13.04.1929
Neðri deild: 44. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Jeg ætla að byrja með að taka í sama streng og hv. þm. Dal. og lýsa óánægju minni út af framkomu hæstv. stj. í sjálfstæðismálunum. Það getur að vísu orkað tvímælis, hvort ástæða hali verið til að síðasta Alþingi tilkynti Dönum hátíðlega, að við ætluðum að nota okkur uppsagnarákvæði sambandslagasamningsins og segja samningunum upp 1943. Jeg fyrir mitt leyti tel, að það hafi verið rjett. En hitt orkar ekki tvímælis, að úr því að það var gert, þá er það háðung að renna frá þeirri yfirlýsingu undir eins og menn sjá framan í Dani. Okkur ber skylda til að sýna þeim fulla hreinskilni. Það er enginn illvilji í garð Dana, þó við sýnum fulla einurð og festu í sjálfstæðismálinu. Mjer finst eins og hæstv. stj. hafi verið að sæta færis til að afsaka við Dani einurð okkar í sjálfstæðismálinu, og jeg get ekki neitað því, að mjer fellur stórum miður hvernig hæstv. stj. hefir haldið á þessu máli, einkum hæstv. dómsmrh., því hæstv. forsrh. hefir nú gefið allskýr svör um, að sín afstaða væri óbreytt frá því í fyrra, og skildi jeg hann svo, að blöðin hefðu ranglega eftir honum haft a. m. k. sumt af umræddum ummælum.

Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. hefir gengið út rjett í því að jeg byrjaði að tala. Hann hefir sennilega ekki skapsmuni til að hlýða á rökstuddar árásir á stjórnargerðir sínar. En jeg læt ekki fjarveru hans hefta mál mitt.

Hæstv. ráðh. var að verja þefarana. Jeg skal ekki ræða alment um þann veglega hóp, er spratt upp undan verndarvæng hans. En hitt er víst, að annaðhvort hefir sú stjett lagst niður með öllu eða breytt algerlega um starfshætti. Alþjóð manna reis á móti þeim ófögnuði. Hæstv. ráðh. hefir oft talað um hinn algilda dóm almenningsálitsins. Hjer var dómur almennings svo skýr sem á varð kosið. Starfsaðferð þessara manna hefir nú verið gerbreytt. Það er þyngsti áfellisdómurinn um starf þefaranna.

Jeg skal ekki fjölyrða um vínfölsunina. Hv. þm. Vestm. hefir farið ítarlega út í það mál. En það er spaugilegt, þegar hæstv. ráðh. er að halda því fram, að það sje hin eina ávirðing hins nýja forstjóra, að honum hafi ekki strax tekist að losna við alla vanhirðuna, sem fyrv. forstjóri skildi við. Sjálfur segir þó forstjórinn, að fyrv. forstjóri hafi aðeins verið að kjótla með vínin í kútum, en sjálfur hafi hann strax fengið sjer ámu til að blanda í, er tók 5 uxahöfuð. Hæstv. ráðh. þarf brjóstheilindi til að halda því fram, að hinn nýi forstjóri sje sprengmóður á umbótasprettinum!! Hjer sem oftar eru rök ráðh. ótvíræður vottur um óvenju óskýra hugsun og einsdæma vanþroskað siðferði. Ráðh. treysti sjer að vísu ekki til að neita vínblönduninni og vörufölsuninni, „en“ segir ráðh., það gerir ekkert til, þó vín sje blandað, því það er sannanlegt, að fluttar hafa verið sviknar kartöflur inn í landið. Það gerir ekkert til, þó jeg hafi brotið reglugerðina, því það gerði Jón heitinn Magnússon líka!“ — Það er ávalt þessi vörnin hjá hæstv. ráðh.; þessi sjúklegi hugsunarháttur og dómgreindarleysi.

Hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni drykkjuskap íhaldsmanna. Hann er stöðugt að stagast á drykkjuskap andstæðinganna, en meinlætalifnaði framsóknarmanna. En það er þjóðkunnugt, að í fari hæstv. ráðh. sjálfs eru óteljandi lestir ólíkt andstyggilegri en drykkjuskapur.

Hæstv. ráðh. hefir æðioft minst á drykkjuskap minn. Í tilefni af því vil jeg segja það, að á þeim 4 þingum, er jeg hefi setið, mun hann aldrei hafa sjeð vín á mjer nje nein merki þess, að jeg bragði vín, nema í þingveislum. Þar fáum við þm., sem margir hverjir eru kunningjar og jafnvel vinir, þótt við sjeum á öndverðum meiði í stjórnmálunum, tækifæri til að setjast við sáttaborðið og láta niður falla daglegar erjur. En því miður hvílir nærvera hæstv. ráðh. og Gróusöguburður hans eins og skuggi yfir þingveislunum. Þessi tilhneiging hans að lepja út alt það, er verða má til að níða andstæðinga sína, er hörmuð og fyrirlitin jafnt af flokksbræðrum sem andstæðingum.

