26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

16. mál, fjárlög 1930

Benedikt Sveinsson:

Jeg hafði ætlað mjer að tala fyrst nokkrum orðum til form. samgmn., en þar sem hann er ekki viðstaddur, sný jeg mjer að öðrum till.

Vil jeg þá fyrst snúa mjer að 1. till. á þskj. 408, sem jeg flyt ásamt tveim öðrum hv. þm. Hún er um 5000 kr. fjárveitingu til að gefa út það, sem ókomið er út af manntalinu frá 1703.

Þessu máli er svo farið, að fróðleiksmaður einn íslenskur fann í dönsku skjalasafni manntal frá 1703, sem nær yfir mestalt landið. Þetta manntal er einstakt í sinni röð á þessum tíma, því að þar eru allir menn nafngreindir á hverju heimili og greint frá stöðu þeirra, heimilisfangi, aldri, heilsufari o. fl. Frá er greint, hverjir ómagar og förumenn eru í hverjum hreppi og hvaðan þeir eru.

Þessi bók hefir verið gefin út í 5–6 smáheftum og ná þau yfir Gullbringu- og Kjósarsýslu til Ísafjarðardjúps. Þeir, sem lesið hafa þessi hefti, munu hafa sjeð, hve merkilegt þetta manntal er, eigi eingöngu vegna þess, að það mun vera elsta manntal í heimi, þar sem hver einstaklingur er nafngreindur, heldur og vegna hins mikla ættfræðilega og hagfræðilega fróðleiks, sem þar er að finna. Hjer er um sannan fjársjóð að ræða í þeim efnum, enda hefir Alþingi og stj. viðurkent gildi þessarar heimildar með því að styrkja útgáfu hefta þeirra, sem út eru komin. En slík aðferð, sem höfð hefir verið við útgáfuna, er bæði seinfær og óhentug. Hætt er við, að einstök hefti týnist, og auk þess kaupa menn síður þá bók, sem þeir búast ekki við að sjá fyrir endann á í lifanda lífi. Því teljum vjer rjett, að veittar sjeu til útgáfunnar 5000 kr. í eitt skifti fyrir öll. Fæst þá ritið í heild. Verður verkið þá ódýrra í hefting og útsending og kemur að fljótari og betri notum. Hjer er því að ræða um sparnað og greiða við íslenska fræðimenn.

Hv. 1. þm. N.-M. hefir svo vel rökstutt brtt. okkar um styrki til afskektra bygða í Fjallahreppi og Jökuldalshreppi til þess að leita læknishjálpar, að jeg þarf þar engu við að bæta.

Vjer þrír þm., sem bárum fram till. um styrk til Friðriks pósts á Helgastöðum, urðum fyrir þeim vonbrigðum við 2. umr., að sú brtt. náði ekki fram að ganga. Jeg sýndi fram á við 2. umr. málsins, hve sjálfsögð þessi styrkveiting væri, og tel jeg ekki ástæðu til að endurtaka það. Nú höfum við lækkað þessa styrkbeiðni nokkuð og treystum á drengskap hv. þdm. þegar til atkvgr. kemur. Verður að gæta þess, að þessi maður ljet ekki af starfa sínum sökum vanrækslu, heldur vegna breyt. á póstgöngunum innan hjeraðsins, því að ella hefði hann getað setið á hestbaki áfram þrátt fyrir vanheilsu hans af völdum ofreynslu í póstferðum.

Þá sný jeg mjer að XI. brtt., sem er svo hljóðandi: „Við 13. gr. B. II,a 14. Nýr liður: Vegur frá Þórshöfn inn Þistilfjörð, 15000 kr. Fjvn. hefir ekki látið til sín heyra um þessa till. og hvorki mælt með nje móti. Allir kaupstaðir norðanlands, nema Þórshöfn, hafa nú fengið akfæran veg á þjóðveginn, sem liggur um landið frá austri til vesturs. Frá Borðeyri er nú akvegur til Borgarness og bílfært til Akureyrar. Næstur er Hvammstangi og þaðan liggur akbraut fyrir Múla á þjóðveginn. Þá kemur Blönduós og þar liggur þjóðvegurinn um. Er hann akfær óslitið upp Langadal yfir Vatnsskarð og um Skagafjörð yfir brú á hjeraðsvötnum, norður um Öxnadalsheiði og niður Öxnadal til Akureyrar. Þessi vegur er nú bílfær að sumrinu. Þar að auki er bílfær akvegur frá Sauðárkróki inn allan Skagafjörð, vestan hjeraðsvatna; jeg veit ekki, hvað langt inn til dala. Og mjer er nær að halda, að einnig sje bílfær vegur niður Blönduhlíðina austan hjeraðsvatna yfir Hegranesið til Sauðárkróks. Frá Akureyri eru góðir akvegir í allar áttir, eins og kunnugt er, inn Eyjafjarðardal og út með firði að vestan og hliðarálmur inn í Öxnadal og Hörgárdal: ennfremur til austurs yfir Vaðlaheiði í Fnjóskadal. Sá vegur er nú kominn mikið áleiðis.

Frá Húsavík liggur bílfær akvegur upp alla dali, Aðaldal, Reykjadal og upp fyrir Másvatn; er nú við hann bætt á hverju ári, svo að í sumar má telja vel bílfært upp að Mývatni. Norður frá Húsavík er og akvegur út á Tjörnes að Hjeðinshöfða.

