17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

16. mál, fjárlög 1930

Bernharð Stefánsson:

Þó að hv. fjvn. hafi ekki viljað fallast á mínar brtt., sje jeg ekki ástæðu til að deila um þær við hv. frsm. Hann sagði, að það væri till. vegamálastjóra, að unnið yrði á þessu ári að Öxnadalsveginum fyrir 10 þús. kr. Ef þetta er rjett, þá fer n. ekki eftir þessari till., því eins og jeg gat um í fyrri ræðu minni, var greitt fyrirfram allmikið af þessu fje síðastl. haust. Það eru því engar 10 þús. kr. til til þess að vinna að Öxnadalsveginum á þessu ári. En með því að samþ. till. mína mætti bæta úr því. Hv. frsm. talaði um, að það mætti laga verstu kaflana fyrir afganginn. Þetta er misskilningur, eins og jeg hefi sýnt fram á. En ef til vill mætti taka til þess upphæð af því fje, sem ætlað er til viðhalds vega, og er það annað mál.

Það er rjett hjá hv. frsm., að vitamálastj. leggur á móti fjárveitingu til vitans á Selvíkurnefi, en hann mælir þó með, að þessi viti verði bygður. Að öðru leyti hrakti hv. frsm. ekki það, sem jeg sagði um þetta mál.

Út af XXIV. brtt. n. á þskj. 293 vil jeg segja það, að jeg hygg, að enn sje svo mikil óvissa um byggingu í Bakkaseli, að ef till. er bygð á fyrirhuguðum ráðstöfunum í þá átt, þá muni vera varhugavert að samþ. hana nú, og vil jeg ráða hv. deild frá því. Býst jeg við því, að hæstv. forsrh. sje mjer sammála um þetta.