Eftir að jeg hafði flutt fyrri ræðu mína, stóð ráðh. upp og hjelt 5 klt. ræðu. Jeg skal ekki svara öðru úr henni en því, sem hann vjek að mjer. Hann taldi mig götustrák og ómentaðan ræfil, úrþvætti og fleira því um líkt. (Dómsmrh.: Tók þm. það til sín að óþörfu?). Hæstv. ráðh. beindi þessu til mín, og hefir raunar fyr látið slíkt nægja í stað raka. Það er auðheyrt, að jeg hefi komið við kaunin; til þess hafði jeg líka besta vilja og það er gleðilegt að heyra, að jeg hefi einnig haft til þess getu.

Það er broslegt að heyra hæstv. ráðh. bregða öðrum um mentunarskort. Einmitt það, að hann hefir farið á mis við mentun, er orsök að því, hve illa notast kraftar hans. Kraftar, sem þó eru ekki einskis virði á vissu sviði, sviði ímyndunaraflsins. Jeg tel víst, að hefði ráðh. notið mentunar á æskuárunum, mundi eitthvað hafa lagast jafnvægisleysið milli ímyndunarafls og dómgreindar hans, en þessi jafnvægisskortur veldur mestu um afglöp ráðh. Jeg tel mig ekki mentamann — (Dómsmrh.: Alveg rjett.), já rjett, — alveg rjett, eins og alt, sem jeg fer með, —, en jeg hefi átt betri aðstöðu en næstv. ráðh. og hlotið skárri mentun, þrátt fyrir lítið lofsverða leti við lesturinn á æskuárunum, leti, sem jeg hefi orðið að greiða með fyrirhöfn á fullorðinsárunum. Jeg kann því því illa, að vita-mentunarlaus maður skuli vera að núa öðrum mentunarleysi um nasir. En það eru þessir mentunarerfiðleikar næstv. ráðh., er fylt hafa skapgerð hans beiskju, einkum í garð andstæðinganna.

Jeg skal ekki fara langt út í Tervani-málið. Það er sagt, að hæstv. ráðh. tali oft eins og vitlaus maður. Það gerði hann ekki í þetta sinn; hann flutti ræðu sína venju fremur rólega. En vörn hans var þó ekki vörn hins vitra manns. Hæstv. ráðh. ætlaði sjer að sanna, að Tervani væri saklaus. Og hvernig fór hann að því? Jú, með því að sanna, að Júpíter væri saklaus. Þetta var að því leyti merkileg vörn, að hingað til hefir hann gert sitt besta til að láta líta svo út, sem hann væri ekki að svívirða hæstarjett með framkomu sinni í Tervani-málinu. En nú er þá grímunni kastað. Nú ver ráðh. Tervani með því að reyna að sanna sakleysi Júpíters, eða með skýrari orðum: með því að staðhæfa, að hæstirjettur hafi kveðið upp rangan dóm yfir Júpíter. Það er að vísu alveg rjett, að það er ekki hægt að aðskilja mál þeirra skipstjóranna á Júpíter og Tervani. En á hverju byggir ráðh. sakleysi Júpíters? Jú, hann rekur varnarskjölin! Hann vitnar í Lárus Jóhannesson, verjanda Júpíters. Hann notar verjanda Júpíters sem vitni og jafnvel dómara í máli Júpíters. Nú vita allir og skilja, að verjandi á auðvitað að verja skjólstæðing sinn og tíunda alt, sem honum mætti verða til málsbóta. En það er dómstólanna að greina kjarnann frá hisminu. Hæstv. ráðh. gerir hjer verjanda málsins að dómara. Lengra er ekki hægt að komast. Að nokkur dómsmrh. skuli leyfa sjer að bera fram slík rök, það er minkun. Þetta ber vott um sljóa hugsun, því hann mundi ekki tefla slíkum rökum fram, ef honum væri ljóst, hve óframbærileg þau eru.

