09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Jeg hefi hingað til setið hjá að mestu leyti í þessum umr. En jeg tel naumast viðeigandi, að frv. fari svo út úr deildinni, að ekki sje gerð grein fyrir, hversu mikið það fjármagn er, sem sú lánsstofnun, sem hjer er um að ræða, á að hafa til umráða, og hverjar þær skyldur eru, sem ríkissjóði eru lagðar á herðar með stofnun hennar. Jeg hefi nú reynt að gera mjer grein fyrir þessu, og útkoman er sem næst því, er hjer segir:

Eftir frv. á bankinn að starfa í 5 deildum. Fyrir sparisjóðs- og rekstrarlánadeild má ríkissjóður ábyrgjast alt að 3 milj. kr. Eigi er unt að spá neinu um það, hversu mikið sparifje sú deild muni fá til umráða, en til þess mun ætlast, að kapp sje lagt á að afla henni fjár á þann hátt, m. a. með því að ávaxta þar opinbera sjóði.

Stofnfje veðdeildarinnar er eftir frv. milj. kr., auk þess, sem hún fær nokkurn hluta kirkjujarðasjóðs til ráðstöfunar. Þá er og gert ráð fyrir, að ríkið taki 2 milj. kr. lán til vaxtabrjefakaupa hennar vegna. Veðdeildin má selja vaxtabrjef fyrir áttfalda stofnfjárupphæðina, eða 10 milj. kr. alls.

Þá er bústofnslánadeildin. Stofnfjé hennar er 1 milj. kr. Lánsheimild stjórnarinnar til vaxtabrjefakaupa er 11/2 milj. Vaxtabrjef deildarinnar mega nema sexfaldri stofnfjárupphæð, eða um 9 milj. króna.

Af lögunum um ræktunarsjóð er ekki hægt að sjá með fullri vissu, hvert stofnfje hans er, en það mun vera eða verða milli 2 og 3 milj. kr. Landsbankanum er gert að skyldu að kaupa 1 milj. og 400 þús. í vaxtabrjefum sjóðsins, og alls mega þau nema 6-faldri stofnfjárupphæðinni. Alls getur sjóðurinn því haft til umráða 15-18 milj. kr.

Árlegt framlag ríkisins til byggingar- og landnámssjóðs er 200 þús. kr. Ríkisstjórnin hefir heimild til að taka lán handa sjóðnum, alt að 5 milj. kr. Sje eigi gert ráð fyrir, að alt framlag ríkissjóðs gangi upp í greiðslu á vaxtamismun, má ætla, að fje það, er sjóðurinn hefir til umráða, verði að nokkrum tíma liðnum kringum 6 milj. kr.

Að þessu athuguðu telst mjer svo til, að 4 síðast töldu deildir Búnaðarbankans geti innan skams haft í veltu fast að 40 milj. kr. (nákvæmlega 37 milj.) í vaxtabrjefum, lánum með ríkisábyrgð og beinum framlögum frá hinu opinbera. Þá þykir mjer líklegt, að gera megi ráð fyrir, að hann fái til meðferðar í sparisjóðsdeild áður en langt um líður a. m. k. ca. 20 milj. kr. af sparifje þjóðarinnar, auk 3 milj. kr. láns með ábyrgð ríkissjóðs. Væri veltufje bankans þá alls um 60 milj. kr., og yrði hann þá langstærsti banki hjer á landi.

Mig furðar talsvert á því, að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa gert deildinni nánari grein en hann hefir gert fyrir því, hversu mikið fje hjer er um að ræða. (Forsrh.: Það sjest í frv.). Almenningur leggur varla út í að reikna þetta út eftir frv. Það veit hæstv. forsrh. Og það er nokkurnveginn sjálfsagt að láta þetta koma greinilega fram hjer á Alþingi og í Alþingistíðindunum, ekki síst þegar þess er gætt, að ríkið á að bera ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, auk hinna sjerstöku ábyrgða og beinna framlaga. Bein framlög frá ríkinu til bankans teljast mjer 6 milj. kr. Lántökuheimildir og ábyrgðarheimildir nema 13 milj. Og veltufjeð alt, sem ríkissjóður ber ábyrgð á, getur, eins og jeg hefi tekið fram, fljótlega orðið alt að 60 milj. kr.

