14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (1276)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Sigurjón Á. Ólafsson:

* Ég verð að segja það, að atkvgr. áðan um hafnargerð á Sauðárkróki skar algerlega úr deilunni milli meiri og minni hl. n. Frá mínu sjónarmiði er þetta svo. Þrettán hv. þdm. réðu því, að stefna meiri hl. var algerlega yfirunnin. Ég ætla mér ekki að deila við dómarann, en þó býst ég við, að einhver millileið sé fær í þessum efnum. Mín skoðun á þessum hlutum er algerlega óbreytt, og hefi ég greinilega lýst henni áður undir umr., og sé því ekki ástæðu til þess að lýsa henni nú. Hitt vil ég undirstrika, að það verður að gilda fullkomið samræmi milli allra hafnarlaga. Ég hefði því í rauninni óskað, að hv. frsm. vildi taka aftur þær till., er lúta að stefnu málsins, því að ef þær kynnu að verða samþ., þá er komið ósamræmi milli einstakra hafnarlaga, en slíkt má alls ekki eiga sér stað. Hér er um að ræða fremur ódýrt mannvirki og sveitin, sem í hlut á, er með þeim fátækustu og minnst megnugu í þessum efnum, og myndi eiga afarörðugt með að standa straum af slíkum framkvæmdum. Vil ég að lokum undirstrika það, að við afgreiðslu þessa máls verður að leggja sömu meginreglu til grundvallar og lögð var í gær, þá er hafnarlagafrv. fyrir Sauðárkrók var afgr. úr deildinni.