu. En jeg hefi minst á það fyr í minni ræðu, að þó að þessar óskir sjeu frá mörgum, þá er það í rauninni ein einasta hreyfing í landinu, sem hefir verið með þessar áskoranir til Alþingis. Og þessi hreyfing — sem er ágæt og heilbrigð, en alls ekki sjerlega fjölmenn eða sterk — er ungmennafjelögin. En jeg verð að segja, að jeg er ekki svo vel kunnugur þeim fjelögum, að jeg viti, hvort það er meginþorri þeirra eða aðeins lítill hluti, sem stendur að þessum áskorunum. Maður gæti hugsað sjer, að þessi fjelög sjeu svo mörg úti um landið, að það sje ekki nema örlítið brot þeirra, sem óskar eftir þessu. Um þetta hefir ekki verið upplýst. En það, sem að mínu viti er mest að athuga við þessar óskir, er það, að málið hefir yfirleitt alls ekki verið tekið á þeim grundvelli, sem það að taka það. Það er alment talað með hrifningu um þennan fornhelga stað, Þingvöll, en hinsvegar málað með mátulega svörtum litum þetta spillingardíki, sem Alþingi sitji nú í, Reykjavík. En það er algerlega forðast að horfast í augu við veruleikann, framkvæmdirnar í þessu máli, flutning þingsins til Þingvalla. Menn horfa aðeins á hina fornu dýrð þingsins þarna, hina merkilegu þjóðarsamkomu á fyrri öldum. En þeir hugsa ekki út í það, að ómögulegt er að endurreisa þessa þjóðarsamkomu nú í sama stíl eða sama svip. Það er bæði af því, að þingið er orðið miklu lengra, og ekki geta þeir menn farið að lifa í búðum, tjölduðum vaðmálum eins og í gamla daga, sem vanir eru að vinna störf sín í hlýjum og góðum íbúðum. Það er ekki til neins að tala með tilfinningu um það að endurreisa þingið í gamalli mynd.

Það er svo langt frá að vera óforsvaranlegt að vilja ekki bera þetta undir þjóðaratkvæði. Það mætti miklu fremur segja, að óforsvaranlegt væri að bera málið undir þjóðaratkvæði að svo komnu. Einmitt það, hvað lítið hefir verið skrifað um málið, sýnir, hvað það væri óforsvaranlegt. Það þarf að ræða það fyrst frá báðum hliðum vel og vandlega, og eftir þær umræður þjóðaratkvæði komið til mála. Mjer er nær að halda, að jafnvel þó að þjóðin samþykki þetta, þá mundi mörgum manninum snúast hugur, er hann sæi veruleikann og farið væri að ræða málið. Við höfum dálítið dæmi fyrir okkur. Bannlögin voru á sínum tíma sett undir þjóðaratkvæði. Málið hafði verið sótt mjög fast af mjög öflugum fjelagsskap hjer á landi, en mjög lítið frá hinu sjónarmiðinu. Svo þegar búið var að samþ. bannið við atkvgr. og þingið hafði talið sig bundið af þessu, þá fyrst er hafin barátta móti málinu. Og þetta mál hefir leitt okkur út í hina mestu ógæfu. Er betra að vanda til næstu þjóðaratkvgr. meir en gert var þá.

