08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Hv. 6 landsk. fann ástæðu til þess að ganga fram fyrir skjöldu og leggjast fast á móti brtt. hv. 4. landsk. og minni, um fjárframlag til Fjarðarheiðarbrautar innar. Var það dálítið einkennilegt að hann, sem mjer vitanlega hefir aldrei í Austfirðingafjórðung komið, og er því þar allra deildarmanna ókunnugastur, skyldi verða til þessa enda bar ræða hans vott um ókunnugleika hans.

Hann vildi telja hv. deild trú um það, að það væri til engra eða lítilla hagsbóta fyrir Hjeraðsbúa að fá akbraut yfir Fjarðarheiði, þar sem þeir hefðu Fagradalsbrautina, og heldur auðsjáanlega, að hv. þdm. leggi meira upp úr skoðunum hans en yfirlýstum vilja Hjeraðsbúa sjálfra.

Hvers vegna heldur hv. þm., að sýslufundur Norðmýlinga hafi bæði í fyrra og í ár skorað á þing og stj. að veita ríflega upphæð til þessa vegar og á þm. kjördæmisins að beitast fyrir málinu, ef sýslunefndarmennirnir hefðu ekki þá trú, að vegurinn verði til mikilla hagsbóta fyrir Hjeraðið? Og hvers vegna heldur hann, að þingmálafundurinn á Kirkjubæ og hinir 74 alþingiskjósendur í Fellahreppi, sem sendu samskonar áskoranir til þingsins og þingmanna sinna, hafi gert hið sama? Heldur hann, að þeir hafi gert þetta til þess eins, að ríkissjóður greiddi út fje til vegar, sem ekki kæmi þeim að notum? Eða heldur hann, að þeir hafi gert þetta af einhverri umhyggju fyrir Seyðisfjarðarkaupstað? Og heldur hann, að hann sje bærari um að kveða á um, hvað Hjeraðsbúum megi að gagni koma, heldur en Hjeraðsbúar sjálfir? Ef svo er, þá skjátlast hv. þm.

Jeg sýndi fram á það í fyrri ræðu minni, hver munur væri á Seyðisfirði og Búðareyri við Reyðarfjörð og hvers vegna það væri Hjeraðsbúum vel flestum nauðsynlegt, að þeir fengju akvegarsamband við Seyðisfjörð, og hrakti hv. þm. ekkert af því, sem jeg sagði um það.

Það er rjett, að kaupfjelag Hjeraðsbúa hefir bækistöð sína á Reyðarfirði og er vel stætt, og tveir eða þrír smákaupmenn, er þrífast þar vel í skjóli hins háa verðlags hjá því. En margir Hjeraðsbúar vilja einnig, og telja sjer mikinn hag í því, geta sætt hinum miklu lægri prísum á Seyðisfirði, á öðru en smávarningi, sem reiddur verður í hnakktöskum, og er það ein af ástæðunum til þess, að þeir telja sjer nauðsynlegt að fá akbraut yfir Fjarðarheiði.

Þá sagði hv. 6. landsk., að vegarstæðið á Fjarðarheiði lægi svo hátt, að vegurinn mundi verða undir snjó nema 1–2 mánuði á sumrin.

Til þess að hnekkja þessari staðhæfingu vil jeg leyfa mjer að lesa upp álit Eðvalds pósts Eyjólfssonar, sem jeg nefndi í fyrri ræðu minni, á þessu atriði, og er þetta álit póstsins birt í „greinargerð“ nefndar þeirrar, er jeg og nefndi í fyrri ræðu minni. Ummæli póstsins, sem farið hafði yfir 1200 sinnum yfir Fjarðarheiði á öllum tímum árs, eru á þessa leið — með leyfi hæstv. forseta:

„Hann leyfði að hafa það eftir sjer, að hann væri sannfærður um, að ef akvegurinn hefði verið kominn eins og honum er ætlað að liggja, þá hefði Fjarðarheiði verið akfær fulla sex mán. síðasta ár, frá því nokkru eftir miðjan júní, að undanteknu því, að síðustu dagana í október, þegar mest snjóaði, hefði ef til vill þurft að hjálpa bifreiðum með frá mokstri örstuttan spöl í Neðri- Stafnum Seyðisfjarðarmegin, og þó ekki víst, þegar um upphlaðinn veg hefði verið að ræða, nema að snjóinn hefði skafið af brautinni. Hann kom úr síðustu póstferð á árinu 24. des. síðastl. og fullyrti, að þá hefði mátt fara í bifreiðum hiklaust yfir heiðina, ef hinn fyrirhugaði akvegur hefði verið kominn. Þessa umsögn E. E. hafa og aðrir stutt, bæði pósturinn, sem gengur til Vopnafjarðar hjeðan, og ennfremur fjöldi Hjeraðsmanna, sem yfir heiðina fóru framan af vetri. Var vanaviðkvæði þeirra: „Bara að akvegurinn hefði nú verið kominn“.“

Þá vildi hv. 6. landsk. halda því fram, að vegamálastjóri áliti, að ekki ætti að byrja á Fjarðarheiðarbrautinni fyrri en einhverntíma í framtíðinni, en mjer finst það ekki koma vel heim við ummæli vegamálastjóra í brjefi til fjvn. Nd., dags. 17. febr. 1928, því þar farast honum svo orð:

„Enda þótt fjárveitingar til vegamála sjeu nokkuð miklar, þá hefi jeg engan veginn sjeð mjer fært að leggja það til, að byrjað verði á veginum yfir Fjarðarheiði á næsta ári“, þ. e. árinu sem nú er að líða.

Þetta væri mjög undarlega að orði komist, ef það væri skoðun vegamálastjóra, að byrjun akvegarlagningar yfir Fjarðarheiði ætti að dragast mörg ár ennþá.

Jeg leyfi mjer að vísa til fyrri ræðu minnar og að vænta þess, að hv. d. samþ. brtt. okkar hv. 4. landsk. á þskj. 562.

Jeg finn ekki ástæðu til að svara ræðu hv. frsm. fjvn. um þetta mál. Þar sem við erum sammála um aðalatriðið, að fjárveitingin eigi fram að ganga, væri óviðeigandi, að við færum að karpa um aukaatriði.