„Nú verður að gera sjer grein fyrir, hvort Júpíter hefir verið sekur“, segir hæstv. ráðh. „Skipstjórinn er þaulkunnugur maður, hann er á veiðum um hábjartan dag og hefir hvorki breitt yfir nafn nje númer eins og togarar Ólafs Thors. Því hlýtur hann að hafa verið saklaus!“ — Menn sjá, hver er tilgangurinn með slíkri röksemdafærslu. Hæstv. ráðh. er að færa líkur fyrir, að hæstirjettur hafi dæmt Júpíter ranglega. Síðan heldur hann áfram: „Það var nú sök sjer með Þórarinn Olgeirsson; það vita allir, að þetta er gamall sökudólgur, og þess vegna skifti minna, þótt hann hafi ekki verið brotlegur í þetta skifti“.

Jeg vil nú upplýsa, að skipstjórinn á Tervani er alþektur landhelgislögbrjótur, en fortíð þessara skipstjóra beggja kemur málinu í sjálfu sjer ekkert við og er hreint aukaatriði, að öðru leyti en því að ef fyrri þrot eru sönnuð, valda þau þyngri refsingu fyrir þetta umrædda afbrot. En það sýnir best hugsunarhátt hæstv. dómsmrh., að hann skuli ætlast til þess, að hæstirjettur dæmi eftir almenningsálitinu. Honum finst aukaatriði, hvort sakborningur er sekur um það afbrot, sem hann er kærður fyrir og sem hæstirjettur á að dæma um. Hitt sýnist ráðh. skifta meiru, hvort „allir vita“ eitt eða annað um fortíð sakbornings. Þó að hæstv. ráðh. álíti, að sönnunargögn þau, er lágu fyrir í Tervani-málinu, væru til skammar fyrir þjóðina, sem vitaskuld er helber vitleysa, þá hefði það þó varið afsakanlegri leið fyrir hann, að láta fyrst dóm ganga um málið í hæstarjetti og náða svo skipstjórann á eftir. Vitanlega hefði mjer, ef jeg hefði verið dómsmrh., aldrei til hugar komið að fara náðunarleiðina, því jeg álít, að til þess hafi engin ástæða verið. En sú leið hefði þó verið miskaminni og betri en sú, er farin var.

Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., er hann heldur því fram, að hann hafi unnið landinu gagn með því að sleppa Tervani, vegna þess að málsskjölunum hefði þurft að leyna og hafi þetta því verið eina leiðin. Þetta er algerlega rangt. Hið óvænta er ávalt víðfrægast. Allir bjuggust við því, að Tervani yrði dæmdur, og varð því saga þessa máls miklu víðfrægari vegna þess, hve úrslit málsins komu mönnum á óvart. Og hafi eitthvað það verið í þessu máli, er leyna þurfti, hefir hæstv. dómsmrh. unnið landinu hið mesta ógagn með framkomu sinni. Þetta mun þó ekki stafa af illum hvötum hæstv. dómsmrh., heldur miklu fremur af dómgreindarakorti hans, sem ávalt skýtur upp höfðinu í hvaða máli sem er.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri ekki nema úrþvætti, er vildu halda vondum málum til streitu. Þetta má vel vera rjett, en jeg vil í þessu sambandi orða þetta svo, að það sjeu ekki nema úrþvætti, er ekki vilja halda góðum málum til streitu. Og hvor okkar er nú úrþvættið í þessu máli? Það veltur á því, hvort meira er virði, keypt hól um ráðh. eða rjettlæti og virðing hæstarjettar.

Jeg hafði þá farið nærri um það, að Englendingar mundu þakka fyrir þessa rausnarlegu gjöf, því hæstv. ráðh. las upp brjef, sem hann sagði, að væri frá Chamberlain utanríkisráðh. Breta, þar sem honum eru færðar þakkir fyrir þessa tugi þúsunda, er hann gaf hinum breska sökudólg. Hæstv. ráðh. ætti nú vitanlega eins vel og hver annar að vita, að þetta brjef er ekki frá Chamberlain. Gangur málsins hefir vitanlega verið sá, að skipstjóri hefir snúið sjer til útgerðarmanns síns og beðið hann að sjá um, að gjöfin væri þökkuð. Svo hefir útgerðarmaðurinn aftur snúið sjer til einhverrar undirtyllu eða skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, og til hans mun útgerðarmaðurinn þó varla hafa náð. En hæstv. ráðh. má ómögulega halda, að sjálfur Chamberlain hafi skrifað þetta brjef. Hann hefir alt annað að gera en að skifta sjer af svona smávægilegum atriðum. En það er formið, sem Bretar eru svo nákvæmir með að fylgja, sem veldur því, að brjefið hljóðar ef til vill svo: Mjer er fyrirskipað af utanríkisráðherranum að tilkynna yður — þetta og þetta. Það ber vott um óvenjumikinn og broslegan barnaskap hjá hæstv. ráðh., er hann heldur, að Chamberlain hafi sjálfur skrifað brjefið. Aðalatriði þessa er það, að hjer á hlut að máli kurteis þjóð, sem þakkar þær gjafir, er henni eru gefnar, og það því frekar, því óverðskuldaðri sem gjöfin er.