Jeg veit ekki, hvað maður á að fara langt út í það, hvaða kostnað þingflutningur mundi leiða af sjer. En þó er ómögulegt annað en gera sjer einhverja hugmynd um það, eða gera sjer ljóst, að kostnaðurinn er allmikill. Hv. 1. þm. S.-M. sýndi nokkra viðleitni í þessa átt Hann sagði, að það hefði verið áætlað, að það mundi kosta um hálfa miljón, þær byggingar og mannvirki, sem gera þarf á Þingvöllum. Aftur á móti sagði hann, að búið væri að færa kostnaðinn upp í nokkrar miljónir, og þetta væri svo óákveðið, að ekki væri hægt að henda reiður á. Ef það er rjett, að þingflutningur mundi kosta nokkrar miljónir, býst jeg við að menn mundu skoða huga sinn áður en þeir vildu leggja út í hann. Maður sjer undir eins, að það kemur til kostnaðar að reisa þinghús á Þingvelli, og það miklu stærra og veglegra en það, sem við nú erum í. Bæði eru fundarsalir þessa húss of litlir, og sjerstaklega vantar margvíslegt annað pláss. Á Þingvöllum yrði að hafa mjög ríflegt pláss fyrir bókasafn og ýmislegt það, sem frekar þyrfti að hafa á einangruðum stað heldur en í Reykjavík. Ekki yrði að tala um annað en hafa allvænar íbúðir fyrir umsjónarmenn hússins. Jeg er alveg viss um, að slíkt hús kostaði aldrei undir miljón krónum. Það er óhugsandi, að komist yrði af með minna hús en það, sem Landsbankinn nú er í. En það kostaði, má jeg segja, eitthvað yfir miljón krónur. (SvÓ: 800 þús.). Jeg hygg það hafi verið nær 1200 þús. en 800 þús. Jeg heyrði að vísu þá lægri upphæð nefnda, en þá var ekki búið að ljúka við húsið, og dýrast er það venjulega, sem síðast kemur. Jeg er ekki í vafa um, að þinghúsið yrði að sínu leyti dýrara en bankahúsið. Vitanlega yrði svo að byggja stórt íbúðarhús fyrir þingmenn, þar sem þeir gætu haft sitt mötuneyti. Þar yrði að rúmast allur sá fjöldi fólks, sem ætti að sjá þm. fyrir þeirra þörfum, og auk þess alt starfsfólk þingsins. Sennilega væri best að sameina það gistihúsinu, sem yrði að vera mjög stórt. Slíkt hús myndi kosta mörg hundruð þús. króna.

Ekki er til neins að berja höfðinu í steininn um að flytja stj. til Þingvalla. Þær þjóðir, sem hafa tekið það ráð að flytja þing sín út fyrir stærstu borgirnar og setja þau á einhverja fagra staði, eins og Bandaríkin og Ástralía, þeim dettur ekki annað í hug en að flytja sín stjórnarráð og opinberar skrifstofu þangað á sama stað, enda er annað óhugsandi. Það er öllum augljóst, hvað þarf að byggja hús yfir stjórnarráðið og þær opinberu skrifstofur. Veglega kirkju þyrfti að byggja á Þingvöllum. Og Þingvallan. áleit, að þar þyrfti að byggja bæ. Myndi það hvorttveggja aldrei fara undir 100 þús. En fyrir utan þetta, sem öllum er augljóst, að ríkið yrði að byggja, þá myndi rísa á Þingvöllum allstór bær og ýmiskonar rekstur. Og þó að það væri ekki beint ríkiskostnaður, væri það kostnaður fyrir ríkið að flytja hús til Þingvalla úr höfuðstaðnum.

Það er þess vegna alveg augljóst, að þessi áætlun er vitlaus, en hitt mun rjettara, að flutningur mundi kosta svo miljónum skifti. Upp í alt þetta ætti að koma það, að þetta alþingishús mætti nota fyrir háskóla, svo að ríkið gæti losnað við að byggja háskóla. Þetta er skoðun, sem hefir stundum verið sett fram, en jeg vil aldrei heyra án þess að mótmæla. Því að þótt þetta hús sje allsæmileg bygging fyrir þingið og þingið komist af með það lengur, þá er það svo illa lagað fyrir háskóla sem nokkurt hús getur verið. Ef maður lítur á, hvað margar stofur eru hæfar fyrir kenslustofur, þá er auðsjeð, að hagur háskólans mundi mjög lítið batna frá því, sem er, sem er alveg óviðunandi. Það eru smákompur uppi, fyrir utan fundarsalina, sem eru alveg óhæfar fyrir kenslustofur. Jeg held, að fyrir utan deildirnar og Hlaðbúð, sem er lág undir loft, sje ekki ein einasta stofa hæf fyrir kenslu. Aftur á móti má segja með fullum rjetti, að þinghúsið mundi batna stórum til afnota fyrir þingið, ef háskólinn færi burt. Því að herbergin, sem háskólinn notar, væru hentug til afnota fyrir þingskrifara við sínar ræðuskriftir. Þeir þurfa nauðsynlega að hafa einhversstaðar frið og næði við sitt mikla starf.

