24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (1390)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hefi látið allítarlega grg. fylgja frv. þessu og þarf því færri orð að segja, er ég nú fylgi því hér úr hlaði í hv. d.

Ég vil taka það fram þegar í upphafi, hv. þdm. til glöggvunar, að ég hefi látið skáletra það í frv. þessu, sem frábrugðið er frv. hv. meiri hl. mþn. í tolla- og skattamálum. Að öðru leyti en því, sem segir í grg. minni um einstakar till. mínar, vísast til aths. þeirra, er frv. meiri hl. fylgja og eru að finna á þskj. 65.

Eftir því, sem næst verður komizt, hafa skattar til ríkissjóðs, sveitar- og bæjarfélaga numið um 14–15 millj. króna á ári undanfarin ár, og af þeirri upphæð hafa um 10 millj. gengið til ríkissjóðs, en útsvör og fasteignagjöld til héraða og sýsluvegasjóðsgjöld numið um 4,7 millj. kr. Þessar 14–15 millj. kr. er sú skattabyrði, sem þjóðin hefir að bera, og nemur hún um 150 kr. á hvert nef í landinu, eða 750 kr. á meðalheimili á ári.

Samanborið við flestar okkar nágrannaþjóðir eru þetta mjög lágir skattar. Þeir eru geysimikið hærri t. d. á Þýzkalandi og á Englandi, og nærri helmingi hærri eru þeir í Danmörku; í Noregi eru þeir og miklum mun hærri, en um Svíþjóð er mér ekki nákvæmlega kunnugt. Kemur þetta nokkuð til af því, að ríkisskuldir okkar eru tiltölulega miklu minni en flestra annara þjóða, og að auki erum við, sem betur fer, lausir við einn stærsta útgjaldaliðinn, sem þessar þjóðir stynja undir. Við höfum losnað við allan beinan herkostnað og þau margvíslegu óbeinu útgjöld, sem honum fylgja, stríðsskuldirnar og allt, sem af þeim leiðir.

Að þessu öllu athuguðu mætti ætla, að það hefði reynzt auðvelt að koma skattabyrði okkar réttlátlega fyrir. Í öllu falli réttlátlegar en svo, að jafna 150 krónum á nef hvert. Í Danmörku nema fasteignaskattur og tekju- og eignarskattur jafnhárri upphæð, 150 kr., á íbúa hvern, eins og allir tollar og skattar til ríkis og héraðssjóða hér nema samtals, samkv. árbók Danmerkur fyrir árið 1927. Reynslan sýnir þó, að Alþingi virðist hafa veitzt æðierfitt að koma þessum sköttum réttlátlega fyrir, eða það hefir ekki hirt um að gera það. Lítur jafnvel út fyrir, að Alþingi hafi stundum hallazt að ennþá vitlausari og ranglátari skattastefnu en þeirri, sem enginn mælir þó lengur bót: að taka skattana alla sem nefskatt. Því sumir tollanna eru hæstir á nauðsynjum fátæklinganna. Yfirleitt verður ekki annað sagt en að skattalöggjöf okkar, eins og hún nú er, sé hið átakanlegasta handahófssmíði, sem hugsazt getur.

Þegar samin hafa verið skattalög hér, virðist aðeins hafa verið litið á aðra hliðina: á þörf ríkissjóðs til aukinna tekna. En skattar hafa aðra hlið, sem kalla mætti hina þjóðfélagslegu hlið og lýtur að því, hvernig þeir verka á hag þjóðarheildarinnar og alþýðu og atvinnulífið í landinu. En um þessa hlið virðist alls ekkert hafa verið hugsað, heldur einblínt á hitt, að útvega ríkissjóði tekjur, oftast alveg án þess að taka nokkurt tillit til þess, hvernig skattarnir og tollarnir verka. Sést þetta bezt á því að bera saman tekju- og eignarskatt annarsvegar og þrjá aðaltollana af nauðsynjavörum hinsvegar. Tekju- og eignarskattur nemur að meðaltali á árunum 1924–27 um 12% af öllum skatttekjum ríkissjóðs, eða um 1200 þús. kr. á ári, en á sama tíma nema vörutollur, verðtollur og kaffi- og sykurtollur til ríkissjóðs um 40–45% af öllum skatttekjunum, eða þrefalt til fjórfalt meiru en tekju- og eignarskatturinn gefa. Nú orkar það ekki tvímælis, að tollar þessir hljóta að hækka vöruverð í landinu, en með því er aukin dýrtíðin, spillt efnahag almennings og íþyngt atvinnulífi landsmanna.