Allir hljóta að skilja það, að virði og álit erlendra þjóða á okkur byggist ekki á því, að ráðh. sá, er með völd fer í hvert skifti, taki fram fyrir hendurnar á hæstarjetti, því enginn ráðh. er óskeikull, en festa í rjettarfari og dómum er grundvöllur undir trausti og áliti á dómstólunum. Jeg geri nú ráð fyrir, að Bretar skilji þetta manna best og geri því þá kröfu, að slík mál og hjer um ræðir sjeu komin undir dómsvaldinu, en ekki framkvæmdarvaldinu. Það væri því ekki nema eðlilegt, að þeir mistu traust á þeirri þjóð, er ljeti það viðgangast, að ráðh. tæki svo fram fyrir hendur dómsvaldsins og hjer hefir átt sjer stað. Ofan á þetta bætist svo, að hæstv. ráðh. reynir að svívirða hæstarjett með því að leitast við að sanna, að hann hafi kveðið upp rangan dóm í Jupiter-málinu.

Jeg bar það á hæstv. ráðh. í minni fyrri ræðu, að hann sýndi óviðeigandi auðmýkt í garð útlendinga. Það hefir nú komið í ljós, að þetta var ekki að ástæðulausu sagt. Kom það berlega í ljós hjá hæstv. ráðh., er hann svaraði mjer og sagði, að það væri best fyrir ísl. músina að hafa hægt um sig, ef breska ljónið hristi sig. Þetta er aumur og ámátlegur sónn úr ráðherrabarka. Því meðan við höfum í öllu rjett fyrir okkur, fullyrði jeg, að íslenski drekinn þurfi ekki að vera smeykur við breska ljónið. En auðmýktarhugsunarháttur ráðh. kemur best í ljós af þessu dæmi, er hann tók um íslensku músina — jeg undirstrika að ráðherra sagði íslensku músina — og breska ljónið.

Jeg hafði borið upp fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hann liti svo á, að Tervani-málið væri utanríkismál. Hæstv. forsrh. hefir ekki enn, því miður, svarað þessari fyrirspurn minni, en hæstv. dómsmrh. hefir svarað henni á þá leið, að Tervani-málið væri ekki utanríkismál. En ef svo er, hvernig í ósköpunum gat málið þá verið hættulegt fyrir sjálfstæði landsins út á við. Mjer hefir nú reyndar skilist, að öll rök hæstv. dómsmrh. í þessu máli hafi miðað að því að sanna, að þetta væri utanríkismál. Jeg endurtek því fyrirspurn mína til hæstv. forsrh., hvernig hann líti á þetta mál og hvort hann hafi tekið ákvörðun um það, og ef svo er, hvers vegna það hafi ekki verið borið undir utanríkismálanefndina. Ef svör hæstv. forsrh. verða samhlj. áliti dómsmrh., þá vil jeg ennfremur leyfa mjer að spyrja hann að því, hvort hann ætli þá ekki líka að gefa Júpíter upp sakir og endurgreiða sektarfje hans. (Dómsmrh.: Íhaldið verður sjálft að grafa sína dauðu). Íhaldið er nú því miður ekki við völd í bili, og auk þess er það ráðh. en ekki íhaldið, sem telur Júpíter saklausan.

Varnir hæstv. dómsmrh. umfram bað. er jeg hefi nú talið voru hvorki margar nje veigamiklar. Hann var að tala um það, að ég væri á móti „ömmufrv.“ svokallaða. Með því hugðist ráðh. sanna, að jeg væri óheill í landvarnarmálinu, og því væri ekki mark takandi á ummælum mínum um Tervani. En jeg sje ekki, að það komi neitt þessu máli við, er hjer um ræðir. Hjer er að ræða um afstöðu hæstv. dómsmrh. til hæstarjettar. Hitt er svo aukaatriði og aðeins hending, að það er landhelgisbrot en ekki morð eða þjófnaður, sem skipstjórinn á Tervani var kærður fyrir. En fyrst minst er á hitt málið, skal jeg geta þess, að jeg gerði á þinginu í fyrra tilraun til þess að draga úr því frv., er þá lá fyrir, nokkrar helstu firrurnar og benti á, hve vanhugsað það væri og hve erfitt væri að klæða það holdi, svo að gagni mætti verða. Jeg benti á, að ekki dygði að láta það verða til þess að draga úr öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum til þess að bæta landhelgisgæsluna, og átti jeg þar við frv. um byggingu nýs strandvarnarskips, er hv., þm. Snæf. (HSteins) bar fram. En það sýnir best hin ljelegu rök hæstv. dómsmrh., að hann dregur algerlega óviðkomandi mál inn í umr., til þess að draga athyglina frá Tervani-málinu.

