29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (1016)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Haraldur Guðmundsson:

Hér er um stórmál að ræða og eitt mesta menningar- og hagsmunamál þessarar þjóðar. Um það eru allir sammála. Mönnum er það almennt ljóst, að ef takast má að veita raforku út um byggðir landsins og selja við ódýru verði í sambandi við aðra orkugjafa, þá er með því stigið eitthvert stærsta sporið til þess að gera landið byggilegra og vistlegra en það er nú, til þess að opna auðlindir þess og gera fólkinu auðveldara að hagnýta sér gæði þess í jörðu og á.

Sjálfsagt vildu alþm. allir og aðrir góðir menn helzt geta séð svo um, að hægt væri að leiða nóg og ódýrt rafmagn heim í hvert einasta hús og bæjarblað á öllu landinu. — Um það þarf ekki að efast.

Umr. í hlöðunum undanfarið og hér í hv. d .i dag hafa mest snúizt um það, hvort smávirkjun eða stórvirkjun sé heppilegri til að koma þessu máli í framkvæmd.

Málið hefir verið rætt eins og um tvær höfuðleiðir væri að ræða til að fullnægja raforkuþörf almennings í landinu: Annað hvort verði að reisa eingöngu stórar, dýrar og aflmiklar stöðvar og veita orkunni frá þeim yfir stór héruð um langar leiðslur, eða reisa aðallega smástöðvar, sem nægi einum bæ eða fáum hver. Hvorug þessi leið er einhlít, að því er mér virðist. Hér er ekki um að ræða annaðhvort eða, heldur hvorttveggja. Það hlýtur að fara mjög eftir staðháttum einstakra landshluta, hvort af þessu tvennu á við. Þar sem byggð er strjál, er veitukostnaðurinn, leiðslurnar frá stórstöðinni, að sjálfsögðu mestur hluti kostnaðarins. Þar geta smástöðvar því komið til greina. Hinsvegar verður stöðin og virkjunin sjálf meginhluti stofnkostnaðarins í þéttbýlli sveitum og bæjum, en veitukostnaður verður þar tiltölulega langtum minni. Þar eiga stórstöðvar við, ef hentug fallvötn eru þar til.

Hæstv. núv. stj. og hennar flokkur vilja leggja mjög kapp á að styðja einstaka menn til þess að koma sér upp smástöðvum fyrir heimili sín.

Víst er það eðlilegt, að menn fýsi mjög að fá rafmagn, og að stj. vilji styðja þá viðleitni. En mikinn varhug verður að gjalda við því, að eigi sé gert meira ógagn en gagn með byggingu slíkra smástöðva.

Með því að byggja smástöðvar úti um sveitir landsins, þar sem skilyrði eru fyrir stórvirkjun, er dregið úr möguleikunum fyrir því, að stóru stöðvarnar komist upp og geti borið sig fjárhagslega. Það er reginháski, ef slíku er haldið áfram.

Hitt er engu minni fásinna, að ætla sér að bíða eftir því, að bætt verði úr raforkuþörf strjálbýlustu sveitahéraðanna með byggingu stórstöðva. Þar er hyggilegast og sjálfsagt að hjálpa einstaklingum til að koma upp smástöðvum til eigin nota.

Það, sem því fyrst þarf að gera í þessu máli, er að láta fram fara ítarlega rannsókn á því, hvar stórstöðvar eigi við og hvar smástöðvar henti bezt. Þegar þessi heildarrannsókn hefir verið framkvæmd, ætti að banna einstaklingum að byggja smástöðvar á þeim svæðum eða í þeim byggðarlögum, þar sem skilyrði eru svo góð fyrir stórvirkjun: hentugt fallvatn, þéttbýli og nægilegt verkefni fyrir rafmagnið, að sýnt þyki, að stórstöðvar séu hagkvæmari. Stórar stöðvar verða yfirleitt margfalt ódýrari að tiltölu og bæta samtímis úr þörf flestra manna, og því ber fyrst og fremst að athuga, hvar þeim verður upp komið.

Ég hlustaði á ræðu hv. 1. flm. og vil í því sambandi segja, að mér virðist þetta mál miklu stærra en útlit er fyrir, að honum og hv. meðflm. hans sé ljóst. Hv. þm. talaði um ljósaþörf sveitanna og rafmagn til suðu (JS: Ég talaði líka um vinnuþörf sveitanna), og skal ég fúslega viðurkenna, að þessar þarfir eru mjög aðkallandi. En hitt er þó aðalatriðið, að þar, sem rafmagnið er tekið til notkunar, fá sveitirnar nýjan vinnukraft, nýja orku, sem beita má til margháttaðrar starfsemi í þarfir framleiðslunnar í landinu.

Hver maður sér, að það getur ekki borgað sig að leggja langar leiðslur, ef til vill fjölmarga kílómetra, heim að bæ, þar sem 4–6 manneskjur eiga heima og reisa þar spennubreytistöð, ef rafmagnið á svo ekki að nota til annars en ljósa og suðu og e. t. v. lítillega til hitunar fyrir þessar fáu manneskjur. Rafmagnið hlýtur að verða allt of dýrt. Eigi slíkt að geta borgað sig, verður bóndinn að hafa eitthvað annað og meira með rafmagnið að gera. Einmitt í sambandi við þetta mál þarf að rannsaka, að hve miklu leyti bændur og kaupstaðabúar geta notað rafmagnið til vinnu. Tel ég fulla ástæðu til þess, að stj. setti á laggirnar nefnd — ég veit að vísu, að orðið nefnd lætur illa í eyrum sumra hv. dm. — til þess að athuga, hverjar breyt. það gæti haft í för með sér í búnaðarháttum Íslendinga, ef rafmagnsmálið yrði leyst þannig, að landsbúar yfirleitt ættu kost á nægu og ódýru rafmagni.

