13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

16. mál, fjárlög 1930

Forseti (GÓ):

Þá er umr. lokið. Út af því, sem hv. 3. landsk. sagði í fyrri ræðu sinni í dag um prentsmiðjukaupin, og út af þeim ummælum hans, að forseta bæri að vísa slíkri till. frá, vegna þess að hún kæmi í bága við stjskr., þá skal jeg taka það fram, að enda þótt skilja megi 37. og 38. gr. stjskr. þannig bókstaflega, þá hefir sá skilningur aldrei verið viðhafður við afgreiðslu fjárl. (JÞ: Það var hæstv. dómsmrh., sem ljet sjer þessi orð um munn fara, en alls ekki jeg). Jeg gat ekki ráðið annað af orðum hv. þm. (JÞ: Jeg sagði, að till. færi út yfir þessi fjárlög). Já, þá hefi jeg tekið rjett eftir. Hv. þm. heldur því þannig fram, að í fjárlögin megi einungis taka þau útgjöld, sem lúkast eiga á því fjárlagaári, og að forseta beri að vísa öllum tillögum um önnur útgjöld frá. En jeg skal benda hv. þm. á, að stjskr. hefir ennþá ekki verið túlkuð svo strangt, enda væri slíkt vart framkvæmanlegt. Jeg þykist því hvorki brjóta þingsköp nje þingvenjur með því að taka till. þessa til greina og leyfa, að hún komi til atkv. Hv. þdm. er það fullkunnugt, að hjer er um ekkert einsdæmi að ræða. Í hvert skifti, sem veitt er í fjárl. fje til byggingar spítala, skóla, hafnarmannvirkja og fleiri þvílíkra framkvæmda, er beinlínis gert ráð fyrir framhaldandi fjárveiting. Sama er að segja um margt það, sem nú hefir verið tekið upp í fjárlagafrv., svo sem heimild stj. til þess að kaupa hverajarðir í Ölfusi o. fl. Það er næsta erfitt að draga glöggar merkjalínur milli þess, hvort fjárveiting lúkist á því ári eða ekki. Hinsvegar get jeg verið hv. 3. landsk. fyllilega sammála um það, að skemtilegast væri, að þegar um meiri háttar fjárveitingar er að ræða, þá sjeu þær teknar upp í sjerstök lög í hvert skifti. En slíkt hefir alls ekki tíðkast í seinni tíð. Að þessu athuguðu get jeg með engu móti aðhylst þá skoðun hv. þm., að hjer sje um brot á stjskr. að ræða, þótt till. þessari verði ekki vísað frá. Jeg úrskurða því hjer með, að till. þessi skuli koma til atkv.