Jeg heyrði líka önnur rök hjá hæstv. ráðh., sem mig undrar, að hann skuli ekki hafa skilið, að eru gersamlega óframbærileg. En það er sagan um togarann, sem var að veiðum við Eldey og var kærður fyrir að hafa verið að veiðum í landhelgi, en sýknaður af fyrv. bæjarfógeta, Jóh. Jóhannessyni. Jeg fæ ekki skilið, hvernig hann ætlar að fara að líkja þessum tveim málum, Regulusar og Tervani, saman. Í Regulus-málinu er bað svo, að íslenska rjettvísin telur það ekki nægilega upplýst, að skipstjórinn sje sekur, en í Tervani-málinu er hæstirjettur í raun og veru búinn að kveða upp sektardóm. Er það bæði til smánar fyrir hæstv. ráðh. sjálfan og Alþingi, að slík rök sem þessi skuli vera borin fram af ráðh.

Þá ætla jeg að víkja örfáum orðum að öðrum þeim atriðum í ræðu hæstv. dómsmrh., er snerta hina fyrri ræðu mína. Jeg hafði bent á það, að þegar gengið var til kosninga síðast, var hæstv. dómsmrh. óspar á loforð. En jeg benti líka á það, að minna hefði orðið um efndir. Nefndi jeg meðal annars sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Því svaraði hæstv. ráðh. svo, að mjer ætti að vera það vitanlegt, að eins og Alþingi væri nú skipað, væri ekki hægt að leggja þetta embætti niður. Þetta átti að vera fullkomin syndakvittun fyrir hringsnúning hans í þessu máli. En jeg fæ ekki sjeð, að stj. hafi neina afsökun í þessu. Hún á vitanlega að fylgja sínum málum fram. Og geti hún það ekki, á hún að fara frá. En sje það aðaltilgangur hennar að hanga við völdin, en „stefnumálin“ algert aukaatriði, þá er þetta auðvitað nægileg afsökun fyrir hana.

Hæstv. dómsmrh. hefir einhverntíma sagt, að stjórnmálamenn bæri að dæma eftir því, hvernig þeir stæðu við loforð sín, er þeir væru komnir til valda. Þetta er rjett. En hvernig hagar hann sjer sjálfur? Jeg er hræddur um, að hann fengi ekki góðan dóm sem stjórnmálamaður, ef það ætti að dæma hann eftir þessum mælikvarða. Við skulum taka t. d. Spánarlegátann margumtalaða. Þar er því ekki til að dreifa, að vilji Alþingis sje á móti stj. En hvað skeður? Strax og staðan losnar, er skipað í hana aftur, og það með sömu launum og hæstv. dómsmrh. taldi áður svo óhæfilega há. Með hverju ætlar hann að afsaka sig í þessu?