Því neitar enginn, að svo framarlega sem þessi lög verða samþ. og ná tilgangi sínum, er mikið gert til að bæta úr lánsþörf landbúnaðarins, sem hingað til hefir ómótmælanlega verið allmjög afskiftur við úthlutun starfsfjár. Þó að jeg sje, eins og jeg hefi áður tekið fram, ekki viss um, að farin sje rjetta leiðin í þessu frv., mun jeg samt greiða atkv. með því. Jeg get ekki neitað því, að mjer finst óviturlegt, að horfið skyldi vera frá hugmyndinni um einn ríkisveðbanka. Mín skoðun er sú, að öll veðlánastarfsemi í sveitum og kaupstöðum væri best komin hjá einni og sömu stofnun. Gangi þetta frv. í gildi, höfum við fljótlega 5 tegundir bankavaxtabrjefa hjer á landi. Búnaðarbankinn hefir 3 tegundir: vaxtabrjef veðdeildar, bústofnslánadeildar og ræktunarsjóðs. Auk þess er veðdeild Landsbankans með sín vaxtabrjef. Loks var samþ. á síðasta þingi heimild til stofnunar og starfrækslu fasteignalánsfjelaga. Eftir því sem jeg best veit, hefir eitt slíkt fjelag nú þegar trygt sjer nokkurt fje með aðstoð Íslandsbanka og er í þann veginn að taka til starfa. Bætist þá við enn ein tegund vaxtabrjefa.

Að hafa svo margar tegundir vaxtabrjefa verð jeg að telja mjög óheppilegt. Vaxtabrjef þessara stofnana eru til mismunandi tíma og með mismunandi vöxtum og verða seld af mörgum aðilum. Má því telja víst, að þau verði talin misjafnlega útgengileg og nokkuð misjafnlega trygg. Þetta er stjórninni sýnilega ljóst, því að hún hefir í þessu frumvarpi gert ýmsar smávægilegar ráðstafanir til að tryggja sölu brjefanna með því að heimila lántöku ríkissjóðs til brjefakaupa. En allir ættu þó að geta orðið sammála um, að ríkið geti ekki orðið aðalkaupandi brjefanna, og að óhjákvæmilegt verði að leita að mjög miklu leyti til útlendra peningamanna eða stofnana. Jafnvel þótt horfið yrði að því að láta eina og sömu stofnun selja öll þessi brjef, sem áreiðanlega væri til bóta, myndi salan samt ganga ver af því að þau eru gefin út af svo mörgum og ólíkum stofnunum.

Jeg geri ráð fyrir, að örlög þessa frv. sjeu þegar ráðin. Jeg vildi þó eigi láta undir höfuð leggjast að benda á þau atriði, sem jeg nú hefi talað um, áður en það fer út úr deildinni.

Hæstv. forsrh. hefir haldið því fram, að hættan, sem fylgdi lánum til landbúnaðar, væri hverfandi lítil, samanborið við önnur lán, sem bankarnir hjer hefðu veitt. Jeg skal játa það, að reynslan hefir orðið sú til þessa yfirleitt, að því er jeg best veit, að lánsstofnanirnar hafa beðið minni töp af lánum til landbúnaðar heldur en til sjávarútvegs og verslunar, og einmitt þetta er ástæðan til þess, að jeg álít rjett að gera nokkurn mun, og hann ekki alllítinn, á vaxta- og lánskjörum til landbúnaðar frá því sem er til hinna áðurnefndu atvinnugreina. Hinsvegar er það vitanlega fjarri öllum sanni að halda því fram, að ekki fylgi og nokkur áhætta lánum til landbúnaðar. Það er rjett hjá hv. 1. þm. Reykv., að töp hafa orðið nokkur á þeim lánum. Þær upphæðir munu smáar, þegar borið er saman við töp bankanna á öðrum atvinnuvegum, en við þann samanburð er ekki rjett að líta á töpin eingöngu, heldur og á lánsupphæðirnar og hlutfallið milli taps og útlána til hvers atvinnuvegar.

