03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg ætla ekki að svara hv. þm. Barð. öðru en því, að ef jeg álíti, að íhaldsmenn væru eins góðir og aðrir í fátækrastjórnum, eða yfirleitt öðrum opinberum stjórnum, þá gæti jeg eins vel kosið þá og stutt þá til kosninga eins og aðra. En það er svo langt frá, að svo sje. Það þarf ekki annað en líta í þingtíðindin og sjá, hvernig þeir líta á almennan kosningarrjett og stjórnarskrána og kosningalögin, sem enn gilda, til þess að sjá, hvernig þeir takmarka þessi mannrjettindi.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri ekki annað en vitleysa, þegar jeg sagði, að íhaldið væri á móti almennum kosningarrjetti. Hv. þm. veit þá alls ekki, hvað er almennur kosningarrjettur. Almennur kosningarrjettur er það, þegar engar hömlur eru lagðar á kosningarrjettinn, hvorki aldur hærri en lögaldur, fátækrastyrkur eða annað slíkt. En Íhaldsflokkurinn vill einmitt sem flestar slíkar hömlur leggja á.