Einnig hafði jeg sagt í minni fyrri ræðu, að hæstv. ráðh. hefði sýnt ómannúðlega framkomu gagnvart veikum mönnum. Átti jeg þar við afskifti hans af berklasjúklingum. Út af því sagði hæstv. ráðh., að jeg myndi þar meira tala af umhyggju fyrir læknunum en sjúklingunum. Mundi jeg vera að launa þeim fyrir einhver lyf, er þeir hjálpuðu mjer stundum um. Það getur vel verið, að vinátta hans til læknanna standi í sambandi við einhver róandi lyf; mín er af öðrum toga spunnin, enda hefi jeg ekki þurft að leita á náðir þeirra um hjálp í viðlögum. En það var ekki umhyggja mín fyrir læknunum, er lá til grundvallar því, að jeg taldi það óviðeigandi af hæstv. ráðh. að skipa þeim, sem eru svo óhamingjusamir að þurfa að leita sjer lækninga við berklaveiki, að leita til ákveðins læknis eða lækna, ef þeir vilji halda þeim styrk, er ríkið veitir til þessara sjúklinga. Rök mín í þessu eru þau, að hver sjúklingur leitar ávalt til þess læknis, er hann ber mest traust til. En það er oft svo, að mest veltur á því um lækningu sjúkdómsins, hvaða traust sjúklingurinn hefir á þeim lækni, er stundar hann. — En eins og allir vita, gaf hæstv. ráðh. út þá skipun, að allir berklaveikir sjúklingar, er ætluðu sjer að fá styrk úr ríkissjóði, yrðu að leita til ákveðinna lækna. Var hinn sjálfsagði rjettur sjúklinganna að kjósa sjer sjálfir lækni skertur með þessu. Sparnaðurinn af því fyrir ríkið var hinsvegar sama og enginn. Í mesta lagi 1500 kr. af þeim 700 þús., er greiddar eru af ríkisins hálfu í þessu skyni. Það er því broslegt, að nokkur skuli halda því fram, að þetta sje af sparnaðarástæðum gert, en væri þó afsakanlegt, ef ekki væri einmitt ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Þá þarf jeg að fara nokkrum orðum um ummæli hæstv. dómsmrh. í sambandi við tilvitnun sína í grein, er hann hefir sjálfur skrifað í Tímann 15. jan. síðastl. Á þessum fundi, er haldinn var á Akranesi í haust, voru um 500 manns, er heyrðu það, sem fram fór. Jeg var þar að ræða um árás hæstv. ráðh. á skipherrana á varðskipunum. Greip þá hæstv. ráðh. fram í fyrir mjer og sagði, að besta samkomulag væri milli sín og skipherranna. En jeg mótmælti því og sagði, að þeir mundu vera í hópi þeirra manna, er vildu hann pólitískt feigan. Þetta er sannanlegt, og jeg treysti mjer til þess að koma með hundruð vitna til þess að staðfesta, að þetta sje rjett. Það er meira en lítil óskammfeilni af hæstv. ráðh. að halda því fram, þvert ofan í vitund allra þeirra, er þarna voru viðstaddir, að jeg hafi sagt, að skipherrarnir væru í tölu þeirra manna, er vildu að hann væri drepinn. Þessu trúir vitanlega enginn heilvita maður. Að hæstv. ráðh. skuli halda þessu fram, ber þess greinilegan vott, að tilhneiging hæstv. ráðh. til að ófrægja aðra er blátt áfram sjúkdómur á honum. Og svo hælist hann um það, að hann skuli ekki hafa skipað skipherrunum að fara í mál við mig!! Mjer væri það sönn ánægja, ef hann vildi skipa þeim það, því þá mundi það sannast, hver hefði á rjettu að standa. En sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. kærir sig ekkert um, að hið sanna í þessu máli upplýsist. Hann veit, að með því að endurtaka þetta hvað eftir annað getur vel verið, að honum takist að telja einhverjum auðtrúa auðnuleysingjum trú um, að jeg hafi sagt þetta. En hvað sem því líður, ætla jeg að sjá um, að þetta festist ekki við mig mótmælalaust. Jeg endurtek svo áskorun mína til hæstv. ráðh. um að taka þessi orð sín aftur, eða þá að fá það vottfest, að jeg hafi sagt þetta. Að vísu er eðlilegt, að menn þori ekki að fullyrða, hvernig orðalag jeg viðhafði, en allir mundu hafa munað það, ef jeg hefði sagt, að skipherrarnir vildu láta drepa hæstv. dómsmrh. Slík orð eru sem betur fer svo sjaldgæf, að þau mundu öllum áheyrendum minnisstæð. Hjer í deildinni sitja ýmsir þeirra, er voru á Akranesfundinum, þar á meðal nokkrir flokksbræður ráðh. Skora jeg á ráðh. að færa fram eitt, aðeins eitt vitni fyrir þessum áburði hans. Geti hann það ekki, — og jeg veit að hann getur það ekki —, er ekki ofmælt, að framkoma hæstv. ráðh. í þessu máli er gersamlega ósæmileg og honum til mikillar minkunar.

Um leið og jeg skil við hæstv. ráðh. skal jeg játa, að jeg var nokkuð hvassyrtur við hann í minni fyrri ræðu, en jeg hefi gaman af að segja frá því, að jeg hefi ekki orðið var við neina andúð frá einum einasta framsóknarmanni fyrir það, heldur aðeins frá sócíalistum. Þeir voru þeir einu, er reiddust fyrir hans hönd, er jeg kvað upp hinn harða en rjettláta dóm yfir honum.

Það skal játað, að jeg álít, að menn eigi frekar að gæta sín fyrir því að ráðast hart að hæstv. dómsmrh. En það er ekki vegna þess, að hann eigi það ekki skilið, heldur vegna hins, að hann ver sig svo aumlega, að hann vekur meðaumkvun fólks á sjer. Áður fyrri var það venja, að hann óð fram fyrir skjöldu, hamaðist og beit í skjaldarrendurnar. En nú er hann orðinn eins og gamalt, karlægt og tannlaust kerlingarhró, er ekki getur bitið lengur.