Jeg vil ekki ámæla hv. 1. þm. S.-M. fyrir þessa skoðun; það hafa aðrir komið fram með hana á undan honum, en hún er algerlega bygð á sandi. En mörgum hefir fremur dottið í hug, að hægt væri að nota þetta hús sem dómhús fyrir hæstarjett.

Hv. þm. kvað þann aðalerfiðleika, sem var áður á flutningi þingsins, nefnilega erfiðar samgöngur, nú horfinn úr sögunni. Jeg skal koma að því seinna. En af þessu má draga þá ályktun, að hv. þm. hugsar sjer sumarþing, því að það er langt frá, að góðar samgöngur sjeu á veturna. Jafnvel á sumrin eru samgöngur ekki sjerlega góðar, og a. m. k. er það dýrt að fara mjög oft á milli Reykjavíkur og Þingvalla. Samgöngurnar er ekki hægt að hugsa sjer fullkomnar fyr en ef við ættum kost á tíðum og ódýrum flugferðum. Þó að þjóðarrembingsvindurinn sje talsvert mikill, þá býst jeg ekki við, að menn geti fleygt sjer á honum til Þingvalla og allur þessi skötubarðsvængjaði fjandafjöldi, sem á að fljúga á milli kvölds og morguns og alla daga og nætur, ef ætti að heyja þing á Þingvöllum án þess að flytja hinar nauðsynlegustu stofnanir þangað.

Það er einmitt þessi kostnaður við að starfa þannig á tveimur stöðum, sem er alveg óútreiknanlegur fyrirfram, en myndi eflaust fara í hundruð þúsunda á ári.

Jeg vil þá koma að því, sem jeg drap á áðan, að það virðist vera skoðun hv. flm., að þingið ætti að vera að sumrinu. Nú er það alkunnugt, að þessi hv. þm. hefir manna mest barist fyrir því, að Alþingi væri háð að sumri til. Hefir hann talið, að íshætta og allskonar erfiðleikar gætu gert sumum þm. erfitt fyrir með það að komast til þings. Jeg býst nú við því, að hv. flm. geri ráð fyrir, að Alþingi verði háð að sumri til, og skulum við nú athuga nokkuð, hvernig málið horfir við frá því sjónarmiði.

Jeg skal fúslega játa, að á sumrin eru Þingvellir ákaflega yndislegur staður frá náttúrunnar hendi. En það eru svo miklir ókostir við það að hafa sumarþing, að þeir vega fyllilega á móti þeim hollu áhrifum, sem þm. eiga að verða fyrir vegna náttúrufegurðarinnar. Það er t. d. hið mesta óhagræði fyrir alla að sitja á þingi á sumrin. Þá er hábjargræðistíminn. Allar hendur verða þá að vinna að því að afla sjer og sínum viðurværis. Og svo eiga þeir, sem þm. eru, að fara að loka sig inni vikum saman. Það verður til þess, að þessir menn missa öll sumur úr æfi sinni, ef svo mætti segja. Það mætti þá alveg eins segja, að rjett væri að láta alla skólana starfa að sumrinu til. En hvers vegna er það ekki gert? Það er af því, að það þykir svo fráleitt, og svo væri það alveg ómögulegt.

