19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Sigurðsson:

Ásamt hv. þm. Borgf. og hv. 3. þm. Reykv. á jeg brtt. á þskj. 345, sem jeg vildi leyfa mjer að minna á. — Eins og kunnugt er, lá fyrir Ed. frv. um raforkuveitur í sveitum utan kaupstaða, en það frv. fann ekki náð hjá stuðningsmönnum hæstv. stj. og var drepið. Þrátt fyrir það viljum við minnihl.mennirnir í fjvn. gera það, sem hægt er að gera til þess að greiða fyrir þessu nauðsynjamáli.

Í till. er farið fram á að veita 15000 kr. til að rannsaka og gera till. um raforkuveitur til almenningsþarfa utan kaupstaða.

Eins og kunnugt er, hafa undanfarin ár verið reistar allmargar rafstöðvar, flestar fyrir 1–2 heimili. Þessar smástöðvar hafa risið upp þar, sem svo hefir til hagað, að slíkt hefir verið unt, en venjulega þó án þess að rannsakað hafi verið, hvort ekki væri hagkvæmara að fá orkuna á annan hátt. Víða mun það svo, að ekki eru nema 1–2 bæir í hreppi, þar sem smástöðvum verður við komið, og verður afleiðingin sú, að mestur hluti sveitanna verður án raforku, ef notast á eingöngu við smástöðvar. Og því fleiri smástöðvar, sem reistar verða, því örðugra verður að koma á alm. samtökum til að hrinda stærri virkjun í framkvæmd. Það er því okkar álit, að almenn rannsókn þurfi að fara fram um það, hvaða ár verði hentugast að virkja í hverju hjeraði og hvernig leiðslum og öðru verði fyrir komið á ódýrastan hátt, meðal annars til þess að koma í veg fyrir, að hrapað verði að byggingu stöðvanna og skapa fastan grundvöll til framkvæmda. Þetta má ekki dragast lengur. T. d. er það mikilsvert, að gerðar sjeu vatnsrenslismælingar, en þær þarf að gera í mörg ár áður en tekið er til framkvæmda. Jeg skal geta þess, að við höfum hugsað okkur, að hjeruðin legðu eitthvað fram á móti, t. d. nauðsynlega aðstoð.

Jeg er sannfærður um það, að það verður eitt af hlutverkum þessarar kynslóðar og hinnar næstu, að leiða rafmagn inn í allar hinar fjölbygðari sveitir landsins. Um þörfina þarf ekki að ræða. Öllum ætti að vera ljóst, hvaða þýðingu það hefir fyrir sveitirnar að fá nægilegt rafmagn til suðu, ljósa og hitunar. Það er svo augljóst mál, að um það þarf ekki mörg orð. M. a. er mjög kvartað yfir örðugleikunum á að fá innistúlkur í sveitum; þar er nú svo komið, að víða á bæjum er húsfreyjan orðin ein síns liðs. Jeg hygg, að fátt muni ljetta húsfreyjunni störfin betur en rafmagnið. Og ekki gæti það síður orðið til nytsemdar utanbæjar, því það má eins og kunnugt er nota til margvíslegrar vinnu, sem nú verður að kaupa dýrum dómum og fæst oft og einatt ekki eða verður ekki unnin fyr en í ótíma vegna mannfæðar.

Við flm. hreyfðum till. þessari lauslega í fjvn. og n. í heild treystist ekki að taka afstöðu til hennar. Nú hefir meiri hl. n. óskað, að við tækjum till. aftur til 3. umr., og höfum við ákveðið að gera það, í von um, að samkomulag náist um hana í n.