Þá þarf jeg að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Ísaf. (HG) út af því, er hann sagði í gær. Hafði hann tekið sjer það fyrir hendur að mæla fyrir minni hreinskilninnar. En honum fórst það líkt og regluboða, sem snýr sjer undan og „snapsar“ sig, þegar hann er að prjedika bindindi. Hann talaði mjög fagurt um hreinskilnina, en var um leið að blóta hræsnina á laun. Meðal annars var hann að víta það, að jeg hefði talað með miklum fjálgleik um landhelgisgæsluna. Þetta hefi jeg nú reyndar ekki gert, en þó svo hefði verið, fæ jeg ekki sjeð, að það hefði verið nein dauðasök, þar sem jeg er umboðsmaður þeirra manna, er mest allra landsbúa eiga undir góðri landhelgisgæslu. Einnig kom það fram hjá hv. þm., og enda óbeinlínis hjá hæstv. dómsmrh., að mjer væri algerlega óheimilt að tala um þessi mál. Jeg ætti bara að skammast mín og þegja, ef þau væru nefnd. Ástæðan til þess var sú, að fyrir 5 eða 6 árum var einn af togurum Kveldúlfs staðinn að landhelgisveiðum og dæmdur fyrir brotið. Jeg gæti nú að vísu auðveldlega sannað sakleysi hans, ef jeg vildi beita sömu aðferð og hæstv. dómsmrh. notar og lesa upp vörn verjanda í málinu. En jeg sætti mig við dóminn og segi: skipstjórinn er sekur, úr því að hæstirjettur dæmdi hann. En jeg get ekki skilið, að þetta geti sett nokkurn blett á mig. Eins og mörgum mun kunnugt, er alger verkaskifting milli forstjóra stærri fjelaga eins og t. d. S. í. S., og svo hefir það verið í Kveldúlfi. Jeg hefi ekki komið nálægt stjórn togaranna undanfarin ár; það hafa aðrir gert. Jeg ætla þó ekki með þessu að fara að skjóta mjer undan áfellisdómi hæstv. dómsmrh., en vildi hinsvegar spyrja hann: Álítur hæstv. dómsmrh., að jeg sje samsekur eða hafi sannað samúð mína með landhelgisbrjótum með því að halda skipstjóranum áfram í stöðunni, og bæta þannig ekki atvinnumissi við 10 eða 12 þús. kr. sekt þessa manns, sem í áratug hafði unnið dyggilega í minni þjónustu, — unnið sig frá því að vera duglegur háseti upp í að vera duglegur skipstjóri? Álítur ráðh., að jeg hefði verið drengur að meiri, ef jeg við dóm hæstarjettar hefði bætt brottrekstri? (Dómsmrh.: Því mun jeg svara þegar hv. þm. er hættur við þennan reiðilestur sinn). Jeg veit það, að hæstv. dómsmrh. vill hafa næði til að svívirða mig, og því helst ekki svara fyr en jeg er „dauður“. Jeg vil því spyrja hann aftur að því sama. (Þögn). Vill hæstv. dómsmrh. ekki svara þessu? (Dómsmrh.: Jeg hefi svo mörgu að svara og mun gera því öllu skil á eftir). Úr því að hæstv. dómsmrh. vill ekki svara þessu, verð jeg að sætta mig við það, en þó skal jeg skýra málið dálítið fyrir honum.

Einn af mannkostum ráðh. er sá, að hann reynist sínum mönnum vel, það er að segja þeim, sem eru honum nógu undirgefnir. Sem dæmi þess gæti jeg skýrt frá því, að hann hefir keypt einn slíkan fylgifisk sinn undan lögunum og hossað honum síðan upp í vegtyllur. Nafn þessa manns vil jeg ekki nefna hjer í deildinni, en jeg gæti sagt það einhverjum flokksbróður ráðh., sem er þagmælskari en hæstv. dómsmrh. Jeg veit það, að hæstv. dómsmrh. er ekki svo gleyminn maður, að hann muni ekki eftir þessu, og þar sem hann breytir svo, er engin ástæða til fyrir hann að ásaka mig fyrir, að jeg skuli ekki hafa rekið skipstjórann, sem gerði sig sekan í þessu broti, eftir að hann var búinn að fá 10000–12000 kr. sekt. Þetta sýnir aðeins, að jeg læt mjer ekki farast illa við þá menn, sem hafa unnið hjá mjer. Jeg geri þeim ekki þau óhöpp þungbærari, er þeir verða fyrir, með því að hrekja þá burtu og svifta þá atvinnu. Þetta er það eina sinn, sem jeg hefi eytt tíma í að verja mig fyrir ásökunum hæstv. dómsmrh. í þessu máli, og hefir hann þó oft notað það mjer til vanvirðu. Jeg hefi ekki kært mig um að tína til mörg lögbrot skjólstæðinga hans, heldur hefi jeg aðeins nefnt eitt dæmi af mörgum, til að sýna fram á, að það er eins órjettmætt að núa mjer um nasir lögbroti skipstjórans á „Agli Skallagrímssyni“ og því, að jeg ljet þess óhefnt, eins og að ásaka hæstv. dómsmrh. fyrir gerðir þessa skjólstæðings hans, sem hann keypti undan hegningu.

