29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (1023)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Halldór Stefánsson:

Ég ætla ekki að neinu verulegu leyti að taka þátt í almennum umr. um þetta mál. En ég vil leyfa mér að gera fyrirspurn til hv. flm. um eitt atriði.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að rafveitufélögin, eða sýslufélögin og hreppsfélög eigi rétt til að fá rannsókn ókeypis hjá ríkinu á því, hvort skilyrði eru til rafveitu í héraðinu. Að þeirri rannsókn lokinni má gera ráð fyrir tvennu: annaðhvort að álitin séu skilyrði fyrir sameiginlegri rafveitu eða að það séu ekki álitin skilyrði fyrir henni. Segjum t. d., að rannsókn leiddi í ljós allar líkur fyrir slíkum skilyrðum í helmingi héraða landsins, en ekki yrðu álitin skilyrði vegna strjálbýlis eða annars í hinum helmingnum, þá skilst mér eftir frv., að hinn fyrrnefndi helmingur héraðanna hefði rétt til framlags úr ríkissjóði til raflagninga, en hinn helmingurinn ekki, af því að skilyrði eru ekki fyrir hendi.

Afleiðingin er sú, að þá yrði gert upp á milli héraðanna, þannig að sum fengju rétt, sem önnur gætu ekki öðlazt.

Fyrirspurn mín er því sú, hvort það er meining hv. flm. að gera þegnunum í landinu misrétt í þessu máli.