29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Sem að líkum lætur hefir allshn. ekki borið sig saman um brtt. þær, er hjer eru til umr., bæði frá hv. 3. landsk. og hv. þm. Ak. Og það, sem jeg segi um þær, verður því á mína ábyrgð, nema að svo miklu leyti sem jeg hygg, að það verði í nokkru samræmi við skoðun meiri hl. n.

Skal jeg þá fyrst taka til athugunar brtt. á þskj. 451. Fyrsta brtt. þar, sem hv. flm. hennar hefir skýrt, lítur í fljótu bragði vel út. Þeir eru sennilega fáir, er vilja áskilja letingjum og slæpingjum kosningarrjett. En jeg get samt ekki skilið, að þetta sje annað en einskonar gildra, sem varasamt er að lenda í, því svo getur farið, að hjón verði að þiggja af sveit vegna leti, óreglu eða hirðuleysis af hálfu mannsins. Verður þá samkv. þessu konan undir sömu sökina seld, þó hún sje að engu samsek manni sínum. En þetta væri mesta órjettlæti. Jeg fæ því ekki sjeð, að nokkur hætta sje á ferðinni, þó frv. eins og það er nú verði að lögum, því samkv. gildandi lögum hafa sveitar og bæjarstjórnir heimild til þess að svifta slíka menn og ræðir um í brtt. hv. 3. landsk. fjárforræði og hafa þeir þá um leið mist kosningarrjett sinn. Verði breyt. því samþ. getur skapast órjettlæti með 1. gr. frv., sje hlutaðeigandi giftur, því þá hlýtur það að ganga yfir konuna líka. Og jeg geri ráð fyrir því, að þó hv. 3. landsk. líti svo á, að þetta skifti ekki miklu máli, þá sjeu þó margir, er líti öðruvísi á þetta atriði. Mun jeg því ekki fylgja þessari brtt., og hræðist jeg það ekki, þó mjer verði borið það á brýn að jeg vilji láta letingja og óreglumenn hafa kosningarrjett.

Hvað snertir 2. og 3. brtt. á sama þskj., þá er það um þær að segja, að þær valda ekki mikilli breytingu. En hinsvegar finst mjer ekki brýn ástæða til þess að fella 2. gr. niður. Sama máli er að gegna um brtt. hans við 4. gr., því eins og hv. 3. landsk. tók fram, er hún aðeins til þess að koma samræmi í frv. vegna breyt., er hann ber fram við síðari gr. frv.

Þá er það 4. brtt. hv. 3. landsk. Jeg tel hana aðeins skýringu. Álít jeg, að hennar sje ekki beint þörf, en hefi hinsvegar ekkert á móti því, að hún verði samþ. Er vitanlega ekkert á móti því, að hreppsnefndarmaður eða bæjarfulltrúi, er ætlar að skorast undan endurkosningu, verði að hafa tilkynt það til kjörstjórnar áður en kosning fer fram. En þetta á aðeins við í sveitum, því þar sem listakosning er, er öllum kunnugt nokkru fyrir kosningu, hverjir verða í kjöri. Mun það og ótítt, að menn sjeu settir á lista án þess að leitað sje samþykkis þeirra.

Þá kemur aðalbreyt., um að fella burtu úr frv. ákvæði, er snerta aðstöðu bæjarstjórnar til borgarstjóra, einkum það atriði, sem hv. 3. landsk. lagði mesta áherslu á, að nú skuli tekið í lög, að bæjarstjórnirnar kjósi borgarstjóra. Það telur hv. 3. landsk. mjög ósanngjarnt. Hann segir, að verið sje að taka rjett af kjósendum, en eins og hæstv. forsrh. benti á við 2. umr., er það misskilningur. Það má geta þess, að í þessum sömu l. er gert ráð fyrir því, að hreppsnefndir kjósi oddvita, svo sem altaf hefir verið, og hv. 3. landsk. hefir enga brtt. flutt við það og ekkert haft við það að athuga. Rjettarmissir borgara er þá auðvitað í báðum tilfellum sá sami, en enginn ymprar á því, að oddviti skuli kosinn af öllum kjósendum.

Jeg get ekki sjeð, að það sje athugavert, að borgarstjóri sje sviftur atkvæðisrjetti í bæjarstjórn, ef hann ekki er jafnframt bæjarfulltrúi. En ef hann á að hafa atkvæðisrjett, er það sama sem að fjölga mönnum í bæjarstjórn, og það er ekki sanngjarnt. Hitt liggur í augum uppi, að það er mjög óheppilegt, ef borgarstjóri kemst í mótstöðu við meiri hl. bæjarstjórnar, enda virtist hv. 3. landsk. viðurkenna það, því að hann gat þess, að bæjarstjóri gæti altaf sagt lausri stöðunni. Það er rjett: hann hefir það úrræði, en bæjarstjórn ekki. Það er ekki víst, að borgarstjóri kæri sig um að segja lausri stöðunni. Fyrirkomulagið í sveitarstjórnarlögunum um aðstöðu oddvita til hreppsnefndar virðist vera full sönnun þess, að hið sama geti átt við um borgarstjóra og bæjarstjórn.

Jeg geri ráð fyrir, að það hafi ekki mikla þýðingu að lengja umr. úr þessu. Hv. 3. landsk. gat þess, að engin rök hefðu verið færð fyrir þessari breyt. Hann um það. Það hafa verið færð góð og gild rök fyrir málinu, hvað sem hv. 3. landsk. segir. Hann gat þess ennfremur, að þetta væri ein af „fórnum“ Framsóknarflokksins til jafnaðarmanna. Ekki veit jeg, hvaðan hv. 1. landsk. hefir þetta. Jeg hugsa, að heimildir hans sjeu veigalitlar, en jeg get vel unnað hv. þm. og hans flokki að veifa þessu fyrir sig sem slagorði, ef þeim liggur á. Það hefir farið svo með þessar „fórnir“, sem íhaldsmenn hafa mest talað um, að það hefir orðið fremur lítill matur úr þeim, t. d. á fundum úti um land. Jeg hugsa, áð eins fari, þó að einn hlekkur bætist í keðjuna.

Jeg er á móti öllum brtt. hv. þm., nema brtt. við 6. gr. Jeg sje ekki, að hún spilli frv. að neinu leyti.

Hv. þm. Ak. flytur eina brtt. á þskj. 452. Hann hefir ekki enn gert grein fyrir henni, og skal jeg því ekki fjölyrða um hana. Ef grg. hv. þm. verður á þann hátt, sem jeg býst við, eftir skilningi mínum á brtt., mun jeg geta fylgt henni.