21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1931

Lárus Helgason:

Ég skal ekki lengja þessar umr. með því að fara að halda langa ræðu, heldur vil ég aðeins gera örstutta aths.

Ég skaut því fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að hann færi með rangt mál, þegar hann var að vita þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf í sambandi við Vesturlandsveginn. Vil ég nú rökstyðja þetta innskot mitt.

Hæstv. forsrh. sagði, að hann væri fyrir sitt leyti hlynntur því, að til Vesturlandsvegarins yrði lagt það fé; sem þyrfti til þess að fullgera hann á árinu 1931, þó að ekkert fé væri áætlað í fjárl. þess árs í því skyni. Nú veit hv. 1. þm. Reykv. það ósköp vel, að ekki er svo sjaldan gripið til fjár utan fjárl. til einnar eða annarar framkvæmdar, og heimildin til slíks fyrst veitt á næsta þingi á eftir. Þetta var það, sem hæstv. forsrh. átti við, að gert yrði, og ætla ég, að hv. 1. þm. Reykv. sé ekki svo skyni skroppinn, að hann skilji það ekki.