Jeg hygg, að skýrslur liggi ekki fyrir um það, hversu mikil töpin hafi orðið, þegar miðað er við hundraðstölu lána til landbúnaðar og sjávarútvegs; væri þó fróðlegt að fá skýrslur um það efni. Því verður ekki neitað, að þessi tvö síðustu þing hafa sýnt ákaflega mikla viðleitni í þá átt að koma peningamálum okkar í fastara horf. Hitt kann að verða ágreiningur um, hversu vel og hyggilega þar hafi verið að unnið. Þingið í fyrra samþykti verulegar breytingar á lögum um Landsbanka Íslands, og fyrir þessu þingi liggur í fyrsta lagi frv. til verðfestingar eða stýfingar, og nú er um að ræða frv. um þessa sjerstöku lánsstofnun fyrir landbúnaðinn.

Jeg vildi mega vænta þess, að þeir hv. þm. og sú hæstv. stjórn, sem nú kann svo vel að sjá þörf sveitamannanna í þessum efnum, kunni jafnvel að sjá þörf annara manna, sem þetta land byggja. Það var vikið að því við 1. og 2. umr., að í frv., sem hjer liggur fyrir, væri ekki gert ráð fyrir lánveitingum til annara manna en þeirra, sem hefðu landbúnað eingöngu fyrir atvinnu. Nú hefir hæstv. forsrh. lýst því yfir hjer áður í deildinni, að hann fyrir sitt leyti væri samþykkur og vildi vinna að því, að úr þessu yrði bætt þannig, að upp í þetta frv. væri tekin heimild til þess að lána smábændum í grend við bæina, verkamönnum og sjómönnum, sem hafa nokkra jarðrækt til uppbótar atvinnu sinni. (MJ: Þeir breyta því til hins verra, náttúrlega). Jeg vil helst ekki leggja trúnað á spár hv. 1. þm. Reykv., þar til ef reynslan sannar annað; þá verð jeg auðvitað að gera það. Þangað til tek jeg orð hæstv. ráðh. trúanleg.

Annað er það, sem jeg ekki vil láta hjá líða að benda á. áður en frv. kveður þessa hv. deild; það er það, að ekki verður sjeð á frv., að gerður sje neinna greinarmunur á því, hvernig landbúnaðurinn er rekinn. Jeg drap nokkuð á þetta hjer í gær, við umr. um frv. til ábúðarlaga. — Jeg álít, að það skifti miklu, hvor stefnan verður upp tekin, hvort hlúð er að einstökum fjáraflamönnum, sem af einhverjum ástæðum hafa yfir miklu fje að ráða, leggja undir sig hálfa hreppa og reka bú sín að mestu eða öllu leyti með leigðu vinnuafli, eða hvort á að örfa menn til smábúskapar, þar sem meiri hluti þeirra manna, sem vinna að búnaðinum, er skyldulið þess, sem býr, en lítill aðkeyptur vinnukraftur fenginn. Jeg sje ekki, að hjer sje gerður neinn greinarmunur á þessu tvennu. Mjer virðist, að sá maður t. d., sem kannske býr á mörgum jörðum saman og hefir hundruð þúsunda króna í veltunni, og rekur búið með eingöngu aðkeyptum vinnukrafti, eigi að njóta sama styrks og sömu lánskjara hjá Búnaðarbankanum og bóndinn, sem sjálfur yrkir og ræktar jörð sína og hagnýtir hana með skylduliði sínu svo að segja eingöngu. En á þessu er mjög mikill munur; annað búið er rekið sem gróðafyrirtæki, en hitt sem bjargræðisvegur mannsins sjálfs, sem búið stundar, og fjölskyldu hans. Jeg get ekki látið hjá líða einmitt í sambandi við þetta frv. að drepa nokkuð á annað frv., sem liggur fyrir þinginu. Það er frv. um styrk frá því opinbera til verkamannabústaða. Jeg verð að vona, að sá flokkur í þinginu, sem rjettilega kann að meta þörf bænda til aukins starfsfjár til að bæta bústofn sinn og húsakynni, kunni og að sjá þarfir verkamanna í kaupstöðum til að geta bætt sín húsakynni. Vona jeg, að það sýni sig þegar líður á þingið og málin koma til atkvæða.

