15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg mundi ekki hafa notað mjer þá aths., sem mjer er enn heimil hjer, ef hæstv. forsrh. hefði ekki gefið tilefni til þess, að jeg segði nokkur orð.

Það er með öllu rangt hjá hæstv. forsrh., að hv. 3. þm. Reykv. hafi orðið til þess að brjóta á bak aftur andstöðu íhaldsmanna gegn byggingar- og landnámssjóðnum. Engin slík andstaða hefir nokkru sinni verið í flokknum, en hann átti ásamt öðrum íhaldsmanni og Framsóknarfl. þátt í að endurbæta svo þetta frv., að hægt var að senda það frá þinginu sem lög. Hæstv. ráðh. segist vilja votta þessum hv. þm. þakkir sínar. Heyr á endemi! Hvaða blað var það nema „Tíminn“, blað hæstv. forsrh. sjálfs, sem á allar lundir hefir reynt að sverta og svívirða þennan hv. þm. með því að reyna að klína á hann ávirðingum fólks, sem honum var vandabundið? Hæstv. forsrh. hefði verið sæmilegra að taka í taumana þá. Þessi falsmæli hæstv. ráðh. eru enn viðbjóðslegri eftir það, sem á undan er gengið.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. dómsmrh. út af ummælum hans um misnotkun loftskeytatækja á þeim togara, sem jeg er framkvæmdarstjóri fyrir. Það er rjett, að leyfið var tekið af loftskeytamanni nokkra mánuði fyrir það að hann hafði sent skeyti til manns í landi. En þetta skeyti kom alls ekki útgerðinni við. Blaðið „Skutull“ bar á mig, að jeg ætti sök á þessu. Út af þeim ummælum blaðsins hefir því verið stefnt, bæði af mjer, formanni fjelagsstjórnarinnar og stöðvarstjóra B. Magnússyni. Dómur er fallinn í þessum málum og ummæli blaðsins dæmd dauð og ómerk og blaðið dæmt í sekt og greiðslu málskostnaðar. Það var á allra vitorði, að hvorki jeg nje fjelagsstjórnin var hið minsta við þessa skeytasendingu riðin.

Jeg nenni ekki að vera að eltast við þau ummæli hæstv. forsrh., að „Fylla“ hafi verið búin að ákveða að fara í Borgarnes mörgum mánuðum áður en hún fór þangað með hæstv. dómsmrh. og gesti hans. Var þá ekki „Óðinn“ búinn að ákveða þetta ferðalag líka? Það virðist svo, sem eitt skip hefði getað nægt, og sennilega er hæstv. dómsmrh. ekki svo illa kyntur hjá skipstjóranum á „Fyllu“, að hann hefði ekki fengið að fljóta með.

Út af ummælum hæstv. dómsmrh. um „hengingarólina“ og bókun þá, er jeg ljet bóka hjá rannsóknardómara í Hnífsdalsmálinu, skal jeg geta þess, að jeg mun gefa fullar ástæður fyrir þeirri bókun, þegar endanlegur dómur er fallinn í málinu.