15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurður Eggerz:

Mjer eru aðeins leyfðar 5 mínútur, og var þó mörgu að svara. Jeg vil fyrst leyfa mjer að þakka hæstv. forseta (BSv) fyrir hina sterku sjálfstæðisrödd hans, nú eins og jafnan áður í þessu máli. Hann vildi slá því föstu, að engin breyting gæti verið orðin á þingviljanum síðan í fyrra í þessu máli. En jeg hefi einmitt viljað fá fram yfirlýsingu um þetta efni. Og hve mikil nauðsyn var ekki á því. Dönsk blöð fluttu ummæli eftir forsrh. um, að hjer væri aðeins um endurskoðun að ræða, og þessum ummælum hefir ekki verið mótmælt af hans hálfu fyr en nú. Stjórnarblaðið Tíminn sagði, að aðeins væri um endurskoðun að ræða. Zahle dómsmálaráðherra sagði, að hjer heima væri einn maður með því að segja samningnum upp. Í sambandslaganefndinni segir okkar eiginn dómsmrh., að þetta mál sje ekki ofarlega á dagskrá. Þegar öll þessi ósköp dundu yfir oss, hve mikil nauðsyn var þá ekki að fá yfirlýsingu þingsins að nýju til þess að slá niður þessum villukenningum ?

Og jeg lít svo á, að nú sje búið að dauðrota þessar villukenningar. Og nú með þessum yfirlýsingum hjer er alt þetta slegið niður. Eitt af stórblöðum heimsins hefir beðið mig um upplýsingar um þetta mál, og er nú gott að geta náð í ýmislegt af því, sem hjer er fram komið. Sjálfur forsrh. hefir sagt, að hann hjeldi fast við yfirlýsingu sína frá í fyrra, svo dönsku blöðin hafa þá farið algerlega rangt með mál hans. Gott er að geta skýrt frá þessu. En mikil hrygðarmynd fanst mjer að sjá hæstv. dómsmrh., er jeg ræddi í djúpri alvöru þetta helgasta mál þjóðarinnar, að hann þá sjerstaklega skyldi nota þetta tækifæri til þess að hleypa á stað öllum fúkyrðum sínum.

Ummæli hæstv. dómsmrh. um það, að bankastjórar, sem skipaðir eru af íslenskri stj., sjeu danskir þjónar, eru í raun og veru ekki svara verð. Það mætti þá með sama rjetti segja, að hæstv. forsrh. sje danskur þjónn, af því að hann er formaður í bankaráði þessa sama banka. Annars virðist mjer lítið samræmi í orðum hæstv. dómsmrh., þegar hann annarsvegar víkur því að mjer, að jeg sje dansklundaður, en ákærir mig hinsvegar fyrir það að vera með árásir í garð Dana.

Í ummælum hans út af því, sem jeg sagði um „Fylla“, bólar á auðmýkt fyrir Dönum, sem lítið prýðir æðsta mann landsins. Sama lýsti sjer og í ummælum hans um sambandsmálið, er hann vildi halda því fram, að það væri ekki ofarlega í huga þjóðarinnar að segja upp samningnum.

Jeg þarf ekki að vera óánægður yfir því, hvernig þjóðin hefir litið á mína stefnu í stjórnmálum og læt mjer nægja að vísa til þess, að við síðustu kosningar sigraði jeg gegn tveimur stærstu flokkum í því kjördæmi, þar sem sjálfstæðiseldurinn hefir jafnan brunnið bjartastur. Um framkomu mína 1914 skal jeg ekki ræða hjer, en nokkuð leit hæstv. forseti (BSv) á hana öðruvísi en hæstv. dómsmrh., og læt jeg mjer það vel líka. Má vera, að þjóðin líti einnig nokkuð öðruvísi á hana en hæstv. dómsmrh.

Um „Fylla“ þarf jeg ekkert að segja frekar. Það hefir ekki verið hrakið, að hún lá hjer í höfn 87 daga. Þjóðin mun dæma um, hvort rögg komi fram í slíkri landhelgisvörn.

Hæstv. dómsmrh. endaði ræðu sína með því að tala um dýrlinga og bjóst við, að jeg yrði einskonar íhaldsdýrlingur. Hann má spá í friði fyrir mjer. En hitt er sannfæring mín, að haldi hæstv. dómsmrh. áfram á sömu braut, þá verði hann aldrei pólitískur dýrlingur í þessu landi. En það bendir margt til þess, að hann geti orðið dýrlingur annarsstaðar. Auðmýkt hæstv. ráðh. út á við, sbr. „Fylla“, og hrós það, sem danskir afturhaldsmenn bera á hann, bendir til, að hæstv. ráðh. sje á góðri leið til þess að verða danskur dýrlingur.

En hinu vildi jeg þó mega skjóta til hans, að það hefir farið svo um þá Íslendinga, sem orðið hafa danskir dýrlingar, að þeir hafa stundum orðið hjer heima að pólitískum skuggasveinum!