Frá Kópaskeri er nú orðinn 80 km. akfær vegur inn Öxarfjörð og yfir Jökulsárbrú niður í Kelduhverfi, og einnig á hina sveitina, alllangt norður á Sljettu.

Eina hjeraðið, sem hefir orðið útundan með þessa vegi, er Þistilfjörður og Langanes. Að vestan er Þistilfjörður fráskilinn af Öxarfjarðarheiði, og jeg fer ekki fram á, að fje sje veitt til vegar yfir hana að svo stöddu, þótt leiðin sje talin til þjóðvega. En mjer þykir hart, ef þessu hjeraði verður sýndur sá ójöfnuður, að það fær eigi fje til lagfæringar á vegum eins og öll önnur hjeruð. Jeg hefi nú sýnt það og sannað, að frá öllum öðrum verslunarstöðum á Norðurlandi eru lagðir akvegir á aðalþjóðveginn; en frá Þórshöfn er veglaust inn í sveitirnar, og um ekkert akvegasamband að ræða í þessum hluta sýslunnar. Er þó um lögskipaðan þjóðveg að ræða. Hjer á og hlut að máli ágæt sveit fyrir landkosta sakir, þótt fremur sje fámenn og fátækt sje ofmjög ríkjandi, sem mjög stafar af örðugum samgöngum.

Hv. vegamálastjóri hefir tekið á starfsskrá vegamálanna næsta ár brú á Hafralónsá, sem er mikið vatnsfall, er fellur út í Þistilfjarðarbotn austanverðan. Frá Þórshöfn munu vera um 8 km. að þessari væntanlegu brú, og á alllöngum kafla af þessari vegalengd er gömul braut hlaðin, sem vegamálastjóri telur til mikils sparnaðar. Væri mjög mikilsvert, að þessi leið, frá Þórshöfn að brúarstæðinu, yrði gerð fær bifreiðum þegar í sumar, meðal annars til þess að ljetta flutning á brúarefninu að sumri, því að þá yrði sá flutningur bæði langtum fljótlegri og jafnframt kostnaðarminni. Þegar brúin er komin á Hafralónsá, þá getur orðið fær og greiður bílvegur um sveitina, aðeins ef gert væri við hann á köflum fyrir nokkrar þús. króna. Á stórum köflum eru vegirnir að heita má sjálfgeiðir, þurrir og torfærulausir. Sveitin er láglend og sljett, með lágum hálsum, en greind sundur af ám, sem oft eru illar yfirferðar. Af því að hin væntanlega brú á Hafralónsá verður nokkuð úr leið, þá þarf að gera vegarspotta að henni á tvo vegu. Á hinn bóginn liggur langur melhryggur á alllöngum kafla um sveitina þvera, og er hann sjálfgerður vegur fyrir bíla. Jeg vænti þess fastlega, að þetta eina hjerað á Norðurlandi, sem hefir orðið á hakanum, eins og jeg hefi lýst, verði ekki látið bíða lengur eftir fjárframlagi, sem nægir til þess að það megi hagnýta sjer þær leiðir, sem sjálfgerðar eru til akvegar af náttúrunnar hendi.

Það þóttu öfgar hjer á Alþingi, þegar jeg lýsti þörf fyrir brúarbyggingu á Brunná og skýrði frá, að nota mætti bifreiðir víðsvegar um Öxarfjörð og Kelduhverfi þegar er áin væri brúuð. En sannleikurinn er sá, að síðan brúin var bygð, er mjög mikið farið að flytja á bílum um þessar sveitir. Nú geta bændur fengið vörur sínar úr kaupstað á einni morgunstund heim í hlað, þar sem áður voru klakkaflutningar, er tóku einn eða tvo daga fram og aftur. Hafa þessar bifreiðaferðir þegar á einu ári valdið því, að hrossum hefir verið fækkað til muna og allar samgöngur gerbreytst í þessum bygðum til stórhagsmuna og þæginda bændum. Sama verður uppi á teningnum austan heiðarinnar, þegar Hafralónsá er brúuð og vegurinn lagfærður, eins og jeg áður sagði. Þeir, sem lesið hafa ritgerð Hannesar Finnssonar biskups í Lærdómslistafjelagsritunum um mannfækkun af hallærum á Íslandi, muna, að þar er svo frá skýrt, að hallæri hafi oftast byrjað á norðausturhorni landsins. Harðindi, siglingaleysi og verslunaráþján hafa þar mætt mest á fyrr og síðar — fækkað fólkinu og lagt sveitirnar meira og minna í auðn; en sá stofn, sem stóð af sjer þessar raunir, býr að þeirri seigju, sem harðindin hafa skapað. Það fólk, sem í afskektustu bygðum þessa lands lifði af verslunaráþján Dana og harðindaárin, er hraustasta úrvalið. En slíkar kynbætur eru dýrkeyptar.

Það er því sannarlega tími til kominn, að gangskör sje að því ger að bæta hag þessara bygða, og þar sem þær eru alls eina hjeraðið á öllu Norðurlandi, sem ekki hefir fengið vagnfæran veg í sambandi við kauptún sitt, þá er engin sanngirni að láta svo standa lengur. Vænti jeg, að hv. deild líti á þessa rjettlátu kröfu eftir málavöxtum.