05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (1368)

136. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þegar umr. þessa máls var frestað, átti ég eftir að svara tveimur þm., þeim hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Rang. Sá fyrrnefndi endaði ræðu sína með því að skora á hv. þd. að láta þetta mál ekki komast lengra. En ég tel alveg óviðeigandi að fella frá 2. umr. mál, sem borið er fram af fulltrúum alls þorra bændastéttarinnar íslenzku. Það er alveg óþarfi að snúa þannig út úr þessum ummælum mínum, eins og gert hefir verið, að ég sé með þeim að telja mig sérstaklega fulltrúa allra bænda, því eins og menn vita, var það mþn„ sem búnaðarþingið kaus, sem gerði þetta frv.

Hv. þm. byrjaði á að tala um, að ákvæðið um, að Alþ. skuli velja tvo menn í stj. Búnaðarfél. Íslands., hafi verið sett með góðu samþykki búnaðarþingsins. Já, það hefir vist verið með álíka góðu samþykki eins og er maður lætur af hendi peninga, þegar sagt er við hann: peningana eða lífið. — Eftir því sem ég veit bezt, verður varla sagt, að meiri hl. búnaðarfulltrúanna hafi látið þennan rétt af hendi með góðu geði. Þeir áttu ekki nema um tvennt að velja, og meiri hl. áleit betra fyrir bændastéttina, að Alþ. fengi að velja 2 menn í Búnaðarfélagsstj. heldur en að jarðræktarlögin væru ekki samþykkt. Krafa Alþingis um meirihl.vald í stj. Búnaðarfélagsins var byggð á því, að Búnaðarfél. fengi svo mikið fé til ráðstöfunar úr ríkissjóði, að íhlutun væri nauðsynleg um meðferð þess. Ég hefi áður sýnt fram á, að þetta er rangur grundvöllur, því lögin ákveða sjálf, hvernig fénu skuli varið. Starf Búnaðarfél. samkv. jarðræktarlögunum er því ekki annað en það venjulega skrifstofustarf að úthluta fé eftir ákvæðum laganna. Hitt er ekki annað en útúrsnúningur og fjarstæða, að ég hafi sagt um störf Búnaðarfél. yfirleitt, að þau væru ekki annað en skrifstofustörf. Hv. þm. taldi, máli sínu til stuðnings, að það væri lagt í vald Búnaðarfél., hve hár jarðræktarstyrkurinn er, þar sem það ákvæði, hvað mikið væri lagt í dagsverk. — Þetta er alveg rangt, því það er atvmrh., sem á að setja reglugerð um stæð dagsverkanna, þó Búnaðarfél. hafi tillögurétt um það; það er alls ekki víst, að allir atvmrh. taki till. Búnaðarfél. til greina, þó núv. ráðh. hafi gert það.

Þá komu þeir hv. þm. Borgf. og hv. l. þm. Rang. dálítið inn á breyt. þá, sem gerð var á jarðræktardagsverkunum síðastl. vor, og lýstu óánægju sinni yfir henni. Hv. 1. þm. Rang. sagði, að stj. hefði tekið sér bessaleyfi til þessarar ráðstöfunar, en það er auðvitað alrangt. Það kom ljóst fram í framsögu jarðræktarlaganna á þingi 1928 og nál. um þau, að það var ætlazt til, að stærð dagsverkanna yxi og minnkaði eftir því sem verðhlutföll breytast eftir sérstöku mati.

Það má vitanlega alltaf deila um, hvort slíkt mat er rétt, en ég fullyrði, að það hafi í þessu tilfelli verið gert eftir beztu samvizku. Að álasa fyrir þessa breyt. á þeim grundvelli, að hún hafi verið gerð til þess að lækka styrkinn til bændanna, er mjög óviðurkvæmilegt. Það á vitanlega að meta dagsverkið eins og það er álitið vera í raun og veru, en ekki með tilliti til þess, hvort þeir, sem matið gera, vilja láta styrkinn hækka eða lækka, alveg eins og hv. þm. Borgf. sem hreppstjóri metur verðlagsskrána árlega eftir beztu samvizku, en ekki eftir því, sem hann persónulega vill að hún sé. Og í þessu tilfelli var dagsverkið stækkað, vegna þess að verðlagsbreytingar hafa hnigið í þá átt.

Þá sagði hv. þm., að það eina, sem fært hefði verið þessu frv. til stuðnings, væri óljós ótti um það, að einhverntíma í framtíðinni gæti svo farið, að vilji Búnaðarþings og Búnaðarfélagsstj. rækist á. — En hvers vegna má ekki fyrirbyggja, að sá ótti geti rætzt? Ef ágreiningur rís milli þessara aðilja, svo sem nú er skipað málum, þá er Búnaðarþingið algerlega máttlaust gagnvart Búnaðarfélagsstj. Og þótt nú sé gott samkomulag milli þessara aðilja, vegna þess hve núv. stj. er samvaxin bændum landsins og glögg á þarfir þeirra og áhugamál, þá er eigi víst, að svo verði alltaf. Það gæti farið svo, að þegar Búnaðarþingið vildi halda í suður, þá vildi stj. Búnaðarfélagsins halda í norður. Slíkt samband yrði líkt og milli manns og hests, þar sem maðurinn ætlaði sér að ferðast til suðurs, en hesturinn tæki af honum taumana og héldi til norðurs. Þetta getur komið fyrir, og því þarf að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan i, enda þótt þessu sé eigi til að dreifa nú, eins og ég hefi áður sagt.