Enn er eitt. Það liggur í augum uppi, að þegar á að fara að leggja rafmagnsleiðslur víða um sveitir landsins, veltur mikið á því, að nýbyggingar séu skipulega reistar og öllu svo haganlega fyrir komið, að leiðslurnar verði sem beinastar og styztar. Er þar tilvalið verkefni til athugunar og meðferðar fyrir einskonar skipulagsnefndir í sveitum. Ættu þær þá jafnframt að hafa hliðsjón af vegalagningum og öðru slíku.

Hv. flm. drap réttilega á það, að á áætlunum væri lítið að byggja, einkum í málum eins og þessu, þar sem framkvæmdirnar geta náð yfir heilan mannsaldur, eða jafnvel ennþá lengri tíma, að því, er hann sagði. Ég er hv. flm. sammála um þetta atriði. Ég hefi enga trú á því, að verkfræðingar, hversu lærðir og ágætir sem þeir kunna að vera, semji áætlanir, sem geti staðizt heilan mannsaldur eða lengur. Hinsvegar veit ég þess engin dæmi, að í máli, sem er jafnstórkostlegt fjárhagsmál og þetta, sé engin viðleitni sýnd til þess að gera grein fyrir kostnaðinum, kostnaði, sem hlýtur að verða risavaxinn á okkar mælikvarða.

Um þann hluta kostnaðarins, sem ræðir um í 5. gr. frv. og ríkissjóði er ætlað að greiða, skal ég taka það fram, að ég álít, að ríkissjóði verði ekki um megn að taka á sig allmiklar greiðslur eða skuldbindingar í þessu skyni. En auðvitað þarf þá að sjá honum fyrir tekjuauka mjög verulegum frá því, sem nú er. Og einhverja viðleitni ættu flm. að sýna til þess að gera grein fyrir, hve miklu þær upphæðir muni nema á næstu árum. Ég minnist þess, að í fyrra, þegar frv. um þetta efni var á döfinni í Ed., áleit n., sem um málið fjallaði, að fengnum upplýsingum frá þeim manni, sem mest skynbragð bar á þessa hluti, að kostnaður við rafmagnsvirkjun samkv. frv. myndi ekki verða minni en 70–80 millj. Til samanburðar skal ég geta þess, að samkv. síðasta fasteignamati eru allar fasteignir, hús, mannvirki, lendur og lóðir í sveitum og kauptúnum virtar á tæplega 50 millj. Rafmagnsveiturnar samkv. frv. eru eingöngu ætlaðar sveitum og kauptúnum, því að flestir kaupstaðir landsins hafa þegar byggt rafmagnsstöðvar. Ég verð að játa það, að mér vex þessi upphæð í augum, hún er 50% hærri en fasteignamatið.

Hv. flm. sagði, að bið myndi verða, sumstaðar í mannsaldur eða meira, á framkvæmdum í þessu máli. Í 2. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að sérhvert hérað geti, þegar það æskir þess, heimtað kunnáttumann til að framkvæma undirbúningsrannsókn þessa máls. Slíkar beiðnir myndu vafalaust koma úr flestöllum sveitum landsins, því að alstaðar er áhuginn mikill fyrir að bæta úr rafmagnsþörfinni. Myndi nú ekki örðugt að gera upp á milli héraðanna? Ég er hræddur um, að erfitt verði að ákveða, hverjir eigi að bíða mannsaldurinn, hvað þá lengur.

Ég tel sjálfsagt, að máli þessu verði veitt sú þinglegasta meðferð, sem kostur er — verði vísað til fjhn. og nefndin leiti síðan álits þess manns, sem hæstv. forsrh. sagðist vera búinn að setja til ráðuneytis. Ennfremur vildi ég mega beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort þessum manni hafi ekki verið falið að rannsaka skilyrði fyrir því, að Suðurlandsundirlendið geti fengið rafmagn úr Soginu, sem Reykjavík nú hefir ákveðið að taka til virkjunar, og þá með hverjum kostnaði. Það virðist sjálfsagt að hefja stórvirkjun þar, sem skilyrðin eru bezt, í hinum blómlegu og þéttbýlu héruðum Suðurlandsundirlendis, og Sogið er talið bezt fallið til virkjunar allra okkar mörgu fossa. (Forsrh.: Hann er að rannsaka það). Ennfremur vil ég skjóta því til hæstv. ráðh., hvort ekki væri ástæða til að láta fróða menn, sem eru kunnugir rafmagnsmálum í öðrum löndum, rannsaka, hverjar breyt. það myndi hafa í för með sér á búnaðarháttum Íslendinga, ef bændur fengju nóg og ódýrt rafmagn. (Forsrh.: Þetta á hann að hafa rannsakað í sumar). Þá er hann meira en meðalmaður að gáfum og vinnuþreki, ef hann hefir getað komizt að fullnaðarniðurstöðu í slíku stórmáli á einu sumri! — Loks vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé rétt skilið hjá mér, að aðalstarf þessa manns eigi að vera það, að gera heildaryfirlit yfir það, hvaða héruð á landinu séu til þess fallin að bera stórar veitur, og hvaða héruð geti aðeins borið smáveitur. Það væri hinn mesti óleikur, ef ekki væri farið eftir skilyrðum hvers héraðs í þessu efni. Þess vegna er nauðsynlegt að fá slíkt heildaryfirlit fyrir landið allt hið allra bráðasta.