07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (1150)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Einar Jónsson:

Með þeim alvöruþunga, sem þm. eru háðir þessa dagana, má kannske segja, að ekki hafi verið rétt að fara að ræða þetta mál nú, þar sem þm. eru ýmist annars hugar eða láta ekki sjá sig í deildinni. Þó vildi ég ekki verða til þess að biðja um, að málið yrði tekið af dagskrá, enda álít ég, að nóg hafi verið gert að því áður.

Hvenær sem rætt er um stórar umbætur í framfarabaráttu þjóðarinnar, svo sem meiri háttar samgöngubætur á sjó eða landi, verður ekki hjá því komizt að nefna allstórar fjárupphæðir úr ríkissjóði til þess að bera uppi slíkar framkvæmdir. Hv. þdm. er kunnugt um, að flutningur nauðsynjavara frá öðrum löndum og á innlendar hafnir kostar árlega mikið fé. Og til flutninga með ströndum fram og milli hafna verður og að verja stórum fjárframlögum árlega, ef vel á að fara, og þykir þó mikið á skorta enn, að skipakostur sé nægur og flutningar á sjó komnir í það horf, að við megi una.

En þegar flutningar sjóleiðis þykja svo ófullkomnir, hvað skyldi þá mega segja um þá samgönguörðugleika, sem margir dalakarlarnir eiga við að búa, er verða að flytja heimilisforða sinn frá höfnum yfir vegleysur og auðnir fleiri dagleiðir og að vetrinum til, komast hvorki áfram eða til baka með fjórðungsböggul í reipi, ef nokkur snjóalög gerir. Það er ekki glæsilegt til þess að vita, að aðalpóstleiðin umhverfis landið skuli ekki enn vera fær duglegum hestum og vönum ferðamönnum á löngum köflum, ef nokkuð áskýjar af völdum vatnavaxta og fannkomu um sinn.

Þó skal játað, að á síðari árum hafa bifreiðar bætt allmikið úr flutningaþörf ýmsra héraða á vissum tímum árs. En þessi samgöngutæki eru ekki tryggari en svo, að í vætu- og snjóatíð tekur fyrir allar bílferðir áður en nokkurn varir.

Því er svo háttað með afkomu þessara mála þar eystra, að allt er í kalda koli, ef samgöngurnar verða ekki bættar. Stórfelldar framkvæmdir, sem ríkissjóður hefir styrkt, svo sem Skeiða- og Flóaáveitan og mjólkurbúin, verða beinlínis til stórtjóns, ef ekki er bætt úr samgöngunum. Undanfarna tvo vetur hefir verið snjólétt, en í vetur eru allar leiðir lokaðar.

Bændur þar eystra hafa mikinn áhuga á járnbraut og útgræðslu túna sinna. En þeir, sem eru orðnir rosknir og reyndir og sjá það, sem var og er og verða vill, þeim er ljóst, að jarðræktin er unnin fyrir gýg eins og nú er ástatt. Austanfjalls mundi ekkert þýða að setja upp kúabú með t. d. 20 kúm. Mönnum verður ekkert úr mjólkinni, nema þeir geti komið henni frá sér. Ég verð því að segja, að ríkissjóði þýðir ekki að styrkja jarðræktarframkvæmdir hér eystra, nema hann bæti um leið úr samgöngunum.

Í þeim málum er eigi nema um þrjár leiðir að ræða: bílveg, flugferðir eða járnbraut. Liggur þá fyrir að athuga, hver leiðin sé hyggilegust. Um bílvegina er það að segja, að þeir eru bærilegir í þurrkatíð og þegar snjólaust er, enn í bleytum og snjókyngi verða þeir ónothæfir. Ætti bílvegur austur að vera nokkurn veginn öruggur, yrði fyrst og fremst að leggja veginn annarsstaðar en þar, sem hann nú liggur, byggja hann betur en gert hefir verið og loks að byggja yfir mikinn hluta hans. En það hefi ég heyrt kunnuga og sérfróða menn segja, að vegur byggður á þennan hátt yrði dýrari en járnbraut, bæði að stofnkostnaði og í rekstri. Þá eru það flugferðirnar. Þær eru enn svo dýrar, að á þessu stigi málsins koma þær ekki til greina með þungavöru. Um það munu flestir vera sammála.

Mér virðist því svo, að ef hægt er að vekja áhuga fyrir þessum samgöngubótum á annað borð, þá hljóti járnbraut að vera valin. En í sambandi við þetta vil ég minnast á eitt atriði. Það er ekki langt síðan hæstv. dómsmrh. datt það snjallræði í hug að leysa járnbrautarmálið á þann hátt, að bændur eystra legðu fram nokkrar millj. til brautarlagningar. En á þessu ráði er aðeins sá hængur, að bændurnir austanfjalls geta þetta ekki frekar en aðrir bændur, og eigi að setja slíkt skilyrði, er það sama og að segja, að járnbrautin komi aldrei, og vil ég leggja áherzlu á það, að hv. þm. skulu alls eigi reikna með neinu slíku framlagi í járnbrautarmálinu.

Það er mitt álit, að betur hefði átt að reyna á „Títan“ en gert var. En ekki tjáir að sakast um orðinn hlut. Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir hin góðu orð hans um málið að þessu sinni, og þótt ég viti, að hann sé ekki einráður um málið, þykist ég þó vita, að það eigi ekki langt í land, ef hann fylgir því eftir með áhuga og einurð.

Ég þori ekki um það segja, hvort járnbraut yrði einhlít til vetrarferða, en hitt er ég sannfærður um, að hún verður öruggari en bílvegur, jafnvel þótt hann væri dýrari en járnbrautin. Það er hart að verða að segja það, að undir eins og snjór kemur úr lofti verður aðalpóstleiðin kringum landið ófær, og það er hart aðgöngu, að þeim héruðum, sem einskis góðs njóta af strandferðunum, sem þau styrkja þó eins og önnur héruð landsins, skuli ekki vera hjálpað í þessu efni.

Það er eðlilegt, að mörgum hv. þm. — og þá einkum þeim, er búa utan þess svæðis, sem járnbrautinni er ætlað að liggja um — ofbjóði sú upphæð, sem til hennar er ætluð. Þó hafa verið nefndar hærri tölur en þessar tvær og hálf millj., og fyrir mitt leyti myndi ég ekki hika við að ljá málinu fylgi mitt, þótt upphæðin væri miklu hærri.

Ég skyldi alls eigi vera því andvígur, að járnbrautin væri fyrst lögð um aðra landshluta, t. d. norður í land, ef ég áliti, að þörfin væri meiri þar. En eins og ég hefi þegar sagt, álít ég langbrýnasta þörf á járnbraut austur yfir fjall, og þótt ég sé orðinn svo gamall sem á grönum má sjá, óska ég, að ég eigi eftir að sjá eimlest bruna þessa leið, til hagsbóta jafnt fyrir austursýslurnar og höfuðstaðinn.