Tekju- og eignarskatturinn. hefir numið um 1200 þús. kr. að meðaltali á ári þetta tímabil, sem ég nefndi. Svarar það til um 3,5% af skattskyldum tekjum landsmanna til uppjafnaðar. Tekju- og eignarskattur hafa þannig samtals numið að meðaltali um kr. 3,50 af hverjum 100 krónum skattskyldra tekna.

Ef aftur á móti er litið á, hvað mikið menn verða að greiða í tolla, þá verður annað uppi á teningnum. Hagstofan hefir samið yfirlit yfir matvörukaup og annað, sem 5 manna fjölskylda með 3000–4000 kr. árstekjur þarf sér til viðurværis hér í Reykjavík. Og hefi farið yfir þessa reikninga, sem eru mjög nákvæmlega sundurliðaðir, yfir innkaup ýmsra nauðsynjavara, og samkv. þeim hefir þessi fjölskylda orðið að greiða í tolla og vegna tollanna, þ. e. álagningar á þá, hér um bil 10% af öllum tekjum sínum, og er það engin smáræðis upphæð. Það er þrefalt hærra hundraðsgjald af öllum tekjunum heldur en tekju- og eignarskatturinn samtals er af hinum skattskylda hluta tekna efnamanna.

Nú er þess að gæta, að þegar um skattskyldar tekjur er að ræða, þá er fyrst dreginn frá kostnaður við öflun teknanna, persónufrádrátturinn og öll opinber gjöld, svo sem útsvar og tekju- og eignarskattur, og skatturinn aðeins reiknaður af því, sem þá er eftir. Liggur því í augum uppi, að þennan hluta teknanna, þ. e. það, sem er umfram þurftartekjur, ber að leggja skattana á. Hinn hlutann, brýnustu þurftartekjur, á alls ekki að leggja skatt á. En einmitt þurftartekjurnar eru skattlagðar með nauðsynjavörutollunum, og það svo freklega, að skatturinn af þeim er þrefalt hærri en af skattskyldum tekjum.

Aðalbreyt. í frv. mínu frá því, sem er í frv. hv. meiri hl. mþn., er í 6. gr., þar sem. skattstiginn er ákveðinn. Þar er skattstiginn hækkaður svo, að skatturinn í heild hækkar um rösklega 50%. Auk þess er önnur breyt. gerð, sem skiptir miklu máli, en hún er í því fólgin, að sami skattstigi er ákveðinn fyrir einstaklinga og félög. Í núgildandi lögum er skattur hlutafélaga ákveðinn eftir hlutfallinu milli arðs og hlutafjár félaganna, og kemur því skatturinn býsna ósanngjarnlega niður. Félög með lítið hlutafé greiða margfaldan skatt af sömu tekjum á við hin, sem mikið hlutafé hafa. Þetta er alveg ósanngjarnt. Af sömu skattskyldum tekjum á jafnan að greiða sama skatt, hver sem í hlut á, hvort sem það er félag, stórt eða lítið, eða einstaklingur. Þann mun, sem rétt er að gera á gjaldendum, ber að gera með því að hafa reglurnar um frádrátt og ákvörðun skattskyldra tekna mismunandi.

