11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

121. mál, sjúkrasamlög

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Jeg býst við því, að hv. þdm. hafi þegar áttað sig á því og tilgangi þess. Læknir einn hjer í bæ, áhugasamur um heilbrigðismál, Ólafur Thorlacius, benti mjer á það fyrir nokkrum dögum, að ákvæði 1. nr. 42 frá 1924 um samlagstæka menn væru óhagstæð og hefðu orðið til þess, að samlagsmönnum hefði fækkað í seinni tíð. Læknirinn mæltist til þess, að jeg flytti frv. til lagfæringar á þessu. Hefi jeg borið þetta undir hv. 3. þm. Reykv., sem er mjög vel kunnugur öllum slíkum málum, og þó sjerstaklega launakjörum þeirra manna hjer í bæ, sem helst eru í sjúkrasamlögum. Hefir hann tekið þessu með fullum skilningi og gerst meðflm.

Það, sem þessu frv. er ætlað að ráða bót á, er það, að með lækkandi dýrtíðarbótum hefir einnig lækkað hámark þeirra launa, sem samlagsmenn mega hafa samkv. l. frá 1924.

Hv. 3. m. Reykv. hefir upplýst, að jafnvel margir af hinum vinnandi stjettum muni hafa þau laun, að þau fari yfir þetta hámark.

Upphaflega voru samlagslögin sett 1911 og þá miðuð við 1200 kr. árstekjur, auk 100 kr. fyrir hvert barn, sem samlagsmaður hefði á framfæri. Árið 1919 var lögum þessum svo breytt, og hámarkið þá fært upp í 3000 kr. árstekjur, auk 500 kr. fyrir hvert barn. 1924 var lögum þessum ennþá breytt, og var þá að vísu miðað við 3000 kr. árstekjur eins og 1919, en þó þannig, að við þær bættust dýrtíðarbætur hjá launamönnum eins og þær voru á hverjum tíma, en 1924 voru dýrtíðarbæturnar 52%. Það virðist því, að þingið 1924, sem gerði þessa breyt. á lögunum. hafi haft fyrir augum 4500 kr. hámarkslaun, því að 3000 kr. + 52% gera 4560 kr. Nú höfum við flm. orðið ásáttir um að miða þetta árslaunahámark við 4500 kr., án tillits til þess, hvort dýrtíðarbætur greiðast eða ekki. Við lítum svo á, að það sje stuðningur fyrir sjúkrasamlögin, að sem flestir sjeu í þeim, og því beri að ýta undir, að menn gangi í þau.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. þetta, en Óska, að því verði vísað til 2. umr. og allshn., og beini jeg þeirri ósk til n., að hún flýti máli þessu eftir föngum.