Þá vildi hv. þm. gera mikinn mun á því valdi, sem atvmrh. hefði gagnvart stj. nú, og því, sem yrði, ef frv. verður samþ. og annar endurskoðandinn yrði stjórnskipaður. Ég held, að mismunurinn yrði ekki mikill. Ég veit ekki til, að með núverandi fyrirkomulagi hafi atvmrh. nein sérstök tök á þeim hluta stj., er hann skipar, þegar litið er frá því sérstaka tilfelli, að atvmrh. er nú sjálfur í stj. Búnaðarfélagsins. Ég veit ekki til, að þeim séu sett nein erindisbréf, og ráðh. hefir engan frekari aðgang að ályktunum þeirra en þó þeir væru kosnir af Búnaðarþingi. Hann getur spurt þá eftir sem áður, en hann hefir ekki svo mikið vald á þeim, að hann geti vikið þeim frá. En atvmrh. hefir annað vald, sem hann getur beitt, ef hann telur, að Búnaðarþing og stj. fari illa með það fé, sem Búnaðarþinginu er fengið í hendur. Hann getur lagt til við þingið, að þær fjárveitingar séu lækkaðar eða skornar burtu. Og þetta vald hefir hann, hvernig sem stj. Búnaðarfélagsins er kosin. Hv. þm. (PO) var að gera lítið úr þeirri athugun, sem atvmrh. gæti haft í gegnum þann endurskoðanda, er hann skipaði. Hv. þm. sagði, að sú endurskoðun kæmi ekki til framkvæmda fyrr en ári síðar en verkin væru framkvæmd, og væri því ekkert annað en töluendurskoðun. Þetta er algerlega vanhugsað. Ég hefi sagt, að bezta leiðin til þess, að stj. geti fylgzt með starfi Búnaðarfélagsins, væri sú, að hafa ábyggilegan endurskoðanda, sem vekti yfir hag og starfsemi Búnaðarfél. Þetta er einnig álit Búnaðarþingsnefndarinnar, og skal ég því til sönnunar, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr grg. þeirrar n., sem prentuð er í Frey, á bls. 17–18:

„10. gr. Aðalbreytingar greinarinnar leiðir af 5. gr. Ákvæði um endurskoðanda af hálfu ríkisstjórnar teljum vér hið rétta form fyrir eftirlit af hennar hálfu með fjárreiðum félagsins. Með því fyrirkomulagi (sjá og 16. gr.) getur atvinnumálaráðuneytið á hvaða tíma sem er fylgzt með í meðferð þess fjár, sem í hverjum fjárlögum er veitt Búnaðarfélagi Íslands, og þá gert áhrif sín gildandi, ef því sýnist stefnt til óhófs eða fánýtrar eyðslu. Engin slík trygging er sjálfsögð afleiðing núverandi skipulags. Landbúnaðarnefndir Alþingis eiga engu síður en Búnaðarþing á hættu, hvernig mannval tekst í stjórn félagsins, en umfram útnefningarréttinn sjálfan er ekki lögfestur íhlutunarréttur fjárveitingarvaldsins, nema ef vera kynni að því leyti, sem svo beri að skilja, að hinir stjórnskipuðu stjórnarnefndarmenn beri ábyrgð fyrir landbúnaðarnefndum Alþingis“.

Samkv. þessu er það augljóst, að Búnaðarþingsnefndin hefir ætlazt til, að endurskoðandinn hefði sívakandi auga um allt, sem lýtur að rekstri Búnaðarfélagsins. Og hefur mun naumast hægt fyrir atvmrh. að fylgjast með störfum þess en að eiga aðgang að slíkum manni. Þetta dregur því eigi úr kynningu og eftirliti atvmrh. um þennan félagsskap, og á heldur ekki að gera það.

Þá talaði hv. þm. um, að Búnaðarfélagið tæki við miklu fé frá ríkissjóði. Þetta er rétt. En ég vil bara minna hv. þm. á það, að mjög miklu af því fé er fyrirfram ráðstafað. Svo er t. d. með það fé, sem greitt er vegna jarðræktarlaganna. En í sambandi við þetta vil ég enn minna hv. þm. á, að ekki er um það deilt, að atvmrh. eigi að hafa sem bezt eftirlit með störfum Búnaðarfélags Íslands, heldur aðeins um það atriði, hvernig stj. þess skuli vera skipuð.

Þá sagði hv. þm., að það ætti að vera markmiðið, að sem allra bezt samstarf geti orðið milli Alþingis og Búnaðarfélags Íslands. Þetta er vitanlega alveg sjálfsagt og það, sem allir óska að verði. En þar sem valdið um það, sem er efni þessa frv., er í höndum Alþingis, þá væntir einmitt Búnaðarþingið þess, að Alþingi skili aftur með góðu þeim umráðarétti, sem það á sínum tíma tók frá Búnaðarfélaginu, að því hálfnauðugu.

Út af ákúrum þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Rang. um stækkun dagsverksins vil ég segja það, að ekki er allt fengið, þótt meiri hl. stj. Búnaðarfélagsins sé ráðinn af Alþingi, þar sem þetta gat komið fyrir. Ekki er víst, að verr hefði farið, að þeirra dómi, þótt þessir menn hefðu líka verið kosnir af Búnaðarþingi. Nema meining þeirra manna, sem hér telja vera um sök að ræða, sé þá sú, að kasta þessum mönnum í vetur.

Ég held, að um leið og ég hefi svarað hv. þm. Borgf., þá hafi ég líka í raun og veru svarað öllu því, er hv. 1. þm. Rang. sagði, og get því látið þar við sitja. En viðvíkjandi því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að hann áliti núverandi fyrirkomulag heppilega brú milli Búnaðarfélagsins og Alþingis, skal ég aðeins segja það, að ég vil ekki fullyrða, að þetta sé sérlega heppileg brú. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að atvmrh. hafi þá meðalgöngu. Og það hygg ég að sé brú, sem muni duga.