Önnur breyt., sem verulegu máli skiptir, er, að samvinnufélög fái rétt til að draga varsjóðstillag frá ágóða sínum. Það virðist dálítið einkennilegt, að hlutafélög skuli hafa skattfrjálst 1/3 af varasjóðstillagi sínu, en samvinnufélög ekkert. Hv. meiri hl. leggur til í sínu frv., að samvinnufélögum sé veittur sami réttur og hlutafélögum: þ. e. 1/3 varasjóðstillagsins skuli ekki teljast til skattskyldra tekna. Ég tel þetta of skammt gengið. Samvinnufélögin eru allt öðruvísi sett í þessu efni en hlutafélög. Samvinnufélögum er með lögum gert að skyldu að greiða 1% af viðskiptaveltu sinni í varasjóð, og þennan varsjóð má aldrei nota til að úthluta félagsmönnum, heldur eru lögum um samvinnufélög settar sérstakar reglur um meðferð hans við félagsslit. Er því alveg rangt að skattleggja lögboðið framlag til hans.

Ég er sammála hv. meiri hl. mþn. um að hækka persónufrádráttinn og hafa hann mismunandi eftir dýrtíðinni í landinu. En hinsvegar hefir mér ekki þótt hv. meiri hl. ganga nógu langt í þessu efni. Eftir mínum till. nemur frádrátturinn hér í Reykjavík fyrir 5 manna fjölskyldu 4000 kr., í öðrum kaupstöðum 3300 kr. og í sveitum 2600 kr.

Þá er og aldurshámark barna, er framfærslueyrir dregst frá fyrir, hækkað úr 14 árum upp í 16 ár. Ég ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um þessa breyt. Langflestir unglingar nota, sem betur fer, a. m. k. tvö ár eftir að skólaskyldualdri lýkur til þess að mennta sig bóklega eða verklega, og því er ekki nema sjálfsagt og rétt að taka tillit til þess, og ekki sízt fyrir þá sök, að með aukinni menntun gera unglingarnir sig nýtari og starfshæfari fyrir þjóðfélagið. Einnig mætti benda á, að í fátækralögunum er í sumum tilfellum gert ráð fyrir framfærslustyrk til 15 ára aldurs. Í lögunum um styrk til verkamannabústaða. frá síðasta Alþ. var miðað við 4000 kr. tekjuhámark félagsmanna, og er þar áreiðanlega um þær lágmarkstekjur að ræða, sem gera má ráð fyrir, að meðalfjölskylda geti framfleytt sér á hér í Reykjavík. Persónufrádrátturinn í frv. mínu er einmitt miðaður við þessa ákvörðun Alþingis. Menn, sem þarf að veita opinberan styrk til þess að eignast húsnæði vegna of lágra tekna, geta ekki og eiga ekki að greiða tekjuskatt.

Loks er hér eitt nýmæli í frv. á þá lund, að sveitar- og bæjarfélögum skuli veitt heimild til þess að leggja 50% á tekjuskattinn til sinna sjóða og að innheimtumenn ríkissjóðs skuli heimta það inn með hinum lögboðna tekjuskatti, og auk þess, að 1/3 af tekjuskattinum skuli þá og renna til þessara sömu sjóða.

Ég get skýrt frá því, að það kom til tals í mþn., hvort ekki væri rétt að hækka skattstigann mjög verulega og láta hækkunina renna til bæjar- og sveitarsjóðanna. Ég tel eðlilegra að veita sveitar- og bæjarstjórnum heimild til þess en að setja um það lög að þeim forspurðum. Fátækraframfærslan er nú langþyngsti kostnaðarliður héraðanna. Svo hlýtur að verða á meðan alþýðutryggingum verður eigi komið á, eða landið allt gert að einu framfærsluhéraði. En óhugsandi er, að Alþingi láti mörg ár enn líða svo, að eigi setji það lög um alþýðutryggingar eða breyti fátækralögunum. Þess vegna er gert ráð fyrir, að þetta sé heimildarákvæði, er gildi aðeins um stundarsakir. Loks vil ég geta þess í sambandi við innheimtuna, að í frv. er ráðh. heimilað að ákveða gjalddagana fleiri en einn og skipa fyrir um gerð og sölu skattmerkja til þess að létta fyrir gjaldendum.

Ég mun þá láta mér nægja í bili það, sem ég hefi hér sagt, og legg til, að frv. verði vísað til hv. fjhn. að þessari umr. lokinni.