Hv. flm. var mjög hneykslaður yfir því, að Einar H. Kvaran skyldi einhverntíma hafa kallað þetta umtal um flutning Alþingis „rómantiskt hjal“. En þetta er alveg rjett hjá Einari. Þetta er ekkert annað en „rómantiskt hjal“. Og jeg tel það þroskamerki hjá sjálfum mjer, að jeg skuli vera vaxinn frá þessu „rómantiska hjali“ um flutning Alþingis: En menn þurfa ekki að flytja Alþingi til Þingvalla til þess að göfgandi áhrif geti verið fyrir hendi frá náttúrunnar hendi. Því hvar getur yfirleitt fegurri stað en Reykjavík? Og þá skortir ekki rómantíkina. Hvað það snertir er ekki til merkilegri staður í víðri veröld. Það er ekki lítil rómantik yfir því, að goðin skyldu velja fyrsta landnámsmanninum bústað einmitt þar, sem síðar reis upp höfuðborg landsins. Þrælar Ingólfs skildu þetta ekki, er þeir sögðu: Til lítils fórum við um fögur hjeruð og blómleg til þess að byggja útnes þetta. Þeir voru maurapúkar þess tíma og skildu ekki rómantíkina. En nú er Reykjavík einmitt sá staður, er maurapúkarnir vildu helst eiga. Reykjavík er langrómantiskasti staðurinn á öllu landinu. Þar var fyrsti bærinn, fyrsti höfðinginn og fyrsta þingið. Hjer er einmitt sá upprunalegi þingstaður. Og hvað er nú þessi bær, með allri sinni spilling og löstum, eins og fjandmenn hans orða það? Hann er ekkert nema lítið þorp á yndislega fögrum stað, umvafinn af náttúrufegurð, og henni svo mikilli, að hún er engu meiri á Þingvöllum. Þetta hafa skáldin líka fundið, sbr. t. d. kvæði Þorsteins Erlingssonar „Ef hefir þú sumarkvöld verið í Vík“. Nei, Reykjavík er ekkert annað en lítið og yndislegt þorp. (MT: Er þm. fá þorpari? — ÓTh: Hann er a. m. k. ekki yfirþorpari). Það er rjett, að ýmsar þjóðir hafa flutt þing sín í smábæi, en þær hafa þá altaf jafnframt flutt stjórnarsetrið og aðrar þær stofnanir, sem eru nauðsynleg umgerð um þingið. En hvað okkur snertir, þá er það áreiðanlegt, að ef nokkursstaðar er skilyrði til þess að heyja hjer Alþingi á skynsamlegan hátt, þá er það einmitt hjer í Reykjavík.

Í þessu sambandi er það algerlega ómaklegt að núa okkur Reykvíkingum því um nasir, að sjóndeildarhringur okkar nái ekki út yfir bæinn og að við viljum halda Alþingi hjer vegna þess ágóða, sem við höfum af því, að það sje háð hjer. Reykvíkingar mega þvert á móti eiga það, að þeir eru mjög lausir við alla hreppapólitík.

Hv. flm. dró saman í 4 bálka hinar mikilvægu ástæður sínar fyrir flutningi Alþingis. Fyrst taldi hann, að það væri illa sett. Jeg hefi sýnt fram á, að sú skoðun hans er bygð á skammsýni og misskilningi. í öðru lagi sagði hann, að þetta væri ósk almennings. En hjer er aðeins um einn fjelagsskap að ræða, nefnilega ungmennafjelögin. Í þriðja lagi sagði hann, að flutningurinn mundi ekki kosta neitt. Jeg hefi sýnt fram á, að það mundi ekki kosta minna en 2–3 milj. Og í fjórða og síðasta lagi sagði hann, að þm. yrðu frjálsari og óháðari. Við þessu er í raun og veru ekkert svar, því það er aðeins orðagjálfur. Hvaða ófreskjur eru það, sem hv. flm. á við og sem hann heldur, að hafi svona mikil áhrif á hv. þm.? Ef hann á við „agitatorana“, þá getur hann verið viss um, að þeir verða ekki betri á Þingvöllum en hjer, eftir að þeir eru búnir að eyða bæði fje og tíma í það að komast þangað. Og hvað ónæði snertir, þá þekki jeg a. m. k. ekkert slíkt. Jeg hitti ákaflega sjaldan menn, er reyna nokkuð til þess að hafa áhrif á skoðanir mínar. Það hittir mig að vísu einstaka maður, sem biður mig fyrir áhugamál sín. Þyki mjer þau þess verð að líta við þeim, þá styð jeg þau, en annars ekki. Og jeg verð blátt áfram að telja það skyldu mína að reyna þannig að koma áhugamálum kjósenda minna eða annara á framfæri.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Aðeins skal jeg geta þess út af því, sem hv. flm. sagði um það, hversu uppbyggileg áhrif það mundi hafa á þm. að vera saman í heimavist, að jeg held, að þeir sjeu nógu leiðir hver á öðrum, þó þeir þurfi ekki að sofa saman líka.