Hv. þm. Ísaf. vildi líka gera sjer mat úr þessu, en honum hefi jeg svarað um leið og hæstv. dómsmrh., en mun nú taka ræðu hans til frekari athugunar. Það var enginn efi á því, að hjá honum fylgdi hugur máli, er hann talaði um íhaldið, og braut þá í engu í bág við lögmál hreinskilninnar; en þegar hann sneri máli sínu að hæstv. stj., fylgdi hann dyggilega vegum hræsninnar. Hann fann henni það helst til foráttu, að þegar hún horfðist í augu við stærri mál, gerðist hún undirleit og hopaði af hólmi, og nefndi þar sjerstaklega kjördæmaskipunina. Það er þó vitanlegt, að jafnaðarmenn vilja ekki breyta kjördæmaskipuninni; þar fylgir hugur ekki máli. Þeir vilja fara að eins og í fyrra og hrifsa kjördæmin af íhaldsbændum og fá sósialistum þau í hendur. Þeir vilja, að Framsókn og sósialistar til samans myndi meiri hl. og að sá maður, sem nú fyllir stöðu dómsmrh., geri það áfram. Þeir eru ánægðir og æskja einskis frekara en að þessir menn sitji áfram við völd, til þess að þeir geti haft þá að skálkaskjóli og haft foringja sinn, Jónas Jónsson, í fararbroddi.

Þá spurði hv. þm. Ísaf. hæstv. dómsmrh. að því, hvernig á því stæði, að hann væri ekki ennþá farinn að skipa sakamálsrannsókn á útsölumann olíuverslunarinnar á Seyðisfirði. En hann spurði til þess að ráðh. gæti svarað: Jeg hefi gert það. Þetta er hreinasti skrípaleikur, það sjá allir. Mjer er sem jeg sjái hv. þm. Ísaf., ef hv. 1. þm. Skagf. hefði verið dómsmrh. og t. d. jeg forstjóri áfengisverslunarinnar. Mjer er sem jeg heyri þrumurödd hans á eldhúsdegi, er hann helti sjer út yfir þessa svívirðingu, sem átt hefir sjer stað í vínversluninni. Það eitt væri ekki nóg, mundi þm. segja, að svíkja drykkjarföngin, heldur svikjum við líka peninga frá fátækum mæðrum og svöngum börnum. Jeg veit ekki, hve lengi jeg ætti að halda áfram, en við getum allir ímyndað okkur reiði hans og hávaða. En ná minnist þessi bindindisfrömuður ekki einu orði á vínfölsunina, sem þó var gerð beinlínis til þess að lokka vínhneigða menn með gómsætum drykk. Þetta sýnir best, hversu nátengd og einlæg er vináttan milli þessara tveggja manna og hvílíkur fyrirmyndar hræsnari hv. þm. Ísaf. er. Það orkar ekki tvímælis, að árásir þessa hv. þm. eru gerðar aðeins til þess að sýnast. Jeg hafði líka gaman að því að sjá hæstv. forsrh. standa upp og segja með blíðu brosi við þennan hv. þm.: „Já, það er nú svona: mjólkin verður ekki meiri úr kúnni, þótt skjólan sje stærri“. Þrumurödd en engin alvara. Reiðisvipur til að leyna gleðinni. Árás, ekki til að svala hefndarþorsta, heldur til að gjalda þakklætisskuld fyrir þegnar velgerðir. Það er þetta, sem hæstv. forsrh. meinti, og það var líka alveg viðeigandi svar og hæstv. forsrh. til sóma, þótt það væri máske nokkuð fljótfærnislegt. Það sýndi, að hv. þm. Ísaf. bar á sjer yfirskin hreinskilninnar, en blótaði hræsnina, og hinn góðlátlegi forsrh. skildi þetta til fulls. Hann veit vel — já, manna best —, að fylgi sósialista Hefir kostað mikið, og hann veit eins vel, að aðstaða þeirra getur ekki verið betri. Er það ekki skemtilegt að fá það af munni hæstv. forsrh., að árásir þessa manns sjeu ekki nema látalæti og geti ekki verið annað en látalæti? Vei yður, þjer hræsnarar.