Jeg hefði nú freistingu til þess, þótt það þyki kannske miður fara við 3. og síðustu umr. frv., að drepa nokkuð meira á bankamál okkar og peningamál yfirleitt, en jeg skal láta nægja að vekja athygli á, að sú stefna virðist tekin upp, ef þetta frv. verður að lögum, að hvor meginþáttur atvinnulífsins eigi að hafa sína lánsstofnun, og þá lít jeg svo á, að óumflýjanlegt verði að sjá hinum höfuðatvinnuvegi landsmanna, sem er sjávarútvegurinn, fyrir sjerstað í lánsstofnun, sem er hliðstæð við þessa. Jeg ætla, að jeg hafi tekið rjett eftir hjá hæstv. forsrh., að hann. er hann svaraði hv. 1. þm. Reykv., ekki segði neitt um það, hvort hann væri því fylgjandi, að sett yrði upp lánsstofnun fyrir sjávarútveginn yfirleitt, heldur aðeins, að hann væri því meðmæltur, að smábátaútgerðin fengi sína lánsstofnun. Jeg get auðvitað ekki lagt hæstv. forsrh. orð í munn, en mjer þykir það líklegt, að hann, með glöggsýni sinni um hag bænda, muni einnig sjá, að það er engu síður þörf fyrir sjávarútveginn að fá hagkvæm lán. Ef það er sjerstaklega þörf á að útvega lán til landbúnaðarins, þar sem því m. a. hefir verið haldið fram, að áhættan sje þar minni, þá er það líka víst, að mikið af því lánsfje, sem lagt er beint eða óbeint til sjávarútvegsins, svo sem til skipakaupa, húsa- og verksmiðjubygginga, má einnig heita mjög örugt, og vitaskuld er ekki sama áhættan á öllum þeim lánum, sem veitt eru til sjávarútvegs. Það er misjafnt, eftir því til hvers lánunum er varið, og ætti það auðvitað að koma fram í vaxtakjörunum. Jeg álít eðlilegt, að með því að setja upp sjerstaka lánsstofnun fyrir sjávarútveginn, þá yrði tekið tillit til alls þessa.

Enn vil jeg taka eitt fram. Mjer virðist það talsvert undarlegt og óviðeigandi, að samtímis því, sem ríkissjóði eru bundnir svo stórir baggar sem gert er í frv. þessu, þá skuli ekkert orð heyrast frá hæstv. stjórn um það, hvort hún hafi til þessa notað lánsheimildir þær, sem henni voru veittar í fyrra, og hvort hún hafi lagt Landsbankanum það fje, sem ráð var fyrir gert í Landsbankalögunum. Eftir þessu hvorutveggja inti jeg við umr. um verðfestingarfrv., en fjekk ekkert svar. (Forsrh.: Jeg hefi alls ekki heyrt þessa fyrirspurn hv. þm. fyr). Mjer finst þetta skifta miklu máli, því að það er m. a. af sumum talið frv. til gildis, þótt mjer finnist það hæpin meðmæli, að með lögunum verði mjög dregið sparifje úr höndum Landsbankans yfir til þessa nýja banka. Finst mjer eðlilegt og sjálfsagt, að hæstv. stjórn gefi upplýsingar um þetta, því að jeg get ekki tekið undir það með hæstv. forsrh., að þessi banki eigi að verða sterkasti bankinn í landinu. Jeg lít svo á, að seðlabankinn, sem á að vera þungamiðjan í okkar peningamálum, eigi að vera sterkastur, svo sterkur, að til hans geti hinir aðrir bankar leitað, og jeg vil gera ráð fyrir því, að það sje ekki tilgangur hv. flm. frv., að það verði á nokkurn hátt til þess að draga úr þroska Landsbankans, því að ef svo væri, þá væri illa farið.

Jeg get svo látið þetta nægja að þessu sinni, en jeg kynni því vel, ef hæstv. stj. eða hv. flm. frv. vildu greiða mjer svör við þessum spurningum, sem jeg nú flutti hjer.