17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mjer kom það dálítið á óvart, að það skyldu verða svo miklar umr. um þetta fjárlagafrv., þar sem engar brtt. lágu fyrir. Það hefir verið minst á það, að eiginlega væri sjálfsagt að tala um fjárlög, þó að allir væru sammála um afgreiðsluna og engin brtt. lægi fyrir. Jeg sje nú í rauninni ekki, að það gildi önnur regla um fjárlagafrv. en önnur frv., að þegar allir eru sammála um það, sem á að gera (IHB: Uss!), þá sjeu allar ræður óþarfar. Það er vitanlega altaf svo, að þegar um afgr. bæði fjárlagafrv. og flestra annara frv. er að ræða, að það eru ekki allir ánægðir. Sitt hefir hver að kæra. En það mætti æra óstöðugan, ef allir ættu að verða ánægðir af eintómum ræðum.

Annars vildi jeg með örfáum orðum svara fyrirspurninni, sem mjer virtist hv. 4. landsk. beina að stj. út af kaupgjaldi, sem greitt kynni að verða við opinberar framkvæmdir, eða sjerstaklega vegagerð ríkissjóðs. Þetta atriði heyrir vitanlega undir hæstv. atvmrh., sem ekki getur verið hjer viðstaddur sakir veikinda. Þess vegna get jeg ekki sagt neitt um það annað en mitt álit.

Mjer skildist hv. þm. vilja láta leita samninga um kaupgjald við verkalýðsfjelög þau, sem væru á þeim stöðum, þar sem verkin ætti að framkvæma. Nú held jeg, að standi svo á víðast á landinu um vegagerðir, að þær eru annaðhvort uppi til fjalla eða frammi um sveitir, þar sem ekki eru verkalýðsfjelög starfandi á því svæði, sem um er að ræða. Jeg veit til þess, að það eru ýmsir sveitamenn, sem tínast í þessa vegagerð lengri eða skemri tíma. Þessir menn eru ekki í neinu sambandi við neitt verkalýðsfjelag, og jeg efast um, að þeir kæri sig um að binda þannig sína samninga, sem þeir gera við verkstjórana um kaupgjald.

Jeg verð nú að segja, að jeg lít svo á, að ríkissjóður verði að haga þessu líkt og gerist og gengur um einstaka menn og fyrirtæki, sem þurfa að kaupa vinnu, að hann sem sagt reyni að komast að þeim kjörum, sem algengust eru við vinnu á þeim stöðum og þeim tíma, sem vinnan fer fram. Þetta segi jeg sem mína persónulegu skoðun, án þess að það komi til minna kasta um það að ráða því, hvort samningar verði gerðir eða ekki við einstök fjelög um kaup við hinar opinberu framkvæmdir ríkissjóðs.